Content-Length: 104232 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Gilbert_du_Motier_de_La_Fayette

Gilbert du Motier de La Fayette - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Gilbert du Motier de La Fayette

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gilbert du Motier de La Fayette
Málverk af La Fayette í einkennisbúningi lautinant-hershöfðingja eftir Joseph-Désiré Court.
Fæddur6. september 1757
Dáinn20. maí 1834 (76 ára)
París, Frakklandi
MenntunParísarháskóli
StörfHerforingi, stjórnmálamaður
TrúKaþólskur
MakiAdrienne de Noailles (g. 1774; d. 1807)
ForeldrarMichel du Motier de La Fayette & Marie Louise Jolie de La Rivière
Undirskrift

Marie-Joseph Paul Yves Roch Gilbert du Motier, markgreifi af La Fayette (6. september 1757 – 20. maí 1834), yfirleitt kallaður La Fayette eða Lafayette í Bandaríkjunum, var frjálslyndur franskur aðalsmaður, herforingi og stjórnmálamaður. La Fayette barðist í bandaríska frelsisstríðinu og varð návinur George Washington, Alexanders Hamilton og Thomasar Jefferson. La Fayette lék einnig lykilhlutverk í frönsku byltingunni árið 1789 og í júlíbyltingunni árið 1830.

La Fayette var kallaður „hetja heimanna tveggja“ fyrir frægðarverk sín bæði í Ameríku og Frakklandi. Hann er einn af átta einstaklingum sem hafa verið lýstir heiðursborgarar Bandaríkjanna en hann hlaut þá stöðu ekki fyrr en árið 2002, löngu eftir dauða sinn.

Eftir byltinguna árið 1789 byrjaði La Fayette að undirrita nafn sitt sem „Lafayette“ í einu orði til þess að lýsa yfir andstöðu við ríkjandi aðalskerfi.

La Fayette fæddist til ríkrar landeignarfjölskyldu í Chavaniac í héraðinu Auvergne í miðhluta Frakklands. Líkt og var hefð í fjölskyldunni gekk hann í herinn og var orðinn hermaður þegar hann var þrettán ára. La Fayette sannfærðist um að barátta Bandaríkjamanna fyrir sjálfstæði væri réttsýn og ferðaðist því til Ameríku til að berjast í bandaríska frelsisstríðinu. Þar var hinn 19 ára gamli La Fayette gerður að majór-hershöfðingja en fékk ekki her til eigin umráða um sinn. La Fayette særðist í orrustunni við Brandywine en tókst að skipuleggja hörfun ásamt bandaríska hernum. La Fayette barðist einnig og stóð sig með sóma í orrustunni um Rhode Island. Í miðju stríðinu sneri La Fayette heim til Frakklands til þess að semja um aukinn stuðning Frakka við bandarísku uppreisnarmennina. Hann sigldi aftur til Ameríku árið 1780 og gegndi þaðan af ábyrgðarstöðum í meginlandshernum. Árið 1781 hindruðu La Fayette og her hans framsókn Cornwallis markgreifa í Virginíu þar til Frakkar og Bandaríkjamenn komu sér í stöðu fyrir umsátrið um Yorktown, þar sem stríðið var unnið.

La Fayette sneri heim til Frakklands og var árið 1787 útnefndur í aðalsmannaþingið sem var kallað saman í febrúar það ár vegna fjármálakreppunnar sem ríkti í landinu. Hann var kjörinn á stéttaþingið árið 1789, en þar hittust fulltrúar frönsku lögstéttanna þriggja; aðals-, klerka- og bændastéttarinnar. Eftir að stjórnlagaþing var stofnað hjálpaði La Fayette til við að semja mannréttindayfirlýsingu Frakklands, með aðstoð Thomasar Jefferson og að fyrirmynd sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna. Mannréttindayfirlýsingin höfðaði til hugmynda um náttúruréttindi til þess að leggja grunninn að helstu gildum lýðræðisríkis. La Fayette mælti einnig með því að þrælahald yrði bannað. Eftir að Bastillan féll þann 14. júlí 1789 var La Fayette útnefndur yfirforingi Þjóðvarðarliðsins og reyndi þaðan af að feta milliveg meðal byltingarmannanna. Í ágúst árið 1792 skipuðu róttæklingar úr röðum byltingarmanna handtöku La Fayette, en hann flúði úr landi í gegnum Holland, sem var undir stjórn Habsborgaraveldisins. Þar var La Fayette handtekinn af austurrískum hermönnum og dvaldi rúm fimm ár í fangelsi.

La Fayette sneri heim til Frakklands árið 1797 eftir að Napóleon Bónaparte samdi um lausn hans úr fangelsi, en La Fayette neitaði að taka þátt í ríkisstjórn Napóleons. Eftir að Napóleon var sigraður og franska konungdæmið endurreist árið 1814 gerðist La Fayette frjálslyndur meðlimur franska fulltrúaþingsins og sat á þingi það sem hann átti eftir ólifað. Árið 1824 bauð James Monroe Bandaríkjaforseti La Fayette í heimsókn til Ameríku. Í ferðinni heimsótti La Fayette öll 24 fylki Bandaríkjanna og vakti mikla lukku. Í júlíbyltingunni árið 1830 afþakkaði La Fayette tilboð um að gerast einræðisherra Frakklands og studdi þess í stað Loðvík Filippus sem nýjan konung landsins. La Fayette snerist síðar gegn Loðvík Filippusi er stjórnarhættir konungsins urðu gerræðislegri. La Fayette lést þann 20. maí árið 1834 og er grafinn í Picpus-kirkjugarðinum í París. Í gröf hans er mold frá Bunker Hill, þar sem La Fayette hafði barist í einni helstu orrustu bandaríska frelsisstríðsins.









ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Gilbert_du_Motier_de_La_Fayette

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy