Glæruforrit
Glæruforrit er notendahugbúnaður til að búa til glærusýningu: röð af „glærum“ eða spjöldum sem ætluð eru til birtingar á tjaldi eða skjá. Helstu hlutar glæruforrita eru ritill til að setja upp myndir og texta, og ýmis sýningarvirkni eins og tímasettar flettingar, hreyfðar flettingar og framsögunótur fyrir fyrirlesara. Öflug glæruforrit styðja gerð hreyfimynda, gagnvirkni, hljóð- og myndbandsupptöku og fleira. Algengt er að glæruforrit séu hluti af skrifstofuhugbúnaði.
Fyrsta glæruforritið sem kom á markað var VCN ExecuVision árið 1982. Algeng glæruforrit eru Microsoft PowerPoint, Apple Keynote og LibreOffice Impress, og vefforritin Google Docs, Emaze og Prezi.