Content-Length: 246942 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Frankfurt_am_Main

Frankfurt am Main - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Frankfurt am Main

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frankfurt
Skjaldarmerki Frankfurt
Staðsetning Frankfurt
SambandslandHessen
Flatarmál
 • Samtals248,31 km2
Hæð yfir sjávarmáli
112 m
Mannfjöldi
 • Samtals701.350 (31 des 2.013)
 • Þéttleiki2.824/km2
Vefsíðawww.frankfurt.de Geymt 16 júlí 2012 í Wayback Machine

Frankfurt am Main er stærsta borg þýska sambandslandsins Hessen og fimmta stærsta borg Þýskalands. Hún er staðsett á bökkum árinnar Main og er stærsta fjármálamiðstöð Þýskalands. Þar er meðal annars Seðlabanki Evrópu.

Frankfurt liggur við ána Main sunnarlega í Hessen, ekki langt frá Baden-Württemberg og steinsnar fyrir suðaustan miðhálendið Taunus. Næstu borgir eru Wiesbaden og Mainz til vesturs (20 km), Darmstadt til suðurs (20 km) og Würzburg til suðausturs (60 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar er silfurlitaður örn með kórónu. Örninn er tákn keisararíkisins og fenginn að láni þaðan á 13. öld. Þegar borgin varð fríborg var sett kóróna á höfuð hans. Núverandi skjaldarmerki er frá 1841, með örlitlum síðari tíma breytingum.

Saxar fylgjast með rádýri vaða yfir ána Main.

Borgin hét upphaflega Frankenfurt eða Vadum Francorum, sem merkir frankavaðið og kom fyrst við skjöl 794. Hér er verið að tala um hættulaust vað yfir ána Main. [1] Alþjóðlega er borgin yfirleitt aðeins kölluð Frankfurt en Þjóðverjar nota gjarnan fullt nafn til aðgreiningar frá Frankfurt an der Oder, sem er borg í sambandslandinu Brandenborg. Borgin er stundum kölluð Frakkafurða á íslensku. Til er þjóðsaga um tilurð heitisins. Er Karlamagnús var að berjast við saxa eitt sinn höfðu saxar betur. En eftir að Karlamagnús dró sig í hlé til að safna liði og blása til nýrrar sóknar, hörfuðu saxar að ánni Main, sem þeir töldu ófæra. En þá sáu þeir hvar rádýr skoppaði á vaði yfir ána. Þetta vað nýttu saxar sér og sluppu þannig við frekari bardaga. Karlamagnús þorði ekki yfir ána og því var staðurinn kallaður frankavaðið (Frankfurt á þýsku). Engar heimildir eru hins vegar til um það að Karlamagnús hafi nokkru sinni barist gegn söxum í nágrenni árinnar Main.

Saga Frankfurts

[breyta | breyta frumkóða]

Keisaraborgin Frankfurt

[breyta | breyta frumkóða]

Rómverjar hófu byggð í Frankfurt á 1. öld e.Kr. Þeir yfirgáfu hins vegar staðinn á miðri 3. öld. Enn í dag eru til rómverskar rústir í miðborginni. Þar heitir enn Römerberg (Rómverjahæðin). 793 kemur Frankfurt fyrst við skjöl í bréfi Karlamagnúsar sem germanskur bær. Þar reisti Karl sér aðsetur og er hann talinn stofnandi borgarinnar. Hann hélt þar ríkisþing. Sonur hans, Lúðvík hinn frómi, settist einnig að í Frankfurt. Barnabörn Karlamagnúsar gerðu með sér Verdun-samninginn árið 843. Í honum var frankaríkinu mikla skipt í þrennt. Lúðvík hinn þýski fékk austurhlutann og settist meira eða minna að í Frankfurt, sem við það verður faktískt að höfuðborg austurhluta frankaríkisins. 1152 predikaði munkurinn Bernhard frá Clairvaux í Gömlu Nikulásarkirkjunni og hvatti fólk til að fara í krossferð. Konráður III ákvað að taka þátt í ferðinni en lét fyrst krýna son sinn til konungs eftir sig í Frankfurt. Síðan þá hafa allmargar krýningar átt sér stað í borginni, þrátt fyrir að aðalkrýningarborg þýsku konunganna var Aachen. Frankfurt varð hins vegar að kjörstað konunganna. Kjörfurstarnir hittust reglulega þar til að velja nýjan konung. Árið 1245 varð Frankfurt formlega að ríkisborg, aðeins undirgefin konungi/keisara.

Siðaskipti

[breyta | breyta frumkóða]
Frakkar skjóta á Frankfurt 1796

Um miðja 15. öld fann Jóhannes Gutenberg upp prentvélina í Mainz. Bækur voru prentaðar, ekki síst í Frankfurt, sem varð að mikilvægri bókaborg. Í borginni voru skipulagðar stórsýningar á bókum (Frankfurter Buchmesse) sem enn er við lýði. 1530 urðu siðaskiptin í borginni. Nokkrum árum síðar gekk borgin til liðs við her mótmælenda (Schmalkaldischer Bund). Sá her reyndist ekki giftudrjúgur og neyddist Frankfurt til að opna hlið sín fyrir keisarahernum þegar hann mætti til borgarinnar í desember 1546. En borgin hélst þó lútersk. Á seinni hluta 16. aldar fluttu margir mótmælendur þangað frá Niðurlöndum, sem þá voru stjórnuð harðri hendi af Spánverjum (spænsku Habsborgaralínunni). Árið 1556 var Ferdinand I krýndur keisari í Frankfurt. Síðan þá hafa langflestir þýsku keisaranna verið krýndir þar, í stað þess að ferðast alla leið suður til Rómar. Frankfurt var að öllu leyti hlutlaus í 30 ára stríðinu, enda fríborg, og kom ekki við sögu í þeim hildarleik. Við friðarsamningana í Vestfalíu 1648 var fríborgarstatus Frankfurts staðfestur.

Napoleonsstríðin og bylting

[breyta | breyta frumkóða]
Þjóðþingið í Pálskirkjunni 1848

Í október 1792 hertóku franskir byltingarmenn borgina og kröfðust hárra greiðslna. Frakkar urðu hins vegar að hörfa þaðan aftur þegar herir Prússar og Hessen frelsuðu borgina í desember sama ár. En 1796 voru Frakkar aftur mættir og hófu mikla skothríð á borgina. Hún var hertekin í júlí það ár. Frakkar yfirgáfu borgina í desember eftir að hafa tæmt borgarsjóðinn. 1806 voru Frakkar enn í borginni. Það ár var Rínarsambandið stofnað af leppum Napoleons. Við það missti Frankfurt fríborgarstatusinn, enda var borgin keisaraborg og keisaraveldið var lagt niður. Hessen varð að stórhertogadæmi og varð Frankfurt höfuðborg þess. Borgarmúrarnir voru rifnir, að hluta til að skapa meira byggingapláss og að hluta til að eyðileggja varnir borgarinnar ef til nýs stríðs skyldi koma. 1813 mætti prússneski stjórnmálamaðurinn Freiherr von Stein með her til Frankfurt og hrakti Frakka burt. Napoleon var á þessum tíma að snúa heim eftir mislukkaðan leiðangur til Rússlands. Í byltingunum 1848-49 var Frankfurt að nokkurs konar höfuðborg byltingaraflanna. Árið 1848 var haldin mikil ráðstefna lýðræðislega kjörna þingmanna Þýskalands í Pálskirkjunni í borginni. Þar sást í fyrsta sinn hinn svart-rauði-guli fáni. Þing þetta kallaðist Deutsche Nationalversammlung (Þýska þjóðarsamkundan) og var nokkurs konar forboði að alþingi Þýskalands.

Iðnbylting

[breyta | breyta frumkóða]

1866 hertók Prússland Frankfurt og var hún innlimuð Prússlandi. Höfuðborg Hessen varð Kassel í stað Frankfurt, sem varð að annars flokks borg. 1870-71 háði Prússland sigursælt stríð við Frakkland. Friðarsamningar landanna voru undirritaðir í Frankfurt en í Versölum í Frakklandi var Vilhjálmur I krýndur til keisara. Frakkar voru neyddir til að greiða stríðsskaðabætur, sem komu Frankfurt til góða. Borgin óx, iðnaður dafnaði og listir og menning voru ríkjandi. Fyrsta rafmagnssporvagn Þýskalands var settur upp í Frankfurt, Philipp Reis þróaði símann í borginni (áður en Bell gerði hann að nothæfu tæki), fyrsta símakerfið var sett upp 1881 og stærsta járnbrautarstöð Evrópu var vígð þar 1888. Goethe-háskólinn var stofnaður 1912 og nýbyggingin vígð 1914. Íbúum fjölgaði ört. Þegar keisarinn var krýndur 1871 voru íbúar Frankfurt 90 þúsund en við upphaf heimstyrjaldarinnar fyrri voru þeir orðnir 400 þúsund.

Heimstyrjöldin síðari og eftirspil

[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt var þekkt í Þýskalandi fyrir að vera „gyðingavæn“ borg. Nasistar kölluðu hana oft Jerusalem am Main. Á 3. áratugnum bjuggu þar alls um 29 þúsund gyðingar. Strax við valdatöku nasista hófst grimmileg herferð gegn þeim. Sumir flúðu, eins og fjölskylda Önnu Frank, en flestir voru sendir í útrýmingarbúðir. Aðeins 140 gyðingar frá Frankfurt lifðu helförina af. Borgin varð fyrir nærri gegnumgangandi loftárásum meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Mestu árásirnar voru gerðar 1944 en þá nær gjöreyðilagðist miðborgin, nokkur iðnaðarhverfi og höfnin við ána Main. Um helmingur íbúðarhúsa voru ónýt. Í mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Þeir komu sér fyrir í borginni og á nokkrum mánuðum voru aðalbækistöðvar bandaríska hersins í Evrópu fluttar frá Reims í Frakklandi til Frankfurt. Strax á næsta ári voru kjörnir fulltrúar frá Hessen kallaðir saman og myndað var lýðveldi. Hessen varð að fyrsta sambandslandi Þýskalands. Höfuðborgin varð hins vegar ekki Frankfurt, heldur Wiesbaden. Borgarráðið kaus að sækja ekki um þennan heiður, þar sem Frankfurt (sem fríborg) hafði eiginlega aldrei tilheyrt stórhertogadæminu Hessen. Auk þess var Frankfurt höfuðstaður bandaríska hersins í Evrópu og einnig höfuðstaður hernámsveldanna. Fundir þeirra voru nær allir haldnir í Frankfurt. Því var Frankfurt sennilegasti kosturinn til að verða höfuðborg Vestur-Þýskalands við stofnun þess 1949. Reist var meira að segja nýtt alþingishús í fyrir væntanlegt þing. En þrjár aðrar borgir sóttu um að fá að verða höfuðborg: Bonn, Kassel og Stuttgart. Bonn varð fyrir valinu og urðu borgarbúar Frankfurt fyrir gríðarlegum vonbrigðum.

Efnahagsmiðstöð

[breyta | breyta frumkóða]
Skýjakljúfarnir í Frankfurt eru þeir mestu í Þýskalandi

Efnahagslíf Frankfurt byggist á þremur stoðum, fjármálastarfsemi, samgöngum og viðskipta- og vörusýningum og ráðstefnum. Borgin hefur verið miðpunktur þýskrar fjármálastarfsemi svo öldum skiptir og þar eru nú höfuðstöðvar margra banka og verðbréfamiðlanna. Kauphöllin í Frankfurt er sú stærsta í Þýskalandi og ein sú mikilvægasta í heimi. Í borginni er Seðlabanki Evrópu sem fer með stjórn peningamála á evrusvæðinu og Seðlabanki Þýskalands (Bundesbank). Af viðkiptabönkunum eru Deutsche Bank og Commerzbank stærstir.

Samtökin GaWC skilgreina Frankfurt sem heimsborg af alfa-gráðu.

Samgöngukerfi borgarinnar þykir með ágætum, Alþjóðaflugvöllurinn í Frankurt er einn sá fjölfarnasti í Evrópu. Þetta gerir borgina að vinsælum stað fyrir ráðstefnu- og sýningahald. Á hverju ári er þar haldin bílasýningin Internationale Automobil-Ausstellung og bókakynningin Frankfurter Buchmesse en báðir þessir viðburðir draga til sín yfir hundrað þúsund manns árlega.

Borgin hefur fengið viðurnefni á borð við „Bankfurt“ og „Mainhattan“ (eftir ánni Main). Ólíkt flestum evrópskum borgum eru skýjakljúfar nokkuð áberandi í borginni, hún er einnig sú eina í Evrópu þar sem að skýjakljúfar hafa verið byggðir í gamla borgarkjarnanum fremur en í sérstökum háhýsahverfum á jaðri miðborgarinnar eins og gert hefur verið í London og París. Commerzbank-turninn er hæsta bygging borgarinnar og sú næst hæst í Evrópu, hann er 259 m hár. Það er þó ekki sérlega stórt á heimsvísu og borgin hefur töluvert annað yfirbragð en aðrar fjármálamiðstöðvar heimsins eins og New York eða Sjanghæ þar sem þrengslin eru mun meiri.

Í Frankfurt eru einnig margar menningar- og menntastofnanir á borð við Goethe-háskóli, fjölmörg söfn sem flest standa í röð á bökkum Main og stóran listigarð. Viðskiptaháskólinn í Frankfurt er annar stærsti háskóli borgarinnar.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Frankfurt er háborg þýskrar kvennaknattspyrnu. Kvennaliðið 1. FFC Frankfurt hefur verið eitt besta knattspyrnulið Þýskalands. Frá 1999 hefur það sjö sinnum orðið þýskur meistari, sjö sinnum bikarmeistari og þrisvar Evrópumeistari. Kvennaliðið FSV Frankfurt hefur þrisvar orðið þýskur meistari (síðast 1998) og fimm sinnum bikarmeistari (síðast 1996).

Aðalkarlalið borgarinnar er Eintracht Frankfurt. Það varð þýskur meistari 1959, hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari (síðast 2018) og Evrópumeistari bikarhafa 1980 og Europa League-meistarar 2022.

Síðan 1981 fer fram árlegt maraþonhlaup í Frankfurt, oftast síðustu helgina í október. Þátttakendur eru í kringum 10 þúsund, sem þar með er þriðja fljölmennasta Maraþonhlaup Þýskalands.

Liðið Frankfurt Galaxy var í Evrópudeild NFL í ruðningi og sigraði fjórum sinnum (síðast 2006). Félagið var hins vegar leyst upp 2007.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Museumsuferfest er heiti á stærstu þjóðhátíð Þýskalands. Henni var hleypt af stokkunum 1988 og fer fram í ágúst. Hér er um safnanótt, leiktækjasamstæður, tónlist, kappróður á Main og flugeldasýning að ræða. Aðsóknin er um 3 milljónir manns árlega.
  • Karneval (Frankfurter Fastnachtsumzug) er skrúð- og skrautganga í borginni. Þátttakendur eru rúmlega 6.000 og ganga þeir 1,5 km klæddir búningum, oft í skreyttum vögnum.

Frankfurt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Þjóðskáldið Goethe er óskabarn Frankfurts

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Ráðhúsið við Römerberg
  • Bartólómeusarkirkjan er keisarakirkjan í borginni. Í henni voru þýsku konungarnir kjörnir og margur keisarinn var krýndur í kirkjunni. Í henni eru geymdir hlutar úr höfuðkúpu postulans Bartólómeusar.
  • Römerberg er aðaltorgið í miðborg Frankfurt. Þar standa gamlar byggingar, þar á meðal gamla ráðhúsið. Þar stendur einnig gamla Nikulásarkirkjan.
  • Pálskirkjan er þingstaður þjóðþingsins mikla 1848. Hún er ekki lengur notuð sem kirkja, heldur er þjóðartákn og aðallega notuð fyrir sérstaka viðburði.
  • Eschersheimer-turninn er gamalt borgarhlið frá 14. öld og eitt af einkennisbyggingum borgarinnar.
  • Sjónvarpsturninn í Frankfurt er næsthæsti sjónvarpsturn Þýskalands og var hæsta bygging gamla Vestur-Þýskalands.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 101.

Fyrirmynd greinarinnar var „Frankfurt am Main“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.









ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Frankfurt_am_Main

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy