Fara í innihald

Boðorðin tíu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pergament frá 1768 með boðorðunum tíu frá Esnoga sýnagógunni í Amsterdam

Boðorðin tíu er listi yfir trúarlegar og siðferðilegar reglur sem samkvæmt Biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí og Móses hjó á tvær steintöflur. Þau eru grundvallaratriði í kristinni trú og gyðingdómi. Boðorðin eru sett upp sem samningur Guðs og þjóðar hans og eiga sér hliðstæðu í fornsögulegum samningum og lagabálkum stórkonunga við undirkonunga.

Á hebresku heita boðorðin tíu עשרת הדברים (umritun Aseret ha-Dvarîm). Bein þýðing úr hebresku felur ekki í sér forskrift eða skipun eins og orðið „boðorð“, heldur merkir „orðin tíu“ eða „yrðingarnar tíu“.

Boðorðin birtast í 2. Mósebók 20:2-17 og 5. Mósebók 5.6-21. Í 2. Mósebók brýtur Móses steintöflurnar með boðorðunum þegar hann kemur niður af Sínaí fjalli og sér Ísraelsmenn tilbiðja gullkálf. Síðar í 2. Mósebók ritar Drottinn tíu boðorð á nýjar töflur. Aðeins tvö af boðorðunum á nýju töflunum fjalla um svipað efni og hin fyrri. Hin boðorðin átta fjalla um ýmsa helgidaga, boð um að tileinka Drottni frumburðinn og svo framvegis.

Boðorðin birtast að auki í 2. Mósebók 34:14-26 þar sem sagan af því þegar Drottinn ritar boðorðin 10 á nýjar töflur er endurtekin, þessa útgáfu boðorðanna er sjaldnast minnst á.

Athygli vekur að flestar kirkjur sem nota líkneski við tilbeiðslu taka út annað boðorðið um bann við líkneskjum og skipta síðan tíunda boðorðinu í tvennt til þess að boðorðin líti enn út fyrir að vera alls 10.[1]

Boðorðin skv. 2. Mósebók

[breyta | breyta frumkóða]

Textinn í 2. Mósebók 20 í nýjustu íslensku útgáfunni:

...Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“[2]

Boðorðin skv. 5. Mósebók

[breyta | breyta frumkóða]

Boðorðin 10 (skipting í samræmi við 5. Mósebók 5.6-21):

  1. Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
  2. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.
  3. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
  4. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
  5. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlíf(ur) í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
  6. Þú skalt ekki morð fremja.
  7. Þú skalt ekki drýgja hór.
  8. Þú skalt ekki stela.
  9. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  10. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.

Boðorðin skv. 2. Mósebók (síðari útgáfan)

[breyta | breyta frumkóða]

Boðorðin 10 (skipting í samræmi við 2. Mósebók 34:14-26):

  1. Þú skalt ekki falla fram fyrir neinum öðrum guði því að nafn Drottins er „Hinn vandláti“, hann er vandlátur Guð. Þú skalt ekki gera sáttmála við íbúa landsins. Þegar þeir hórast með guðum sínum og færa guðum sínum sláturfórnir munu þeir bjóða þér og þá muntu neyta fórna þeirra. Takirðu dætur þeirra sem eiginkonur handa sonum þínum munu dætur þeirra halda fram hjá með guðum sínum og fá syni þína til að hórast með guðum sínum.
  2. Þú skalt ekki gera þér steypta guði.
  3. Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Þú skalt eta ósýrt brauð í sjö daga á ákveðnum tíma í abíbmánuði eins og ég hef boðið þér því að í abíbmánuði fórst þú frá Egyptalandi.
  4. Allt sem opnar móðurlíf er mitt og allt það sem er karlkyns af fénaði þínum, frumburðir nauta og sauðfjár. Frumburð asna getur þú leyst með lambi en viljir þú ekki leysa hann skaltu hálsbrjóta hann. Þú skalt leysa sérhvern frumburð sona þinna og enginn tómhentur skal koma fyrir auglit mitt.
  5. Sex daga skaltu vinna en hvílast sjöunda daginn, hvort heldur er tími plægingar eða uppskeru.
  6. Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar og hátíð ávaxtauppskerunnar við áramót.
  7. Þrisvar á ári skal allt karlkyn meðal þín birtast fyrir augliti Drottins, Guðs Ísraels. Þegar ég hef hrakið burt aðrar þjóðir undan þér og fært út landamæri þín skal enginn ásælast land þitt þegar þú, þrisvar á ári, ferð upp eftir til að birtast fyrir augliti Drottins, Guðs þíns.
  8. Þú skalt ekki slátra og bera fram blóð sláturfórnar minnar með sýrðu brauði. Sláturfórn páskahátíðarinnar má ekki liggja yfir nótt til morguns.
  9. Þú skalt færa það besta af frumgróða jarðar þinnar til húss Drottins, Guðs þíns.
  10. Þú mátt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.


  1. http://www.digraneskirkja.is/itarefni/bo%C3%B0or%C3%B0in-10/ Geymt 27 september 2015 í Wayback Machine http://kirkjan.is/efnisveita/files/bodordin%20tiu.pdf Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine http://www.kirkja.is/frodleikur/baenir-og-vers/bodordin-tiu Geymt 7 mars 2016 í Wayback Machine http://tru.is/pistlar/2008/05/bodordin-tiu-i-jakvaedri-tulkun Geymt 17 ágúst 2017 í Wayback Machine
  2. biblíufélag, Hið íslenska (30. desember 2017). „Önnur Mósebók 20. kafli“. Biblía 21. aldar. Sótt 25. ágúst 2024.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy