Content-Length: 141499 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%BDslur_%C3%A1_%C3%8Dslandi

Sýslur Íslands - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Sýslur Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sýslur á Íslandi)
Sýsluskipting Íslands eins og hún var við afnám sýslanna sem stjórnsýslueininga 1988. Samliggjandi sýslur í sama lit voru sama lögsagnarumdæmi sýslumanns. Land kaupstaða er grálitað.

Sýslur Íslands eru fyrrverandi stjórnsýslueiningar á Íslandi sem eru ekki lengur opinberlega í gildi. Sýslur voru umdæmi sýslumanna sem fóru með framkvæmdavald í héraði allt frá því að Ísland gekk undir stjórn Noregskonungs á 13. öld. Sýslumörk festust smám saman í sessi og á fyrri hluta 17. aldar voru sýslurnar 19 talsins. Sýslum var svo ýmist skipt upp eða þær sameinaðar en þær voru 23 talsins þegar þær voru afnumdar sem stjórnsýslueiningar. Á 9. áratug 20. aldar voru gerðar miklar breytingar á sveitarstjórnum og hlutverkum sýslumanna sem leiddu í raun til þess að hin hefðbundna sýsluskipting hafði ekki lengur neitt stjórnsýslulegt gildi.

Þrátt fyrir að sýslurnar hafi fallið niður sem stjórnsýslueiningar þá hafa þær lifað áfram í daglegu tali þegar vísað er til tiltekinna landsvæða.

Upphaf sýsluskipunar

[breyta | breyta frumkóða]
Sýsluskipan á árinu 1703 þegar manntal var tekið á Íslandi.
Listi yfir sýslur
  • 1. Gullbringusýsla
  • 2. Kjósarsýsla
  • 3. Borgarfjarðarsýsla
  • 4. Mýrasýsla
  • 5. Hnappadalssýsla
  • 6. Snæfellsnessýsla
  • 7. Dalasýsla
  • 8. Barðastrandarsýsla
  • 9. Vestur-Ísafjarðarsýsla
  • 10. Norður-Ísafjarðarsýsla
  • 11. Strandasýsla
  • 12. Húnavatnssýsla
  • 13. Skagafjarðarsýsla
  • 14. Eyjafjarðarsýsla
  • 15. Þingeyjarsýsla
  • 16. Norður-Múlasýsla
  • 17. Mið-Múlasýsla
  • 18. Suður-Múlasýsla
  • 19. Austur-Skaftafellssýsla
  • 20. Vestur-Skaftafellssýsla
  • 21. Vestmannaeyjasýsla
  • 22. Rangárvallasýsla
  • 23. Árnessýsla

Þegar Ísland gekk undir Noregskonung á 13. öld þurfti konungur umboðsmenn á landinu til að fara með vald sitt og komu þá til sögunar ný embætti hirðstjórar og sýslumenn. Þess er getið í Gamla sáttmála sem sagður vera frá árinu 1262 að íslenskir höfðingjar hafi sett það sem skilyrði fyrir því að gangast undir vald konungs að sýslumenn yrðu íslenskir og af þeim höfðingjaættum sem áður höfðu farið með goðorðin. Settar hafa verið fram efasemdir um að þessi texti Gamla sáttmála sé í raun frá 13. öld [1] en ljóst er að í framkvæmd fór konungur eftir þessu og skipaði einungis Íslendinga sem sýslumenn. Orðið sýsla merkir í raun verk, vinnu eða athöfn sem maður innir af hendir fyrir sjálfan sig eða annan. Sýslumaður var því sá embættismaður sem innir eitthvað af hendi fyrir konung. Slíkir embættismenn þekktust fyrir í Noregi og Danmörku. Menn höfðu sýslu með ákveðnum landshlutum og hugtakið var þá einnig notað til að vísa til landssvæðis sem sýslumaður hafði sýslu með.[2] Sýslumanna var getið í Járnsíðu og Jónsbók en þar var þó ekki getið um stærð og staðarmörk sýslanna. Í upphafi konungsstjórnar á Íslandi hafa sýslur verið mjög stórar, náð yfir heila landsfjórðunga eða jafnvel fleiri en einn fjórðung.[3][4] Sýsluskiptingin var lengi á reiki, sýslur misstórar og aðallega mótaðar af samkomulagi hvers og eins sýslumanns við konung eða hirðstjóra. Smátt og smátt fóru þær þó að taka á sig fastmótaðri mynd, m.a. með tilliti til þeirra rökréttu landslagsmarka sem hin forna skipting landsins í héraðsþing hafði áður byggt á en það var ekki fyrr en á síðari hluta 16. aldar sem að sýslurnar voru komnar með þau nöfn og staðarmörk sem héldust í tiltölulega föstum skorðum eftir það.[3] Á síðari hluta 17. aldar voru allt að 24 sýslumenn í landinu.[4]

Tekið var manntal á Íslandi árið 1703 og voru þá 23 sýslumenn á Íslandi sem fengu það hlutverk að skila skýrslu úr sinni sýslu um alla menn sem þar fundust fyrir.[5]

Fjölþætt hlutverk

[breyta | breyta frumkóða]

Við endurreisn Alþingis árið 1844 var sýsluskipting landsins notuð til grundvallar kjördæmaskipan við kosningar til þingsins. Í fyrstu kosningunum voru sýslurnar allar einmenningskjördæmi auk Reykjavíkur sem myndaði sérstakt kjördæmi. Eftir því sem þingmönnum á hinu endurreista þingi var fjölgað var sumum sýslum breytt í tvímenningskjördæmi en öðrum skipt upp. Stærstu kaupstaðir urðu einnig að sérstökum kjördæmum. Með uppstokkun kjördæmakerfisins 1959 var hætt að notast við sýslurnar og í staðinn voru tekin upp átta stærri kjördæmi með hlutfallskosningum.

Samkvæmt konunglegri tilskipun um sveitarstjórnarmál árið 1872 fengu sveitarfélög forræði yfir eigin málum og settar voru á laggirnar kjörnar hreppsnefndir og sýslunefndir auk amtsráða sem sýslunefndarmenn kusu fulltrúa í. Með þessum breytingum dró mjög úr boðvaldi sýslumanna sem fulltrúa konungs í héraði þar sem ýmis staðbundin mál heyrðu nú undir forræði kjörinna fulltrúa í hrepps- og sýslunefndum. Sýslur höfðu upp frá þessu í raun tvöfalt hlutverk, annars vegar sem sveitarstjórnarumdæmi sem höfðu umboð kjósenda og hins vegar sem lögsagnarumdæmi sýslumanna sem umboðsmanna framkvæmdavaldsins. Þetta tvöfalda hlutverk birtist til dæmis í því að farið var að skipta sumum sýslum upp í sveitarstjórnarskyni þó að þær héldust óbreyttar sem lögsagnarumdæmi. Þannig var t.d. Húnavatnssýslu skipt upp í tvö sýslufélög í sveitarstjórnarmálum (Austur- og Vestur-Húnavatnssýsla) en óskipt Húnavatnssýsla hélt áfram að vera til sem lögsagnarumdæmi sýslumanns.

Allir hreppar voru hluti af sýslufélagi og völdu kjósendur í hverjum hreppi einn fulltrúa til að sitja í sýslunefndinni. Sýslumaður var ávallt formaður sýslunefndar. Verkefni sýslufélaganna voru fjölbreytt og snertu til dæmis gerð og viðhald sýsluvega, fjallskil, fátækraframfærslu og fræðslumál. Sýslufélögin fjármögnuðu verkefni sín með gjöldum sem lögð voru á hreppana samkvæmt ákvörðunum sýslunefnda en þessi gjöld voru mjög mishá á milli sýslufélaga þar sem umfangið á útgjöldum þeirra var einnig misjafnt. Í sumum sýslum voru sýslufélög með umfangsmikinn rekstur á skólum, söfnum, elliheimilum o.s.frv. á meðan hrepparnir sjálfir fóru með þau mál milliliðalaust í öðrum sýslum.[6]

Kaupstaðir voru á hinn bóginn ekki hluti af sýslufélögunum og þegar hreppur fékk kaupstaðarréttindi gekk hann um leið úr sýslufélaginu. Kaupstaðir höfðu þannig meiri stjórn á sínum málum og greiddu ekki í sýslusjóði. Kaupstaðir mynduðu einnig sjálfstæð lögsagnarumdæmi og bæjarfógetar fóru þar með þau löggæslu- og dómsmál sem sýslumenn sáu um í dreifbýlinu. Hins vegar var það þó víða þannig að sami embættismaðurinn gegndi samhliða stöðu bæjarfógeta og sýslumanns, til dæmis var sýslumaður Gullbringusýslu einnig bæjarfógeti kaupstaðanna í Keflavík, Njarðvík og Grindavík.

Í bílnúmerkerfinu fyrir 1989 fór bókstafurinn í númerinu eftir því í hvaða sýslu eða kaupstað eigandi ökutækis var með lögheimili. H stóð fyrir Húnavatnssýslu.
Umdæmi sýslumanna eftir breytingar á þeim 2014.

Þegar leið á seinni helming 20. aldar var farið að kalla eftir umbótum og einföldun stjórnkerfisins, bæði á sveitarstjórnarstiginu þar sem farið var að leggja áherslu á sameiningu fámennra sveitarfélaga og einnig á fyrirkomulagi umboðsvalds og dómsvalds sem var á höndum sýslumanna og bæjarfógeta. Á 9. áratugnum var því ráðist í miklar lagabreytingar sem í reynd lögðu sýslur af sem stjórnsýsluumdæmi. Árið 1986 voru samþykkt ný sveitarstjórnarlög sem mæltu fyrir um að sýslufélög skyldu afnumin í árslok 1988 og að öll sveitarfélög í landinu skyldu hafa sömu réttarstöðuna, hvort sem um hreppa eða kaupstaði væri að ræða.[7] Í stað sýslufélaga áttu að koma héraðsnefndir sem byggðu á valfrjálsri þátttöku sveitarfélaga og sem kaupstaðir gátu líka verið aðilar að. Slíkar héraðsnefndir störfuðu sums staðar á grunni gömlu sýslufélaganna en síðar hefur samstarf sveitarfélaga aðalega færst yfir á vettvang landshlutasamtaka sem taka yfir stærra svæði.[8][9] Víða hafa sveitarfélög einnig sameinast þannig að þau ná nú yfir heilar sýslur. Sveitarfélagið Borgarbyggð er til dæmis myndað úr öllum hreppum fyrrum Mýrasýslu, mörgum hreppum fyrrum Borgarfjarðarsýslu og einum hreppi að auki úr fyrrum Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu.

Samhliða breytingum á sveitarstjórnarstiginu var ráðist í breytingar á embættum sýslumanna og bæjarfógeta. Aðalhvatinn að þeim breytingum var sá að fyrirkomulag framkvæmdavalds og dómsvalds á landsbyggðinni hafði sætt gagnrýni erlendis vegna þess að sami embættismaðurinn (eða fulltrúar hans) fóru með lögregluvald og rannsókn mála og svo dæmdu svo í sömu málum. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu vegna máls manns sem hafði verið dæmdur fyrir umferðarlagabrot á Akureyri var svo kornið sem fyllti mælinn. Með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði var skilið á milli rannsókna og ákæruvalds í sakamálum annars vegar og dómsvaldsins hins vegar með því að stofnaðir voru sérstakir héraðsdómstólar sem lægsta þrep dómsvaldsins í öllum málum.[10][11] Um leið voru þær breytingar gerðar á umboðsvaldinu að landinu var skipt í 27 umdæmi sýslumanna. Hætt var að kenna embættin við hinar fornu sýslur heldur tekið upp að kenna embættin við aðsetur sýslumanns, t.d. varð sýslumaður Barðastrandarsýslu að sýslumanninum á Patreksfirði. [11] Eftir þessa breytingu voru umdæmi sýslumanna einnig skilgreind í reglugerð með upptalningu á sveitarfélögum sem falla undir hvert umdæmi. Þessi nýju sýslumannsumdæmi féllu að mestu leyti saman við hina hefðbundnu sýsluskipan en þó með nokkrum undantekningum, s.s. að leggja nokkur nágrannasveitarfélög Reykjavíkur úr fyrrum Kjósarsýslu undir sýslumanninn í Reykjavík og að láta Svalbarðsstrandar- og Grýtubakkahrepp fylgja sýslumanninum á Akureyri þó að þessir hreppar hafi áður tilheyrt Þingeyjarsýslu.[11] Eftir því sem sveitarfélög sameinuðust á næstu árum voru þau stundum sameinuð þvert á sýslumörk þannig að umdæmi sýslumanna ýmist minnkuðu eða stækkuðu eftir því í hvaða umdæmi hinu sameinaða sveitarfélagi var skipað.

Embætti sýslumanna voru stokkuð upp á nýjan leik með lagabreytingu árið 2014 og var þeim þá fækkað niður í níu. Lögsagnarumdæmi sýslumanna byggja nú á sömu skiptingu landsins í landshluta og landshlutasamtök sveitarfélaga, með þeirri undantekningu að Vestmannaeyjar eru sérstakt umdæmi sýslumanns.[12]

Sýslurnar voru 23 talsins.

Nafn Stærð (km²)[13] Landshluti
Árnessýsla 7.932 Suðurland
Austur-Barðastrandarsýsla 1.074 Vestfirðir
Austur-Húnavatnssýsla 4.295 Norðurland
Austur-Skaftafellssýsla 3.041 Austurland
Borgarfjarðarsýsla 1.786 Vesturland
Dalasýsla 2.078 Vesturland
Eyjafjarðarsýsla 4.089 Norðurland
Gullbringusýsla 1.216 Vesturland
Kjósarsýsla 664 Vesturland
Mýrasýsla 3.092 Vesturland
Norður-Ísafjarðarsýsla 1.958 Vestfirðir
Norður-Múlasýsla 10.568 Austurland
Norður-Þingeyjarsýsla 5.393 Norðurland
Rangárvallasýsla 7.365 Suðurland
Skagafjarðarsýsla 5.040 Norðurland
Snæfells- og Hnappadalssýsla 2.163 Vesturland
Strandasýsla 3.465 Vestfirðir
Suður-Múlasýsla 3.970 Austurland
Suður-Þingeyjarsýsla 11.134 Norðurland
Vestur-Barðastrandarsýsla 1.519 Vestfirðir
Vestur-Húnavatnssýsla 2.663 Norðurland
Vestur-Ísafjarðarsýsla 1.221 Vestfirðir
Vestur-Skaftafellssýsla 5.663 Suðurland

Kaupstaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Auk sýslnanna voru 24 sjálfstæðir bæir, kaupstaðir.

Nafn Kaupstaðarréttindi
Akranes 1942
Akureyri 1786 (missti þau 1836, fékk aftur 1862)
Bolungarvík 1974
Dalvík 1974
Eskifjörður 1786 (missti þau en endurheimti 1974)
Garðabær 1975
Grindavík 1974
Hafnarfjörður 1908
Húsavík 1950
Ísafjörður 1786 (missti þau en endurheimti 1866)
Keflavík 1949
Kópavogur 1955
Neskaupstaður 1929
Njarðvík 1975
Ólafsfjörður 1945
Ólafsvík 1983
Reykjavík 1786
Sauðárkrókur 1947
Selfoss 1978
Seltjarnarnes 1974
Seyðisfjörður 1895
Siglufjörður 1918
Vestmannaeyjar 1786 (missti þau en endurheimti 1918)

Grundarfjörður (fékk kaupstaðarréttindi 1786 en missti þau og endurheimti ekki aftur)

Í flokkunarkerfi Sarps er minjum úthlutuð landfræðileg staðsetning eftir sýslum.[14]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Getur það staðist að Gamli sáttmáli sé bara seinni tíma tilbúningur?“. Vísindavefurinn.
  2. Finnur Jónsson (1.1.1933). „Sýsla. Sýslumaður“. Árbók hins íslenzka fornleifafélags.
  3. 3,0 3,1 Axel Kristinsson (1998). „Embættismenn konungs fyrir 1400“. Saga.
  4. 4,0 4,1 Hjálmar Vilhjálmsson (1.1.1965). „Sýslumenn á Jónsbókartímabilinu 1242-1732“. Tímarit lögfræðinga.
  5. „Manntal á Íslandi árið 1703“. Hagstofa Íslands. 1924. Sótt 29.6.2021.
  6. Magnús E. Guðjónsson (1.4.1973). „Kaupstaður eða hreppur?“. Sveitarstjórnarmál. bls. 59.
  7. Ferill 54. máls á 108. löggjafarþingi. Sveitastjórnarlög.
  8. „Er þriðja stjórnsýslustigið að myndast“. Sveitarstjórnarmál. 1.3.2012. bls. 12.
  9. Landshlutasamtök sveitarfélagasamband.is, skoðað 22.6.2021.
  10. Frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. 111. löggjafarþing. 182. mál.
  11. 11,0 11,1 11,2 Björg Thorarensen (1.6.1992). „Nýr héraðsdómstóll í hverju kjördæmi landsins“. Sveitarstjórnarmál. bls. 167.
  12. Umfangsmiklar breytingar á umdæmum sýslumanna og lögreglu í gildi um áramót – Dómsmálaráðuneytið. 31.12.2014. Skoðað 22.6.2021.
  13. „Kvasir - Rof í sýslum“. Sótt 20. febrúar 2008.
  14. Sarpur.is - Tölfræðin








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/S%C3%BDslur_%C3%A1_%C3%8Dslandi

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy