Fara í innihald

Átökin í Norður-Malí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir bæi undir stjórn uppreisnarmanna í janúar 2013.

Átökin í Norður-Malí, líka kölluð borgarastyrjöldin í Malí, eru vopnuð átök milli uppreisnarhópa í norðurhluta Malí og stjórnarhersins. Þann 16. janúar 2012 hófu nokkrir uppreisnarhópar Túarega í Norður-Malí að berjast fyrir auknu sjálfræði landshlutans eða sjálfstæði landsins sem þeir nefndu Azawad. Í apríl 2012 hafði Frelsishreyfing Azawad lagt landshlutann undir sig.

Þann 22. mars 2012 var forseta Malí, Amadou Toumani Touré, steypt af stóli í valdaráni hersins vegna þess hve illa gekk að takast á við uppreisnarhópana. Valdaránið í Malí 2012 og óróinn sem fylgdi í kjölfarið gaf uppreisnarmönnum tækifæri til að leggja undir sig stærstu borgir Norður-Malí, Timbúktú, Gaó og Kidal, á aðeins þremur dögum. Þegar Frelsishreyfingin hafði náð Douentza á sitt vald sagðist hún hafa náð takmarki sínu og hætti átökum. Næsta dag lýsti hreyfingin yfir sjálfstæði Azawad.

Í byrjun átakanna stóð íslamistahreyfingin Ansar Dine með Frelsishreyfingunni. Eftir að Malíher hafði verið hrakinn frá landshlutanum hófu Ansar Dine og nokkrir minni hópar íslamista að stjórna borgunum í samræmi við stranga túlkun sjaríalaga. Í upphafi reyndu Frelsishreyfingin og íslamistahóparnir að komast að samkomulagi um fyrirkomulag hins nýja ríkis en brátt brutust átök út á milli þeirra. Meðal uppreisnarhópa íslamista voru Hreyfing fyrir einingu og heilagt stríð í Vestur-Afríku sem var klofningshópur úr Al-Kaída í íslamska Magreb. Þann 17. júlí 2012 hafði Frelsishreyfingin misst völdin í flestum borgum Norður-Malí til íslamistanna.

Stjórnvöld í Malí óskuðu eftir utanaðkomandi aðstoð til að ná norðurhlutanum aftur á sitt vald. Þann 11. janúar 2013 hóf Frakklandsher herflutninga til landsins og aðgerðir gegn uppreisnarmönnum. Skömmu síðar barst liðsauki frá öðrum aðildarríkjum Afríkusambandsins. Þann 8. febrúar hafði Malíher náð borgum Norður-Malí aftur á sitt vald með aðstoð alþjóðlega herliðsins. Aðskilnaðarsinnar Túarega tóku þátt í að berjast gegn íslamistunum.

Þann 18. júní 2013 var friðarsamkomulag milli stjórnarinnar og uppreisnarmanna Túarega undirritað. Þann 26. september drógu uppreisnarmenn aðild sína að samkomulaginu til baka og héldu því fram að stjórnin hefði ekki virt skilyrði vopnahlésins. Bardagar hafa því haldið áfram síðan. Nýtt vopnahlé var undirritað í Alsír 19. febrúar 2015 og formlegt friðarsamkomulag 25. apríl sama ár. Þrátt fyrir samkomulagið hafa hryðjuverkaárásir íslamista hafa haldið áfram og í reynd er styrjöldinni ekki lokið.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy