Margrét af Valois (14. maí 155327. mars 1615) eða Marguerite de Valois var drottning Navarra og Frakklands seint á 16. öld, fyrri kona Hinriks 4. Frakkakonungs.

Margrét af Valois, nítján ára að aldri.

Margrét var næstyngsta barn Hinriks 2. Frakkakonungs og Katrínar af Medici og því systir Frakkakonunganna Frans 2., Karls 9., og Hinriks 3. og Elísabetar Spánardrottningar. Hún var eina barn Hinriks og Katrínar sem var heilsuhraust og lifði mun lengur en nokkurt systkina hennar. Margrét var annáluð fegurðardís, mikil tískudrós og hafði áhrif á tísku og klæðaburð við konungshirðir um alla Evrópu. Hún var líka skáld og rithöfundur. Hún vakti hneykslun með líferni sínu og átti sér marga elskhuga, bæði á meðan hún var gift og eftir að hjónabandinu lauk.

Sagt er að í æsku hafi hún verið ástfangin af Hinrik hertoga af Guise en móðir hennar ekki viljað samþykkja þann ráðahag því hún vildi ekki að Guise-ættin yrði of valdamikil. Katrín reyndi að semja um hjónaband Margrétar og ýmissa evrópskra prinsa en ekkert varð úr þeim áformum. Að lokum var Margrét neydd til að giftast Hinriki 3., konungi Navarra og átti með því að bæta samband kaþólikka og húgenotta, en Hinrik var einn af leiðtogum þeirra. Þau giftust 18. ágúst 1572 í Notre Dame-kirkjunni í París en þar sem brúðguminn var húgenotti mátti hann ekki koma inn í kirkjuna og varð að standa fyrir utan meðan athöfnin fór fram.

Á Bartólómeusarmessu, sex dögum eftir brúðkaupið, hófust Barthólómeusarvígin, þar sem fjölda húgenotta í París var slátrað. Margrét er sögð hafa bjargað lífi nokkurra leiðtoga húgenotta með því að fela þá í herbergjum sínum. Hinrik neyddist til að játa kaþólska trú þegar morðunum slotaði en var í hálfgerðu stofufangelsi við hirðina. Árið 1576 tókst honum að sleppa og var þá fljótur að varpa kaþólskunni fyrir róða. Margrét varð eftir við hirðina. Hún fór þó seinna til eiginmanns síns í Navarra en samkomulag þeirra var slæmt og bæði áttu í opinberum ástarsamböndum við aðra.

Hún sneri aftur til Parísar 1582 en bróðir hennar, Hinrik 3., varð brátt hneykslaður á hegðun hennar og neyddi hana til að yfirgefa hirðina. Hún fór þá aftur til Navarra en hlaut kaldar móttökur. Árið 1586 hneppti bróðir hennar hana í varðhald í Usson-kastala í Auvergne og þar var hún næstu átján árin. Þar ritaði hún endurminningar sínar, sem þóttu mjög hneykslanlegar þegar þær voru gefnar út eftir lát hennar.

Hinrik eigimaður hennar erfði frönsku krúnuna þegar bróðir hennar var myrtur 1589 en fæstir kaþólikkar sættu sig við hann fyrr en hann tók kaþólska trú fjórum árum seinna. Margrét varð drottning Frakklands en Hinrik tók hana ekki til sín, heldur hélt áfram hjákonur og eignaðist með þeim börn. Hann vantaði þó erfingja og fór árið 1592 að reyna að fá hjónaband sitt gert ógilt. Það tókst með samkomulagi við Margréti 1599 og fékk hún að halda drottningartitlinum. Hún sneri um síðir aftur til Parísar í góðri sátt við Hinrik og hina nýju konu hans, Maríu de'Medici, og helgaði sig listum og góðgerðastarfsemi það sem hún átti eftir ólifað.

Saga Margrétar hefur orðið ýmsum rithöfundum að yrkisefni og Alexandre Dumas eldri skrifaði árið 1845 skáldsögu, La Reine Margot, um hjónaband Margrétar og Hinriks. Kvikmynd var gerð eftir sögunni 1994 og lék Isabelle Adjani titilhlutverkið. Margrét og Hinrik eru einnig fyrirmyndir aðalpersónanna í gamanleiknum Love's Labour's Lost eftir William Shakespeare.

Heimild

breyta
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy