Grazia Deledda

ítalskur rithöfundur (1871-1936)

Grazia Maria Cosima Damiana Deledda (28. september 1871 – 15. ágúst 1936) var ítalskur rithöfundur frá Sardiníu sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1926.[1]

Grazia Deledda
Grazia Deledda
Grazia Deledda árið 1926.
Fædd: 28. september 1871
Nuoro, Sardiníu, Ítalíu
Látin:15. ágúst 1936 (64 ára)
Róm, Ítalíu
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Ítölsk
Virk:1890–1936
Bókmenntastefna:Raunsæi, hnignunarstefna
Frumraun:Stella d'Oriente (1890)
Þekktasta verk:Canne al vento (1913)
Maki/ar:Palmiro Madesani (g. 1900)
Börn:2
Undirskrift:

Æviágrip

breyta

Grazia Deledda fæddist til ítalskrar miðstéttarfjölskyldu á Sardiníu og lauk aldrei grunnskólanámi, sem var algengt fyrir stúlkur á hennar aldri. Foreldrar hennar báðu vin sinn um að kenna henni ítölsku og frönsku í heimahúsum. Grazia var lestrarhestur og birti fyrstu ritverk sín í tímariti þegar hún var sautján ára gömul. Hún hlaut lítinn stuðning fyrir fyrstu ritverkum sínum þar sem ætlast var til þess að ungar ítalskar konur á þessum tíma héldu sig til hlés. Með skrifum sínum í tímaritin hóf hún langan og afkastamikinn rithöfundarferil — hún átti eftir að semja 36 skáldsögur, 250 smásögur og ýmis smærri verk.

Deledda yfirgaf Sardiníu árið 1900 ásamt nýjum eiginmanni sínum, Palmiro Madesani, og flutti til Rómar. Hjónin eignuðust tvo syni og auk þess að sinna ritstörfum sínum þurfti Deledda því að sjá um heimilishaldið. Ólíkt fjölskyldu hennar á Sardiníu studdi Palmiro hins vegar rithöfundarferil konu sinnar og var nærri því búinn að segja upp starfi sínu í ítalska stríðsmálaráðuneytinu til þess að geta einbeitt sér að því að kynna verk hennar.

Ritferill

breyta

Í verkum sínum, sem gerðust flest á Sardiníu,[2] lýsti Deledda heimi gamals bændasamfélags sem stýrt var af fornum og óskrifuðum reglum. Deledda lýsti tilfinningum, átökum og áhyggjum mannssálarinnar í þessu stífa og íhaldssama samfélagi, sérstaklega í verkinu Le Tentazioni árið 1899. Árið 1903 kom út fyrsta bók hennar sem náði verulegum vinsældum, Elias Portolu. Á næstu árum varð hún vinsæll höfundur skáldsagna og leikrita á Ítalíu. Þekktasta verk hennar, Canne al vento, kom út árið 1913. Í þeirri bók bar hún mannslífið saman við rósir sem svigna í vindinum án þess að rifna upp.

Andstæðurnar milli landsbyggðarinnar og þéttbýlisins eru mikilvægt þema í verkum Deledda. Í bókinni Nel deserto lýsir hún til dæmis ungri Sardiníukonu að nafni Rosaliu Asquer sem flytur til frænda síns í Róm. Í bókinni hafa foreldrar hennar og vinir heima í þorpinu á Sardiníu áhyggjur af því að borgarlífið muni spilla henni og leiða hana til saurlífis.

Í sumum skáldverkum sínum fjallar Deledda um eftirsjá þeirra sem grípa ekki tækifærin til að brjótast undan forlögum sínum á meðan þau gefast. Í bókinni Il Paese del vento (1931) fjallar hún um saklausa unga stúlku sem skilur ekki ástina þegar foreldrar hennar kynna hana fyrir ungum manni að nafni Gabriele. Ástir takast með þeim í þann stutta tíma sem þau þekkjast áður en Gabriele flytur burt. Mörgum árum síðar giftist stúlkan öðrum manni en hittir Gabriele, þá fárveikan, aftur á brúðkaupsferð sinni. Endurfundir þeirra vekja gamlar þrár í stúlkunni sem hún ber síðan saman við þá meðalmennsku sem er farin að einkenna tilveru hennar.

Verk Deledda fjalla því um ást, sorg og dauða auk þess sem synd og örlagatrú eru mikilvæg þemu. Verk hennar bera vott um áhrif frá ítölskum natúralisma að hætti höfundarins Giovanni Verga og hnignunarstefnu Gabriele D'Annunzio.

Þvert á allar væntingar hlaut Grazia Deledda Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1926. Deledda hélt áfram að skrifa þrátt fyrir dvínandi heilsu á næstu árum. Í smásagnasöfnunum La Casa del Poeta og Sole d'Estate lýsti hún bjartsýnum viðhorfum sínum þrátt fyrir að vera illa haldin af sársaukafullum sjúkdómum. Deledda lést úr brjóstakrabbameini í Róm árið 1936. Síðasta bókin sem Deledda gaf út var skáldsaga með sjálfsævisögulegu ívafi þar sem hún fjallaði um konu sem verður að sætta sig við að vera dauðvona úr brjóstakrabbameini.

Heimildir

breyta
Tilvísanir
  1. „Stórskáld vorra tíma“. Vörður. 3. desember 1926. Sótt 12. júní 2019.
  2. Migiel, Marilyn. "Grazia Deledda." Italian Women Writers: A Bio-bibliographical Sourcebook. By Rinaldina Russell. Westport, CT: Greenwood, 1994. 111-117. Print.
Heimildir
  • Luigi Capuana, Gli «ismi» contemporanei: verismo, simbolismo, idealismo, cosmopolitismo ed altri saggi di critica letteraria ed artistica, Catania, Giannotta, 1898.
  • Luigi Russo, Grazia Deledda, in I narratori, Roma, Fondazione Leonardo, 1923.
  • Attilio Momigliano, Intorno a Grazia Deledda, in Ultimi studi, Firenze, La Nuova Italia, 1954.
  • Eurialo De Michelis, Grazia Deledda e il decadentismo, Firenze, La Nuova Italia, 1938.
  • Emilio Cecchi, Grazia Deledda, in Prosatori e narratori, in Storia della letteratura italiana. Il Novecento, Milano, Garzanti, 1967.
  • Antonio Piromalli, Grazia Deledda, Firenze, La Nuova Italia, 1968.
  • Natalino Sapegno, Prefazione a Romanzi e novelle, Milano, Mondadori, 1972.
  • Giulio Angioni, Grazia Deledda, l'antropologia positivistica e la diversità della Sardegna, dans Grazia Deledda nella cultura contemporanea, Nuoro, 1992, 299-306; Introduzione à Tradizioni popolari di Nuoro, Bibliotheca sarda, Nuoro, Ilisso, 2010.
  • Rosanna Dedola, Grazia Deledda : i luogo, gli amori, le opere, Avagliano editore, 2016
  • Marcello Fois, Quasi Grazia, Einaudi, 2016
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy