Content-Length: 255440 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/Mi%C3%B0baugs-G%C3%ADnea

Miðbaugs-Gínea - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Miðbaugs-Gínea

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveld­ið Miðbaugs-Gínea
República de Guinea Ecuatorial
República da Guiné Equatorial
République de la Guinée Équatoriale
Fáni Miðbaugs-Gíneu Skjaldarmerki Miðbaugs-Gíneu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unidad, Paz, Justicia (spænska)
Eining, friður, réttlæti
Þjóðsöngur:
Caminemos pisando la senda
Staðsetning Miðbaugs-Gíneu
Höfuðborg Malabó
Opinbert tungumál spænska, portúgalska, franska
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Teodoro Obiang Nguema Mbasogo
Forsætisráðherra Francisco Pascual Obama Asue
Sjálfstæði
 • frá Spáni 12. október, 1968 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
141. sæti
28.050 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
154. sæti
1.454.789
24,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 29,162 millj. dala (135. sæti)
 • Á mann 21.442 dalir (98. sæti)
VÞL (2019) 0.592 (145. sæti)
Gjaldmiðill CFA-franki (XAF)
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .gq
Landsnúmer +240

Miðbaugs-Gínea er land í Mið-Afríku og eitt af minnstu ríkjum álfunnar. Það á landamæri að Kamerún í norðri og Gabon í suðri, og strandlengju við Gíneuflóa í vestri þar sem eyjarnar Saó Tóme og Prinsípe liggja til suðvesturs. Landið var áður spænska nýlendan Spænska Gínea. Landinu tilheyra nokkrar stórar eyjar, þar á meðal Bioko þar sem höfuðborgin Malabó (áður Santa Isabel) stendur. Meginlandshlutinn nefnist Río Muni.

Portúgalir lögðu eyjarnar Bioko og Annobón undir sig árið 1474 en létu þær Spánverjum eftir árið 1778. Þangað söfnuðust landnemar frá nýlendum Spánverja víða um heim auk fólks frá Síerra Leóne og Líberíu. Eftir aldamótin 1900 byggðist efnahagur landsins á ræktun kaffis og kakós og timbri, aðallega með verkafólki frá Líberíu, Nígeríu og Kamerún. Landið fékk sjálfstæði árið 1968 og fyrsti forseti þess var Francisco Macías Nguema. Hann kom á flokksræði. Á 8. áratugnum var stjórn hans sökuð um fjöldamorð á íbúum landsins. Árið 1979 steypti Teodoro Obiang honum af stóli. Macías Nguema var dæmdur og tekinn af lífi skömmu síðar. Obiang hefur síðan ríkt sem forseti yfir landinu með mikil völd þótt landið sé að nafninu til fjölflokkalýðræði.

Stórar olíulindir uppgötvuðust í landinu árið 1996 og hagnýting þeirra hefur aukið tekjur ríkisins gríðarlega. Olía og olíuafurðir eru um 97% af útflutningi landsins. Skógrækt, landbúnaður og fiskveiðar eru mikilvægar atvinnugreinar. Verg landsframleiðsla á mann er sú hæsta af öllum löndum í Afríku sunnan Sahara,[1] en misskipting er mikil og lítill hópur hagnast á olíusölunni. Landið er í 145. sæti á vísitölu um þróun lífsgæða[2], innan við helmingur íbúa hefur aðgang að hreinu drykkjarvatni og 1 af 12 börnum deyja fyrir fimm ára aldur.[3][4] Yfir 90% íbúa eru kristnir, flestir rómversk-kaþólskir.

Ríkisstjórn Miðbaugs-Gíneu er alræðisstjórn og hefur eitt versta orðspor allra ríkja heims í mannréttindamálum. Landið hefur ítrekað fengið einkunnina „verst af þeim verstu“ í árlegri frelsisvísitölu Freedom House.[5] Fréttamenn án landamæra hafa sett Obiang forseta á lista yfir ógnvalda fjölmiðlafrelsis.[6] Mansal er stórt vandamál í Miðbaugs-Gíneu og bent hefur verið á að þaðan komi mörg fórnarlömb bæði vinnumansals og kynlífsþrælkunar. Samkvæmt bandarískri skýrslu uppfyllir landið ekki lágmarksskilyrði til að koma í veg fyrir mansal, en hefur tekið mikilvæg skref í þá átt.[7]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Miðbaugs-Gínea liggur á vesturströnd Mið-Afríku. Landið skiptist í meginlandshluta, Río Muni, sem á landamæri að Kamerún í norðri og Gabon í austri og suðri, og fimm litlar eyjar, Bioko, Corisco, Annobón, Elobey Chico („Litla Elobey“) og Elobey Grande („Stóra Elobey“). Höfuðborgin Malokó er á eyjunni Bioko sem liggur 40 km undan strönd Kamerún. Annobón er um 350 km vestsuðvestur af Lópeshöfða í Gabon. Corisco og Elobey-eyjarnar eru í Corisco-flóa þar sem landamæri Río Muni og Gabon liggja.

Miðbaugs-Gínea er milli 4. breiddargráðu norður og 2. breiddargráðu suður og 5. lengdargráðu vestur og 12. lengdargráðu austur. Þrátt fyrir nafnið er þó enginn hluti landsins á miðbaug. Miðbaugs-Gínea er öll á norðurhveli nema eyjan Annobón sem er um 155 km sunnan við miðbaug.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Héruð Miðbaugs-Gíneu
Héruð Miðbaugs-Gíneu

Miðbaugs-Gínea skiptist í átta héruð. Héruðin skiptast síðan í 19 umdæmi og 37 sveitarfélög.

  1. Annobón-hérað (San Antonio de Palé)
  2. Bioko Norte-hérað (Malabo)
  3. Bioko Sur-hérað (Luba)
  4. Centro Sur-hérað (Evinayong)
  5. Djibloho (Ciudad de la Paz)
  6. Kié-Ntem-hérað (Ebebiyín)
  7. Litoral-hérað (Bata)
  8. Wele-Nzas-hérað (Mongomo)

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Estadio de Bata í Bata.

Miðbaugs-Gínea hélt Afríkubikarinn 2012 ásamt Gabon og hýsti sjálft Afríkubikarinn 2015. Landið hýsti og sigraði Afríkumeistaramót kvenna í knattspyrnu 2015. Landslið Miðbaugs-Gíneu í knattspyrnu kvenna ávann sér rétt til þátttöku í Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu kvenna 2011.

Í júní 2016 var Miðbaugs-Gínea valin til að halda Afríkuleikana 2019, en sagði sig frá því vegna efnahagsörðugleika svo leikarnir voru fluttir til Rabat í Marokkó.

Miðbaugs-Gínea á þekkta sundmenn eins og Eric Moussambani[8] og Paula Barila Bolopa, sem tóku þátt í Sumarólympíuleikunum 2000.[9]

Vinsældir körfuknattleiks hafa farið vaxandi í landinu.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. GDP – per capita (PPP) – Country Comparison. Indexmundi.com. Sótt 5. maí 2013.
  2. „2019 Human Development Index Ranking | Human Development Reports“. hdr.undp.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. maí 2020. Sótt 29. mars 2020.
  3. „Mortality rate, under-5 (per 1,000 live births) | Data“. data.worldbank.org.
  4. „Equatorial Guinea profile“. BBC. 21. mars 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2014. Sótt 23. september 2020.
  5. Worst of the Worst 2010. The World's Most Repressive Societies. freedomhouse.org
  6. Equatorial Guinea – Reporters Without Borders Geymt 15 október 2010 í Wayback Machine. En.rsf.org. Sótt 5. maí 2013.
  7. "Equatorial Guinea". Trafficking in Persons Report 2020. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna (16. júní 2020).
  8. O'Mahony, Jennifer (27. júlí 2012). „London 2012 Olympics: how Eric 'the Eel' Moussambani inspired a generation in swimming pool at Sydney Games“. The Daily Telegraph. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. apríl 2005. Sótt 18. desember 2012.
  9. 'Paula the Crawler' sets record“. BBC News. 22. september 2000. Sótt 18. desember 2012.
  10. Scafidi, Oscar (1. nóvember 2015). Equatorial Guinea. Bradt Travel Guides Ltd. bls. 126. ISBN 9781784771362. Sótt 10. september 2021.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/Mi%C3%B0baugs-G%C3%ADnea

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy