Fara í innihald

Dómkirkjan í Essen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Essen er í raun klausturkirkja

Dómkirkjan í Essen er elsta kirkja þýsku borgarinnar Essen og tilheyrði áður klaustrinu sem borgin myndaðist í kringum. Mörg listaverk eru í kirkjunni, svo sem hin Gullna Madonna, sem er elsta Madonnustytta heims.

Saga dómkirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjan var hluti af klaustrinu sem abbadísirnar stjórnuðu og var stofnað um miðja 9. öld. Tveir fyrirrennarar hafa verið á staðnum, en þeir brunnu báðir niður. Núverandi kirkja var reist eftir 1275, en það ár brann seinni fyrirrennarinn. Aðeins kórinn og vesturálman stóðu eftir og var nýja kirkjan reist í kringum þessa hluta. Kirkjan var vígð 1316 og helguð Maríu mey, heilögum Cosmas og heilögum Damían. Kirkjan sem slík var aldrei stór né há. Lengd skipsins er aðeins 17 metrar og kórsins 20 metrar. Hæðin er 50 metrar. Þrátt fyrir að kallast dómkirkja, var kirkjan ekki með biskup fyrr en 1958. Hún tilheyrði klaustrinu og var notuð af abbadísunum og meyjunum sem bjuggu í klaustrinu. Meyjarnar voru í mesta lagi 70 talsins á tímum Matthildar abbadísar á 10. öld, en fækkaði með árunum. Siðaskiptin höfðu engin áhrif á kirkjuna, þar sem hún var ekki sóknarkirkja. Klaustrið hélst óbreytt, en yfirráð abbadísanna minnkaði talsvert í borginni. 1803 var klaustrinu lokað. Dómkirkjan varð þá að almennri kaþólskri sóknarkirkju og svo er enn. 1943 varð kirkjan fyrir miklum skemmdum í loftárásum og nær gjöreyðilagðist. Aðeins elstu hlutar hennar, kórinn og vesturálman, sluppu óskemmd. Endurreisnin hófst 1951 og stóð til 1958, en við endurvíglsuna varð kirkjan að kaþólskri biskupakirkju. Þannig varð hún í fyrsta sinn í raun að dómkirkju.

Listaverk og dýrgripir

[breyta | breyta frumkóða]

Hin gullna Madonna

[breyta | breyta frumkóða]
Hin gullna Madonna er elsta Madonnustytta heims

Mesti dýrgripur dómkirkjunnar er hin Gullna Madonna. Hér er um heilsteypta styttu af Maríu mey með Jesúbarninu að ræða, þeirri elstu sem enn er til í heimi. Talið er að hún hafi verið gerð árið 980 í tíð Matthildar abbadísar. Listamaðurinn er ókunnur og deilt er um hvar styttan hafið verið gerð. Flestir fræðimenn telja að Köln sé líklegasti staðurinn. Styttan er 74 cm há og hvílir á litlum palli. Hún er gerð úr viði, en alslegin örþunnum gullplötum. Í stólnum sem María situr á er holrými sem áður fyrr hafði að geyma einhverja litla helgigripi. Ekki er heldur vitað nákvæmlega hvenær styttan var sett í dómkirkjuna, en öruggt er að það hefur gerst fyrir 11. öld, þar sem hún kemur fyrir í heimildum frá þessum tíma. Styttan var færð á öruggan stað meðan heimstyrjöldin síðari geysaði. Eftir stríð var hún flutt á hina og þessa staði, svo sem Marburg, Brussel og Amsterdam, áður en hún var aftur flutt í dómkirkjuna í Essen. Í flutningunum byrjuðu gullplöturnar að flagna af, enda var styttan þá orðin hartnær 1000 ára gömul. Hún hefur verið lagfærð tvisvar eftir stríð.

7 arma ljósastikan

[breyta | breyta frumkóða]
Ljósastikan

Í dómkirkjunni er tröllaukin 7 arma ljósastika. Hún var gerð í kringum árið 1000 og er elsta slíka listaverkið í heimi. Ljósastikan er gerð úr bronsi og er gerð úr 46 samsettum hlutum. Hún er 226 cm há og 188 cm þar sem hún er breiðust. Talið er að styttan hafi upprunalega verið gullslegin. Styttan stendur á litlum palli. Þar er lítil innskrift sem segir: „Matthildur abbadís lét gera mig og helgaði mig Kristi“. Matthildur var abbadís í klaustrinu 973-1011. Ljósastikan hefur staðið í kirkjunni í um 1000 ár. Það var eingöngu meðan heimstyrjöldin síðari geysaði að hún var tekin í sundur og geymd annars staðar. Í dag stendur hún enn öllum aðgengileg í kirkjunni.

Sverð Ottos III

[breyta | breyta frumkóða]
Sverðið fræga

Í dómkirkjunni er verðmætt sverð geymt. Talið er að Otto III keisari hafi gefið klaustrinu sverðið. Heimildir eru hins vegar ekki öruggar um tilurð sverðsins. Sagan segir að þetta sé sverðið sem heilagur Cosmas og heilagur Damían voru höggnir með á 3. öld. Þetta er grundvallað með eftirfarandi innskrift á sverðinu: „Sverðið sem verndardýrlingar okkar voru hálshöggnir með“. Auk þess eru myndir af dýrlingunum báðum á sverðinu. Öruggt er þó að abbadísirnar notuðu sverðið sem hluti af skrúðklæðum sínum, enda voru fögur sverð á miðöldum tákn um yfirráð. Abbadísirnar notuðu sverðið allt til 1803 er klaustrinu var lokað. Sverðið sjálft var þá orðið víðfrægt. Fólk heiðraði það sem helgigrip og á 15. öld var það fyrst notað sem innsigli borgarinnar. Sverðið var tekið upp í skjaldarmerki borgarinnar Essen 1887.

Konungskóróna Ottos III

[breyta | breyta frumkóða]
Barnakóróna Ottos III

Í kirkjunni er barnakóróna Ottos III geymd. Otto var aðeins þriggja ára gamall þegar hann var krýndur til konungs þýska ríkisins árið 983. Hann var því of lítill fyrir kórónu föður síns (og annarra fyrirrennara), og því var þessi kóróna smíðuð gagngert fyrir hann. Kóróna þessi er elsta liljukóróna Evrópu. Þvermál kórónunnar er 12,5 cm og mun hafa passað vel á þriggja ára barn. Hún er gullslegin og alsett gimsteinum og perlum. Upp úr kórónunni standa þrjú gullslegin liljublöð, en liljan er gamalt konungstákn. Þegar Otto óx upp og varð að keisara, mun hann hafa gefið klaustrinu í Essen barnakórónuna, en á þeim tíma var Matthildur abbadís þar. Otto og Matthildur voru systkinabörn.

Önnur listaverk

[breyta | breyta frumkóða]

Af öðrum listaverkum má nefna höggmyndina Jesús lagður til grafar. Hún var gerð í upphafi 16. aldar, rétt fyrir siðaskiptin, og er gerð úr sandsteini. Nokkrar minnistöflur frá 17. öld hanga á veggjum. Engir miðaldagluggar eru í kirkjunni, þar sem þeir eyðilögðust allir í loftárásum seinna stríðs. Kirkjuklukkurnar eru níu talsins, sú elsta þeirra frá 13. öld. Þrjár af klukkunum eru upprunnar úr nágrannakirkju (Jóhannesarkirkjunni) og er samhljómur þessara klukkna því ekki eins hreinn og gengur og gerist.

Fyrirmynd greinarinnar var „Essener Münster“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.

pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy