Rafha
Rafha er fyrirtæki í Hafnarfirði sem í um það bil hálfa öld framleiddi raftæki, en hefur nú hætt framleiðslu þeirra og sérhæfir sig í innflutningi á raftækjum og innréttingum. Fyrirtækið var stofnað þann 29. október 1936 [1] og sérhæfði sig fyrst í framleiðslu rafmagnseldavéla en síðar allra helstu heimilistækja. Framleiðsla Rafha var talin vera til ómetanlegs hagræðis á styrjaldarárunum, auk þess sem hún sparaði ríkinu drjúgan gjaldeyri. Í árslok 1960 hafði verksmiðja fyrirtækisins framleitt 86.000 raftæki af meira en þrjátíu gerðum, fyrir utan 11.000 ljósatæki. Árið 1986 opnaði Rafha 700 fermetra verslunarhúsnæði í gömlu verksmiðjunni í Hafnarfirði. [2]
Nikulás Friðriksson var einn af aðalhvatamönnum þess, að verksmiðjan Rafha var stofnuð, en hann útvegaði í öndverðu sambönd við norska verksmiðju, sem tryggðu það að Rafha gat þegar í byrjun haft fullkomnustu framleiðslu á boðstólum. Nikulás vildi að sem flest raftæki og áhöld væru búin til í landinu sjálfu, sem dæmi má nefna öll hitunartæki, straujárn, potta og pönnur, þvottavélar, kæliskápa og margt fleira. Hann vildi efla iðnaðinn á allan máta, því að máltæki hans var í þeim efnum hið fornkveðna, að sjálfs er höndin hollust.