Content-Length: 139570 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Juscelino_Kubitschek

Juscelino Kubitschek - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Juscelino Kubitschek

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Juscelino Kubitschek
Juscelino Kubitschek árið 1956.
Forseti Brasilíu
Í embætti
31. janúar 1956 – 30. janúar 1961
VaraforsetiJoão Goulart
ForveriNereu Ramos (starfandi)
EftirmaðurJânio Quadros
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. september 1902
Diamantina, Minas Gerais, Brasilíu
Látinn22. ágúst 1976 (73 ára) Resende, Rio de Janeiro, Brasilíu
ÞjóðerniBrasilískur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn (1945–1965)
MakiSarah Gomes de Lemos (g. 1939)
Börn2
HáskóliUniversidade Federal de Minas Gerais
Undirskrift

Juscelino Kubitschek de Oliveira (12. september 1902 – 22. ágúst 1976), einnig kallaður JK, var brasilískur stjórnmálamaður og læknir sem var 21. forseti Brasilíu frá 1956 til 1961. Stjórnartíð hans einkenndist af efnahagsfarsæld og pólitískum stöðugleika.[1] Kubitschek er sér í lagi þekktur fyrir að hafa skipað byggingu nýrrar höfuðborgar, Brasilíu.

Juscelino Kubitschek var kominn af tékkneskum innflytjendum. Faðir hans lést þegar hann var barnungur en móðir hans, sem var kennslukona, sá til þess að hann gengi menntaveginn þrátt fyrir að hún ætti erfitt með að kosta hann til náms. Kubitschek byrjaði að vinna fyrir sér strax og hann hafði aldur til og vann samhliða námi sem símritari í nokkur ár. Hann lauk læknisprófi þegar hann var 25 ára gamall og fór síðan í framhaldsnám í París, Berlín og Vín.[2]

Þegar Kubitschek sneri heim úr náminu settist hann að í Belo Horizonte, höfuðborg fylkisins Minas Gerais. Hann vann þar aðallega við skurðlækningar og var talinn einn færasti skurðlæknir landsins. Hann hafði ekki haft mikinn áhuga á stjórnmálum á námsárum sínum en þetta breyttist þegar Getúlio Vargas komst til valda í Brasilíu á fjórða áratugnum. Kubitschek hreifst af Vargas, sér í lagi af aðgerðum hans til að koma á umbótum í þágu landbúnaðarverkafólks. Hann hætti því læknastörfum og hóf feril í stjórnmálum. Kubitschek varð fyrst fulltrúi fylkisstjórans í Minas Gerais, svo þingmaður og þar næst borgarstjóri í Belo Horizonte. Loks varð hann fylkisstjóri Minas Gerais.[2]

Kubitschek gat sér gott orð sem borgarstjóri og fylkisstjóri í Minas Gerais. Stjórn hans þótti umbótasinnuð og atorkusöm, sér í lagi í menntamálum, heilbrigðismálum og öðrum félagsmálum.[2]

Getúlio Vargas fyrirfór sér árið 1954 og fráfall hans skildi eftir sig tómarúm meðal stuðningsmanna hans. Enginn þótti sjálfsagður arftaki hans sem leiðtogi Jafnaðarmannaflokks Vargasar en að endingu var það Kubitschek sem var valinn sem forsetaefni hans í næstu kosningum, sem voru haldnar þann 3. október 1955. Í kosningunum voru fjórir í framboði og Kubitschek hlaut þeirra flest atkvæði, eða alls 3.600.000 sem nam 36 prósentum. Hann var þar með kjörinn forseti Brasilíu.[2]

Tilteknir aðilar innan Brasilíu vildu ekki að Kubitschek tæki við forsetaembætti þar sem hann var náinn Vargas, sem hafði komist upp á kant við brasilíska herinn á síðustu valdaárum sínum.[3] Jafnframt stóð þeim uggur af nýkjörnum varaforseta, João Goulart, sem var talinn langt til vinstri og hafði notið stuðnings kommúnista í kosningunum. Fráfarandi forsetinn Café Filho var meðal þeirra sem vildu koma í veg fyrir embættistöku Kubitscheks en brasilíski herinn undir forystu Henrique Teixeira Lott hershöfðingja skarst í leikinn og veik Filho og fylgismönnum hans úr embætti stuttu fyrir lok kjörtímabilsins til að tryggja að Kubitschek gæti tekið við forsetaembættinu.[2]

Kunnasta verkið sem unnið var á forsetatíð Kubitschek var bygging nýrrar höfuðborgar, Brasilíu, í stað gömlu höfuðborgarinnar Rio de Janeiro. Hugmyndin um að hvetja Brasilíumenn til að flytja til vesturhluta landsins með því að flytja höfuðborgina þangað hafði fyrst komið fram þegar Brasilía varð lýðveldi árið 1889 en Kubitschek var ákveðinn í að gera hugmyndina að veruleika. Þegar hann tók við embætti árið 1956 lofaði Kubitschek því að hefja starfið við byggingu nýju höfuðborgarinnar strax á næsta ári.[4]

Arkitektinn Oscar Niemeyer var fenginn til að hanna flestar byggingar borgarinnar í nútímalegum stíl. Undir lok embættistíðar Kubitschek var búið að færa byggingar ríkisstjórnarinnar til Brasilíu og ljúka um þriðjungi heildarframkvæmdanna.[5]

Kubitschek var þakkað fyrir mesta uppgangstímann í sögu Brasilíu fram til hans tíma en stjórnarhættir hans voru einnig tengdir við óðaverðbólgu sem fylgdi í kjölfarið. Kubitschek lét af völdum eftir kjörtímabil sitt árið 1961 við miklar vinsældir en eftir embættistíð hans varð til mikill pólitískur óstöðugleiki í Brasilíu sem stuðlaði að því að brasilískir herforingjar frömdu valdarán árið 1964.[6] Kubitschek hugðist bjóða sig aftur fram til forseta í næstu kosningum en nýja herforingjastjórnin lét svipta hann kjörgengi í tíu ár og banna starfsemi stjórnmálaflokka.[7]

Fyrrum forsetinn Kubitschek var áfram vinsæll leiðtogi stjórnarandstöðunnar á tíma einræðisins í Brasilíu. Kubitschek lést þann 22. ágúst árið 1976 þegar rúta keyrði á bifreið hans á hraðbraut í Rio de Janeiro. Atvikið var talið slys en árið 2013 leiddi rannsóknarnefnd líkur að því að Kubitschek hefði verið myrtur og að bílstjóri rútunnar hefði fengið borgað fyrir að gangast við ábyrgð á dauða hans.[8] Árið 2014 ályktaði sannleiksnefnd hins vegar að dauði Kubitschek hefði verið slys.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Homenageados › Juscelino Kubitschek“. Centro Cultural Oscar Niemeyer (portúgalska). Afrit af upprunalegu geymt þann 5. janúar 2016. Sótt 22. febrúar 2015.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Juscelino Kubitschek“. Tíminn. 20. janúar 1956. bls. 5-6.
  3. „Hinn nýkjörni forseti Brasilíu – lærisveinn Vargasar“. Morgunblaðið. 5. nóvember 1955. bls. 7; 12.
  4. „Brasilía, höfuðborg Brasilíu“. Vísir. 28. mars 1960. bls. 3.
  5. „Þeir reisa borg sína frá grunni“. Alþýðublaðið. 16. mars 1961. bls. 4; 12.
  6. „Einræði í Brasilíu“. Alþýðublaðið. 6. nóvember 1965. bls. 5.
  7. Þórarinn Þórarinsson (12. júní 1965). „Brasilía á leið til fasisma“. Tíminn. bls. 7.
  8. „Fórnarlamb pólitísks samsæris“. Morgunblaðið. 11. desember 2013. bls. 4.
  9. Morte de JK foi acidental, conclui Comissão Nacional da Verdade Uol Notícias, 22/4/2014


Fyrirrennari:
Nereu Ramos
(starfandi)
Forseti Brasilíu
(31. janúar 195630. janúar 1961)
Eftirmaður:
Jânio Quadros










ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Juscelino_Kubitschek

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy