Dymbilvika
Dymbilvika (páskavika, kyrravika, dymbildagavika) er vikan fyrir páska og síðasta vika lönguföstu. Hún hefst á pálmasunnudag og lýkur á laugardeginum fyrir páskadag. Í kristinni trú er venjan að tileinka þessa viku kyrrð og íhugun guðspjallanna. Á páskadag hefst svo páskavikan. Dymbilvika heitir einnig öðru nafni efsta vika, þ.e. síðasta vikan fyrir páska. Nafnið kyrravika bendir svo á að í þessari viku skyldu menn vera hljóðari og hæglátari en nokkru sinni endranær og liggja á bæn. Dymbilvika ársins hefst 13. apríl 2025.
Dymbildagar
[breyta | breyta frumkóða]Dymbildagar eru síðustu þrír dagarnir fyrir páska: skírdagur, föstudagurinn langi og hvíldardagurinn á laugardag (triduum sacrum). Þá var hringt inn til messu með tréskellum, svonefndum klöprum (tinnibulum), í stað klukkna og draga þessir dagar líklega íslenskt nafn sitt af því (dymbill). Á þessum tíma voru einnig ljós deyfð í kirkjum við messur eða þau slökkt í vissri röð. Heitið „dymbildagar“ er eldra en það heiti sem nú er þekktara: „dymbilvika“ sem fyrst kemur fyrir á 15. öld.
Kenningar um orðið dymbill
[breyta | breyta frumkóða]Dymbilvika mun draga nafn sitt af áhaldinu dymbill sem var einhverskonar búnaður til að gera hljóð kirkjuklukkna drungalegra og sorglegra (dumbara), þegar hringt var til guðsþjónustu á þessum síðustu dögu föstunnar. Helst er talið að dymbillinn hafi verið trékólfur, sem settur var í kirkjuklukkur í stað málms, svo hljóðið deyfðist. Þó gæti dymbillinn einnig hafa verið trékylfa til að berja klukkurnar með, eftir að járnkólfurinn hafði verið bundinn fastur. En einnig eru sagnir um einhverskonar tréklöprur framan á kirkjuþili, sem notaðar hafi verið í klukkna stað þessar vikur. Orðið dymbill hefur einnig verið haft um háan ljósastjaka, samkvæmt Árna Magnússyni, en ljósastjaki þessi á að hafa staðið á kirkjugólfi með fjórum örmum og þrem ljósum á hverjum auk eins í toppi. Skyldi ljós þessi tákna Krist og postulana og voru notuð í stað ljósahjálma í þessari viku, svo að dimmleitara væri í kirkjunni en ella. Þessi orðskýring Árna þykir samt ósennileg.
breyta | Kristnar hátíðir | ||
Aðventa | Jól | Pálmasunnudagur | Dymbilvika | Páskar | Uppstigningardagur | Hvítasunnudagur | Allraheilagramessa |