Alberta (fylki)

Fylki í Kanada

Alberta er eitt af fylkjum Kanada. Það er nefnt í höfuðið á prinsessunni Lovísu Karólínu Albertu (1848-1939), fjórðu dóttur Viktoríu Bretadrottningar. Lovísa prinsessa var einnig eiginkona Sir John Campbell, sem var yfirlandsstjóri Kanada frá 1878-1883. Alberta er 4. fjölmennasta og 4. stærsta fylki Kanada og var stofnað árið 1905. Fólksfjöldi árið 2024 var um 4,8 milljónir.

Alberta
Fáni Alberta Skjaldarmerki Alberta
(Fáni Alberta) (Skjaldarmerki Alberta)
Kjörorð: Fortis et Liber (Öflug og frjáls)
Kort af Alberta
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg Edmonton
Stærsta borgin Calgary
Fylkisstjóri Salma Lakhani
Forsætisráðherra Danielle Smith (UCP)
Svæði 661.848 km² (6. Sæti)
 - Land 642.317 km²
 - Vatn 19.531 km² (2,95%)
Fólksfjöldi (2024)
 - Fólksfjöldi 4.850.000 (4. Sæti)
 - Þéttleiki byggðar 4,63 /km² (6. Sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning September 1, 1905 (skipting frá Northwest Territories)
 - Röð Níunda (fylki)
Tímabelti UTC-7
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 28
 - Öldungadeild 6
Skammstafanir
 - Póstur AB
 - ISO 3166-2 CA-AB
Póstfangsforskeyti T
Vefur www.gov.ab.ca
Borgir og bæir í Alberta.

Söguágrip

breyta

Frumbyggjar hafa verið á svæðinu sem nú er Alberta að minnsta kosti í 8000 ár. Þeir veiddu vísunda á sléttunum þar. Meðal hópa frumbyggja voru Svartfætlingar, Sjósjónar, Kríar og Tsjipewar. Þegar Evrópubúar komu á svæðið sýktust frumbyggjar af bólusótt og varð mannfall af þeim völdum. Frumbyggjarnir áttu í innbyrðis átökum og í lok 18. aldar hröktu Svartfætlingar Sjósjónaættbálka suður á bóginn.

Fyrsti Evrópubúinn sem kom til Alberta var líklega skinnakaupmaðurinn og Frakkinn Pierre La Vérendrye sem kom frá Manitoba árið 1730. Um miðja öldina voru könnuðir eins og David Thompson og Alexander MacKenzie á svæðinu. MacKenzie nam land við Fort Chipewyan fyrstur Evrópubúa árið 1788. Franskir og breskir skinnakaupmenn áttu í erjum á svæðinu.

Margir bæir og borgir í fylkinu voru fyrst stofnuð sem verslunarstaðir fyrir skinnavöru. Hudson-flóafélagið gerði tilkall til svæðisins og taldi það hluta af Rupert's Land (einnig Norðvesturhéruðin) þar til það lét svæðið af höndum til Kanadastjórnar árið 1868. Stjórnin vann að þvi að gera samninga við frumbyggja svæðisins um notkun lands. Til að koma á stöðugleika á svæðinu stofnuðu stjórnvöld til lögregluliðs (North-West Mounted Police) sem hafði bækistöðvar í bæjum eins og Fort MacLeod, Edmonton og Calgary. Árið 1882 varð svæðið hluti af Norðvesturhéruðunum, kallað District of Alberta.

Í lok 19. aldar höfðu Evrópubúar gengið nærri stofnum vísunda á svæðinu sem kom niður á frumbyggjum þar sem vísundakjöt var aðalfæða þeirra. Eftir því sem vísundunum fækkaði hófu þeir að rækta búfénað, aðallega nautgripi. Bandarískir innflytjendur komu í stórum stíl til að freista gæfunnar í landbúnaði. Einnig komu hópar frá meginlandi Evrópu, mest frá Þýskalandi, Úkraínu og Skandinavíu.

Þann 1. september árið 1905 varð Alberta að fylki innan Kanada. Ríkistjórnin í Ottawa hafði fyrst um sinn umráð yfir náttúruauðlindum svæðisins.

Bændur komust til valda í stjórnmálum á 3. áratug 20. aldar, þar sem óánægja var með viðskipti (lágt hveitiverð), ákvarðanir stjórnvalda og lestarfélaga. Eftir heimstyrjöldina síðari fannst olía og gas í fylkinu og hagur íbúa vænkaðist. Borgirnar Edmonton og Calgary stækkuðu.

Flokkurinn Social Credit Party, stofnaður af predikaranum William Aberhart, var við völd í Alberta frá 1935 til 1971. Síðan tók Framsækni íhaldsflokkurinn (Progressive Conservative Party) við þar til 2015.

Samfélag

breyta

Höfuðborg Alberta er Edmonton. Fjölmennasta borgarsvæði þess, Calgary, í suðurhluta Alberta, er einnig miðdepill efnahags fylkisins. Meira en milljón íbúa býr í hvorri borg um sig. Fjölmennasta borg á eftir þeim er Red Deer með tæplega 100 þúsund íbúa. Aðrar borgir sem nefna má eru Lethbridge og Fort McMurray.

81% af íbúum Alberta búa í þéttbýli og 19% í dreifbýli. Calgary-Edmonton möndullinn er þéttbýlasta svæði fylkisins og eitt það þéttbýlasta í öllu Kanada.

Í Calgary er hátíðin the Stampede haldin árlega en þar er sveita- og kúrekamenningu fagnað. Í Banff er árlega kvikmyndahátíðin Banff Mountain Film Festival.

Landsvæði

breyta

Alberta á landamæri að Saskatchewan í austri og Bresku Kólumbíu í vestri, Norðvesturhéruðunum í norðri og bandaríska fylkinu Montana í suðri. Í vesturhluta fylkisins eru Klettafjöll. Þar eru þjóðgarðarnir Jasper, Banff og Waterton Lakes-þjóðgarðurinn. Aðrir þjóðgarðar eru Elk Island-þjóðgarðurinn austur af Edmonton og Wood Buffalo-þjóðgarðurinn í norðurhlutanum.

Hæsta fjallið er Mount Columbia (3,747m). Suður-Alberta er hluti af kanadísku sléttunum. Í norðri eru skógar og vötn. Í suðaustri eru Badlands þar sem landslag er gróðursnautt og skorið giljum. Þar hefur fundist mikið af risaeðlubeinum. Í Alberta er meginlandsloftslag með lítilli úrkomu, hlýjum sumrum og köldum vetrum.

 
Í Jasper-þjóðgarðinum: Maligne-vatn.
 
Three sisters við Canmore

Dýralíf og gróður

breyta

Í fylkinu má meðal annars finna sauðnaut, elgi, svart- og brúnbirni, úlfa, klettafjallageit, hjartardýr, múrmeldýr og íkorna. Fuglalíf er fjölbreytt, t.d. skallaernir, haukar, uglur, gæsir, endur, himbrimar, gjóðar og krákur.

Miklir skógar eru í Klettafjöllum og í norðurhluta Alberta. Trjátegundir sem þar má finna eru m.a. hvítgreni, blágreni, stafafura, fjallaþinur, degli, balsamösp, elri og hlyntegundir. Reglulega koma upp skógareldar í þjóðgörðunum.

Heimild

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Alberta“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 9. nóv 2016.


pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy