Content-Length: 190153 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Nikul%C3%A1s_2.

Nikulás 2. - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Nikulás 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Holstein-Gottorp-Rómanov-ætt Keisari Rússlands
Holstein-Gottorp-Rómanov-ætt
Nikulás 2.
Nikulás 2.
Ríkisár 1. nóvember 1894 – 15. mars 1917
SkírnarnafnNíkolaj Aleksandrovítsj Rómanov
Fæddur18. maí 1868
 Alexandershöll, Tsarskoje Selo, Sankti Pétursborg, Rússaveldi
Dáinn17. júlí 1918 (50 ára)
 Jekaterínbúrg, rússneska sovétlýðveldinu
GröfDómkirkja Péturs og Páls, Sankti Pétursborg, Rússlandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Alexander 3. Rússakeisari
Móðir María Fjodorovna
KeisaraynjaAlexandra af Hessen
BörnOlga, Tatjana, María, Anastasía, Aleksej

Nikulás 2. (rússneska: Николай II Александрович Романов; umritað Níkolaj II Aleksandrovítsj Romanov; 18. maí 186817. júlí 1918) var Rússakeisari af Rómanovættinni. Hann var keisari á árunum 1894–1917, og var síðasti keisari Rússa. Á valdatíð hans hnignaði Rússaveldi mjög og hrundi loks í iðu efnahagsvanda, hernaðarósigra og byltinga. Vegna ofsókna gegn Gyðingum, ofbeldis gegn pólitískum andófsmönnum og hlutdeildar hans í stríðinu við Japani kölluðu andstæðingar Nikulásar hann „Nikulás blóðuga“.[1] Sagnfræðingar á tímum Sovétríkjanna drógu upp mynd af Nikulási sem veiklunda, óhæfum leiðtoga sem átti sök á fjölda hernaðarósigra og dauða milljóna þegna sinna.[2]

Rússland var gersigrað í stríði við Japan á árunum 1904–05 og Eystrasaltsflota þess var sökkt í sjóorrustu við Tsushima. Veldið glataði áhrifastöðu sinni í Mansjúríu og Kóreu. Rússar gengu á svipuðum tíma í bandalag við Bretland til þess að hafa hemil á tilraunum Þjóðverja til að auka áhrif sín í Miðaustrinu. Þar með var endi bundinn á „leikinn mikla“ milli Bretlands og Rússlands.

Nikulás lét setja her Rússaveldis í viðbragðsstöðu eftir að Frans Ferdinand erkihertogi, erfðaprins austurrísk-ungverska keisaraveldisins, var skotinn til bana í Sarajevó þann 30. júlí 1914. Þetta leiddi til þess að Þýskaland lýsti Rússum stríði á hendur þann 1. ágúst sama ár. Talið er að um 3.300.000 Rússar hafi verið drepnir í fyrri heimsstyrjöldinni.[3] Ófarir rússneska keisarahersins, vanhæfni miðstjórnar hans á stríðstímum ásamt matarskorti heima við stuðlaði að falli Rómanovættarinnar.

Eftir febrúarbyltinguna árið 1917 neyddist Nikulás til að segja af sér sem keisari. Nikulás var settur í stofufangelsi í Tobolsk ásamt fjölskyldu sinni síðla sumars árið 1918. Þann 30. apríl 1918 voru Nikulás, Alexandra og börn þeirra framseld Úralsovétinu í Jekaterínbúrg ásamt hinum föngunum þann 23. maí. Með samþykki Leníns og annarra forsprakka Bolsévikanna voru Nikulás og fjölskylda hans tekin af lífi nóttina 16. – 17. júlí 1918.

Árið 1981 gerði rússneska rétttrúnaðarkirkjan utan Rússlands Nikulás og fjölskyldu hans að píslarvottum.[4][5]

Að undirlagi móður sinnar fékk Nikulás uppeldi í enskum stíl. Hann hlaut hermenntun undir leiðsögn hershöfðingjans Grígoríj Danílovítsj og varð fyrir tilstilli hans fyrir áhrifum frá slavneskri dulspeki.[6] Konstantín Pobedonostsev, umsjónarmaður rússnesku kirkjunnar, kenndi Nikulási að sem keisari af Guðs náð væri það heilagt verkefni hans að ríkja yfir Rússlandi með alræði og rétttrúnaði.[7]

Nikulás vissi mjög lítið um rússneska landafræði, en hann byrjaði stuttu fyrir dauða döður síns að ferðast um Síberíu og heimsótti jafnvel Japan. Heimsókn hans til Japan lauk með því að japanskur ofstækismaður reyndi að myrða Nikulás.[6] Nikulás varð erfingi að rússnesku krúnunni eftir að afi hans, Alexander 2. Rússakeisari, var myrtur þann 12. mars 1881. Á valdatíð sinni hélt Alexander 3., faðir Nikulásar, syni sínum utan við stjórnmálin.[8]

Nikulás og Raspútín

[breyta | breyta frumkóða]
Nikulás 2. ásamt fjölskyldu sinni.

Nikulás 2. varð keisari þann 1. nóvember árið 1894 eftir að faðir hans lést. Faðir hans lést fyrir aldur fram og því var Nikulás illa undirbúinn fyrir starfið. Fyrr sama ár, þann 20. apríl, hafði Nikulás trúlofast Alexöndru af Hessen þrátt fyrir að vera varaður við ráðahagnum. Þau gengu í hjónaband þann 21. nóvember eftir að hún hafði skipt um trú og gengið í rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna.[9] Þau eignuðust fjórar dætur og einn son. Sonurinn Aleksej Níkolajevítsj veiktist snemma af dreyrasýki sem hann erfði frá móður sinni. Nikulás og kona hans buðu predikaranum og dulspekingnum Grígoríj Raspútín að hlúa að syni þeirra. Þar sem Aleksej náði nokkrum bata í umsjá Raspútíns varð Raspútín mjög náinn keisarafjölskyldunni og hafði talsverð áhrif á stefnumál þeirra. Alexandra leit á bata Aleksejs sem sönnun fyrir því að Raspútín væri heilagur maður og átti alla ævi eftir að styðja hann og brást öskureið við þegar hann var gagnrýndur.[10]

Stríðið við Japani og byltingin 1905

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Nikulás var krýndur í Moskvu árið 1896 hófst uppþot í mannfjöldanum og um 3.000 manns voru troðin undir fótum múgsins í æsingnum. Þetta þótti illur fyrirboði um valdatíð Nikulásar. Sem keisari reyndi Nikulás að halda frið en tókst ekki að koma í veg fyrir stríð við Japan árið 1904.[11] Afgerandi ósigur Rússa í þessu stríði leiddi til þess að bylting hófst árið 1905. Eftir byltinguna neyddist Nikulás til að koma á stjórnarskrárumbótum til að takmarka eigin völd, en þessar breytingar voru flestar teknar til baka næstu árin.[11] Í janúar árið 1905 létust um þúsund manns sem mótmæltu keisaranum í Odessa á hinum svokallaða „blóðuga sunnudegi“.[12]

Nikulás fór í ýmsar fleiri utanríkisferðir á valdatíð sinni og ráðfærði sig oft við frænda sinn, Vilhjálm 2. Þýskalandskeisara. Vilhjálmur reyndi að semja við Nikulás til að stofna þýsk-rússneskt bandalag en rússneska ríkisstjórnin, sem var þegar í bandalagi við Frakkland, hafnaði þessum tillögum.

Ofsóknir gegn Gyðingum 1903–1906

[breyta | breyta frumkóða]

Dagblaðið Bessarabets, sem birti áróður gegn rússneskum Gyðingum, fékk fjárstyrk frá Vjatsjeslav von Pleve, innanríkisráðherra Rússlands.[13] Áróðurinn ýtti undir skipulegar ofsóknir, eða pogrom, gegn Gyðingum. Ríkisstjórn Nikulásar fordæmdi ofsóknirnar opinberlega og handtók sökudólgana. Í einrúmi lýsti Nikulás þó yfir aðdáun á fremjendum pogromsins og leit á Gyðingahatur sem verkfæri til þess að sameina Rússa að baki stjórn sinni.[14]

Alræmdasta áróðursritið gegn Gyðingum sem birtist í rússneskum dagblöðum á þessum tíma var bókin Gjörðabækur öldunga Zíons, sem átti eftir að verða eitt áhrifamesta rit Gyðingahatara næstu öldina. Ritið gaf sig út fyrir að vera samantekt á leynilegri áætlun Gyðinga til að leggja undir sig heiminn og kollvarpa kristnu samfélagi. Forsætisráðherra Nikulásar, Pjotr Stolypín, skipaði árið 1908 rannsókn á uppruna ritsins, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það væri fölsun sem hefði upphaflega birst í París í kringum aldamótin.[15] Þegar Nikulási var tilkynnt um niðurstöðurnar skipaði hann að Gjörðabækurnar skyldu teknar úr umferð þar sem ekki væri hægt að „verja góðan málstað með slæmum aðferðum“.[16] Þrátt fyrir þá tilskipun var dreifingu ritsins haldið áfram[17] og Nikulás las síðar sjálfur úr Gjörðabókunum fyrir fjölskyldu sína eftir að þeim var steypt af stóli.[18]

Staða keisarans versnaði til muna eftir að Stolypín var myrtur í Kænugarði árið 1911. Í kjölfar Stolypíns fylgdi röð veikburða ráðherra og áhrif Raspútíns á keisarann jukust. Bæði rússneska alþýðan og rússneska aðalstéttin hötuðust við Raspútín og vinskapur hans við keisarafjölskylduna dró mjög úr vinsældum hennar. Morðingi Stolypíns hafði verið Gyðingur en Nikulás undirritaði lög sem komu í veg fyrir að uppþot gegn Gyðingum brytust úr í kjölfar morðsins.[19]

Fyrri heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar var Nikulás tregur til að vígbúast en hann skipaði rússneska hernum loks að taka sér viðbragðsstöðu til þess að vernda sjálfstæði Serbíu, bandamanns Rússa á Balkanskaga, eftir að Austurríki-Ungverjaland gerði sig líklegt til að gera þar innrás í kjölfar morðsins á Frans Ferdinand erkihertoga í Sarajevó.

Rússneski herinn var illa undirbúinn fyrir stríðið.[20] Rússar unnu marga sigra gegn Austurríki-Ungverjalandi og Tyrkjaveldi í stríðinu en áttu ekki roð við her Þjóðverja. Eftir afgerandi ósigur Rússa gegn Þjóðverjum í orrustunni við Tannenberg var her Rússa rekinn inn á landsvæði Rússaveldis og neyddist til að há þreytistríð gegn Þjóðverjum. Nikulás bætti ekki úr skák þegar hann gerðist sjálfur yfirforingi rússneska hersins og var því persónulega kennt um ófarir Rússa á vígvellinum.[21]

Snemma árs 1917 var Rússland að hruni komið. Herinn hafði kvatt um 15 milljónir manna í raðir sínar og haft vinnuafl af landbúnaðinum. Því hafði matarverð hækkað upp úr öllu valdi: Egg kostaði fjórum sinnum meira en árið 1914 og smjör fimm sinnum meira. Veturinn var harður og járnbrautarkerfi Rússlands stóð ekki undir stöðugum sendingum neyðarbirgða á víglínurnar.[20]

Afsögn, fangavist og aftaka Nikulásar

[breyta | breyta frumkóða]
Ein síðasta myndin sem tekin var af Nikulási árið 1917, eftir að hann sagði af sér.

Nikulás sagði af sér eftir febrúarbyltinguna árið 1917. Hann ætlaðist til þess að bróðir sinn, Mikael stórhertogi, yrði keisari í hans stað en Mikael þáði ekki krúnuna nema með því skilyrði að kosið yrði um það á stjórnlagaþingi. Nikulás vildi fara með fjölskyldu sína í útlegð til Bretlands en Georg 5. Bretlandskonungur, frændi Nikulásar, óttaðist að það gæti espað upp byltingarmenn í Bretlandi ef Nikulás settist þar að og taldi því ríkisstjórn sína af því að veita keisaranum fyrrverandi hæli.[22]

Í ágúst árið 1917 lét ríkisstjórn Aleksandrs Kerenskíj flytja Nikulás og keisarafjölskyldunna til Tobolsk í Úralfjöllum. Ætlunin var að flytja keisarafjölskylduna út úr landinu í gegnum Japan þegar voraði næsta ár en í nóvember var Kerenskíj-stjórninni steypt af stóli og Bolsévikar tóku við stjórnartaumunum. Þann 30. apríl 1918 lét Lenín flytja fjölskylduna til borgarinnar Jekaterínbúrg þar sem þau dvöldu í fangavist í Ípatjev-setri.

Þann 17. júlí var keisarafjölskyldan vakin kl. 2 um nótt. Þau voru leidd niður í kjallara Ípatjev-setursins með þeirri tylliástæðu að her hvítliða nálgaðist Jekaterínbúrg og gæti gert árás á setrið.[23] Nikulás, kona hans og öll börn þeirra voru þar skotin til bana að undirlagi miðstjórnar Bolsévikaflokksins.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Woods, Alan (1999) "The First Russian Revolution" Geymt 30 júní 2012 í Archive.today in Bolshevism: The Road to Revolution by Alan Woods, Well Red Publications
  2. Tsar Nicholas - exhibits from an execution. BBC News. Martin Vennard. 27. júní 2012. Sótt 8. ágúst 2017.
  3. Urlanis, Boris (2003). Wars and Population. University Press of the Pacific.
  4. A Reader's Guide to Orthodox Icons The Icons that Canonized the Holy Royal Martyrs
  5. New York Times (2000) Nicholas II And Family Canonized For Passion
  6. 6,0 6,1 Carlquist, Gunnar, red (1937). Svensk uppslagsbok. Bd 19. Malmö: Svensk Uppslagsbok AB. bls. 1145.
  7. „Nikolaj 2“. Den store danske. Gyldendals. 25. janúar 2014.
  8. Max Engman (26. október 2010). ”Nikolaj II & imperiet som föll”. Populär Historia.
  9. Nikolaus II Aleksandrovitj i Nordisk familjebok (andra upplagan, 1913)
  10. Massie, Robert K. (1967). Nicholas and Alexandra.
  11. 11,0 11,1 Carlquist, Gunnar, red (1937). Svensk uppslagsbok. Bd 19. Malmö: Svensk Uppslagsbok AB. bls. 1146.
  12. Eva Ström, Edith Södergran, Natur & Kultur, 1994
  13. „Beyond the Pale: The Pogroms of 1903–1906“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22 apríl 2019. Sótt 17. júlí 2008.
  14. Figes, Orlando (1996), A People's Tragedy, bls. 197–8
  15. Fjodorov, Borís, Попытка П. Столыпина решить "еврейский вопрос" (rússneska), Rússland, afrit af upprunalegu geymt þann 10. febrúar 2012, sótt 23. nóvember 2006.
  16. Búrtsev, Vladímír (1938), „4“, The Protocols of the Elders of Zion: A Proved Forgery (rússneska), Paris: Jewniverse, bls. 106.
  17. Kadzhaya, Valery. „The Fraud of a Century, or a book born in hell“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2005..
  18. „Five myths about the Romanovs“. The Washington Post. 26. október 2018. Afrit af uppruna á 8. mars 2023.
  19. Massie, Robert K. Nicholas and Alexandra (1967) bls. 228
  20. 20,0 20,1 Tames, Richard (1972). Last of the Tsars. London: Pan Books Ltd.
  21. King, Greg and Wilson, Penny (2003) The Fate of the Romanovs, John Wiley & Sons.
  22. Rose, Kenneth, King George V (1983) bls. 210.
  23. Nicholas & Alexandra – The Last Imperial Family of Tsarist Russia, Booth-Clibborn Editions, 1998.


Fyrirrennari:
Alexander 3.
Rússakeisari
(18941917)
Eftirmaður:
Enginn; keisaraveldið lagt niður.










ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Nikul%C3%A1s_2.

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy