Content-Length: 105406 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Skylmingar

Skylmingar - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Skylmingar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rússinn Ivan Tourchine og bandaríkjamaðurinn Weston Kelsey skylmast á Sumarólympíuleikunum 2004.

Skylmingar voru upphaflega safnheiti yfir allar bardaga eða hernað, hvort sem menn tækjust á með fangbrögðum eða börðust með öxum, spjótum, skálmum, sverðum eða hvaða því vopni sem berjast mætti með. Í dag er orðið skylmingar aðallega notað um Ólympískar skylmingar.

Ólympískar skylmingar

[breyta | breyta frumkóða]

Ólympískar skylmingar eru íþrótt, þar sem tveir keppendur eigast við með bitlausum eftirlíkingum af sverðum og reyna að skora stig með því að koma höggi eða lagi á andstæðinginn. Nútíma ólympískar skylmingar greinast í skylmingar með höggsverði, lagsverði og stungusverði. Skylmingar eiga sér ævafornar rætur og í Egyptalandi hinu forna voru til skylmingaskólar. Færni í skylmingum var lífsnauðsyn hverjum stríðsmanni allt þar til skotvopn tóku við af eggvopnum sem handvopn í stríði. Skylmingar þróuðust sem list og íþrótt með nýjum sverðum og nýjum verjum.

Nútímaskylmingar rekja uppruna sinn til Endurreisnarinnar þegar sverð voru ekki lengur undirstöðuvopn í stríði en þess mun vinsælli sem fylgihlutur í tísku aðalsmanna og borgara og vopn fyrir einvígi. Skylmingaskólar gengu nú út á að mennta aðalsmenn og borgara í listinni að heyja einvígi með mjóum og löngum stungusverðum. Slík menntun varð hluti af undirstöðumenntun hástéttanna. Eftir því sem ríkisvaldið efldist tóku að gilda reglur um einvígi sem áttu að koma í veg fyrir dauðsföll, eins og sú regla að einvíginu væri lokið við fyrsta sár. Mörg lönd lögðu blátt bann við einvígjum, eins og t.d. á Íslandi, en það var gjarnan virt að vettugi.

Upphaf ólympískra skylminga má rekja til fyrstu ólympíuleika nútímans árið 1896. Með því hlutu skylmingar almenna viðurkenningu sem íþróttagrein. Eftir margra ára deilur milli ítalska og franska skólans í skylmingum var Alþjóða skylmingasambandið stofnað 1913 og ákvað sameiginlegar keppnisreglur. Rafræn skráningartæki voru tekin í notkun 1934 sem auðvelduðu starf dómara til mikilla muna.

Skylmingar til forna

[breyta | breyta frumkóða]

Elsta skylmingahandrit sem varðveitt er í Evrópu kallast MS I.33 og er varðveitt í Bretlandi. Það er talið ritað af þýskum munkum á 13. öld og fjallar um hvernig barist er með buklara og sverði. En skylmingar með buklara og sverði voru nýleg list á 13. öld og m.a. er sagt í Íslendinga sögu frá þýskum málaliða Snorra Sturlusonar, Herburt að nafni, sem snjallastur var í þeirri hernaðarlist. Ljóst er þó að á Sturlungaöld var einnig barist með stórum skjöldum ásamt buklurum, en þessar eldri aðferðir voru nokkuð frábrugðnar þeirri nýju með buklurunum. Þessi bardagalist var vinsæl meðal borgara löngu eftir henni var útrýmt af vígvöllum, en hinn smái buklari úreltist eftir því sem lásbogum og öðrum handskotvopnum fjölgaði.

Eftir því sem líður á hámiðaldir fjölgar skylmingahandritunum og skiptast þau gróflega í Suður þýska hefð, og Norður ítalska. Sú þýska virðist hafa verið ríkjandi í Norður Evrópu, en hún er iðulega kennd við Bæverjan Jóhannes Liechtenhauer sem fæddist á miðri 14.öld. Hann er sagður hafa ferðast um alla Mið Evrópu og lært skylmingaaðferðir þær sem voru þá stundaðar. Mikill fjöldi er til af handritum lærisveina hans og í þeim er fjallað um notkun allra helstu vopna miðalda og fangbragða. Þar má meðal annars finna öll brögð íslensku glímunnar eins og hún er stunduð í dag utan tveggja husanlega: ristarbragðs og krækju. Meðal helstu höfunda skylmingahandrita eru: Hans Talhoffer, Hanko Döbringer, Sigmund Ringeck og fleiri.

Skylmingar í austurvegi

[breyta | breyta frumkóða]

Í Japan hafa varðveist fjöldi skylmingaaðferða. Sú helsta þeirra er kölluð kendo en þar takast menn á með sverðseftirlíkingum úr bambusstöfum.









ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Skylmingar

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy