Fara í innihald

Charlotte Corday

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Charlotte Corday
Málverk af Charlotte Corday eftir Jean-Jacques Hauer.
Fædd27. júlí 1768
Dáin17. júlí 1793 (24 ára)
DánarorsökHálshöggvin
Þekkt fyrirAð myrða byltingarmanninn Jean-Paul Marat
ForeldrarJacques François de Corday og Charlotte Marie Jacqueline Gaultier de Mesnival

Marie Anne Charlotte de Corday d’Armont (27. júlí 1768 – 17. júlí 1793), þekktari undir nafninu Charlotte Corday, var frönsk kona sem myrti franska byltingarmanninn Jean-Paul Marat árið 1793. Hún var dæmd fyrir morð og tekin af lífi undir fallöxi nokkrum dögum síðar.

Charlotte Corday fæddist til eignalausrar lágaðalsfjölskyldu nærri Vimoutiers í Normandí. Vegna fjárhagsörðugleika fjölskyldunnar var Charlotte send í klaustur til að gerast nunna þegar hún var þrettán ára.[1] Á árum sínum í klaustrinu fór Corday að kynna sér rit heimspekinga á borð við Voltaire, Rousseau og Montesquieu og þróaði með sér bæði sterkar stjórnmálaskoðanir og mikla fórnfýsi.[2] Corday bjó í klaustrinu til ársins 1791, en þá þjóðnýtti nýja byltingarstjórnin eignir kirkjunnar og leysti upp trúarreglur á borð við þá sem Corday tilheyrði.[3]

Corday sneri heim til föður síns. Hún var á þessum tíma mjög hlynnt stjórnarskrárbundinni konungsstjórn líkt og þeirri sem hafði verið komið á eftir byrjun byltingarinnar. Konungsstjórnin var hins vegar alfarið lögð niður þegar Loðvík 16. reyndi að flýja land árið 1792 og lýðveldi var stofnað. Í byrjun ársins 1793 var konungurinn fyrrverandi síðan tekinn af lífi og Gírondínar, sem aðhylltust svipaðar hugmyndir og Corday, voru ofsóttir og hreinsaðir úr byltingarstjórninni. Í kjölfarið hófst Ógnarstjórn hinna róttæku Fjallbúa, þar sem fjöldi meintra gagnbyltingarmanna var tekinn af lífi.

Með valdatöku Fjallbúanna snerist Corday gegn byltingunni. Hún fór að líta á blaðamanninn og byltingarmanninn Jean-Paul Marat sem helsta málgagn og táknmynd Ógnarstjórnarinnar og einsetti sér að ráða hann af dögum til þess að bjarga lýðveldinu. Í dreifibréfi sem hún skrifaði í júlí 1793 sagði hún:

„Fjallbúarnir hrósa sigri með glæpum og kúgun, nokkrar ófreskjur ataðar blóði okkar brugga viðbjóðsleg launráð og leiða okkur nær brúninni á þúsund mismunandi vegu.“[4]

Corday hugðist í fyrstu myrða Marat fyrir framan allt franska þjóðþingið til þess að senda Fjallbúunum skilaboð en þegar hún kom til Parísar komst hún að raun um að Marat mætti ekki lengur á samkomur þingsins af heilsufarsástæðum. Corday mælti sér því mót við Marat og sagði honum að hún hefði undir höndum upplýsingar um áætlaða uppreisn Gírondína í Caen. Marat tók við henni, sitjandi í baðkari sínu, og skrifaði niður nöfn Gírondínanna sem hún gaf honum. Corday dró þá fram hníf og stakk Marat til dauða. Jacques-Louis David átti síðar eftir að mála frægt málverk af dauða Marats í baðkarinu sem gerði Marat að píslarvætti í augum byltingarsinna.

Corday var í kjölfarið handtekin og ákærð fyrir morðið á Marat. Við réttarhöldin gekkst Corday við morðinu en sagðist með því hafa hefnt fjölda saklausra lífa og hafa komið í veg fyrir frekari ódæðisverk. Hún var dæmd sek og síðan tekin af lífi undir fallöxi þann 17. júlí 1793.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jean Epois, L'affaire Corday-Marat, Cercle d'or, bls. 67.
  2. Jean-Denis Bredin, „Charlotte Corday, "ange de l'assassinat"“, émission Au cœur de l'histoire sur Europe 1, 6. mars 2012.
  3. Bernardine Melchior-Bonnet, Charlotte Corday, Tallandier, 1989, bls. 23.
  4. Jacques Guilhaumou, La mort de Marat, Éditions Complexe, 1989, bls. 152.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy