Fara í innihald

Færeyinga saga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Færeyinga saga, er forn íslensk saga sem segir fyrst frá landnámi Gríms Kambans í Færeyjum, um 825, en meginhluti frásagnarinnar er um atburði frá árunum 990–1002, þegar Sigmundur Brestisson reyndi að koma á kristni í Færeyjum og skattskyldu til Noregskonungs, en Þrándur í Götu stóð gegn því. Sögunni lýkur eftir andlát Þrándar um 1035.

Færeyinga saga var skrifuð hér á Íslandi skömmu eftir 1200, en höfundurinn er ókunnur. Margt bendir til að hann hafi stuðst við munnlegar sagnir úr Færeyjum, sem hann smíðaði söguna úr, en verið fremur ókunnugur staðháttum, t.d. ruglar hann að nokkru saman Stóru Dímun og Skúfey. Sagan er mikilvæg söguleg heimild um Færeyjar, því að hún bregður upp eftirminnilegum myndum af mannlífi í eyjunum á fyrstu öldum byggðar þar. Ef hennar nyti ekki við væri þar við fátt að styðjast.

Færeyinga saga er fremur illa varðveitt, og hefur ekki geymst sem sjálfstætt rit. Snorri Sturluson tók stuttan kafla úr sögunni (43.-48. kapítula) upp í Ólafs sögu helga hina sérstöku, en meginhluti sögunnar hefur varðveist í handritum Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu, þar sem hún er fleyguð inn í sögu Ólafs, af því að hún snertir efnið. Þegar Jón Þórðarson, annar ritari Flateyjarbókar, skrifaði upp Ólafs-sögurnar, ákvað hann að skrifa flesta kaflana úr Færeyinga sögu eftir sérstöku handriti af sögunni, sem þar með varðveittust í sem næst upprunalegri gerð. Því miður láðist honum að gera það í 28.–33. kafla, og ofangreindum köflum 43–48. Ólafur Halldórsson handritafræðingur segir að á fáeinum stöðum vanti í söguna, en líklega hafi þó ekki glatast nema smákaflar.

Færeyinga saga var fyrst gefin út sem sjálfstætt rit af Fornfræðafélaginu í Kaupmannahöfn árið 1832. Carl Christian Rafn sá um útgáfuna, sem var að mörgu leyti athyglisverð. Þar var frumtextinn prentaður á íslensku, dönsk þýðing, og einnig færeysk þýðing (eftir Johan Henrik Schrøter, með stafsetningu sem kennd er við hann). Árið 1884 kom út önnur færeysk þýðing, gerð af V. U. Hammershaimb, með svipaðri stafsetningu og nú tíðkast.

Í Færeyjum er sagan kennd í skólum, og þar þekkir hvert mannsbarn söguhetjurnar. Þar er Þrándur í Götu talinn þjóðhetja, en glæsimennið Sigmundur Brestisson hálfgerður svikari. Sagan hefur einnig verið vel þekkt hér á landi, samanber orðtakið, „að vera einhverjum Þrándur í Götu“, þ.e. hindrun, eða erfiður viðureignar. Nú er oft sagt: „að vera þrándur í götu einhvers“, sbr. orðtakið „að leggja stein í götu einhvers“.

Ólafur Halldórsson hefur manna mest rannsakað Færeyinga sögu í seinni tíð. Hann hefur séð um fjórar útgáfur sögunnar, sbr. eftirfarandi lista. Í formálum Ólafs er mikill fróðleikur um flest það sem viðkemur sögunni.

Færeyinga saga er stundum flokkuð með konungasögum, en hún er skyldust Íslendingasögum og heyrir þeim flokki til sem bókmenntir. Í rauninni er þetta ekki saga Færeyinga, heldur öllu fremur örlagasaga Sigmundar Brestissonar og Þrándar í Götu. Ólafur Halldórsson segir um söguna (1978, 41): [Sagan er] „fjölþætt listaverk, og . . . sem heild er hún rökrétt og þaulhugsuð, svo að þar má engu hnika til og einskis án vera. . . . persónur hennar lifa sínu lífi í sögunni, svo sjálfstæðu, að lesandinn gleymir að sagan eigi sér höfund, og hún er samin af þeirri list sem Íslendingar kunnu einu sinni, að hún virðist vera sögð, en ekki samin.“

Kaflar úr Færeyinga sögu birtust fyrst á prenti í Ólafs sögu Tryggvasonar 1–2, Skálholti 1689–1690. Þormóður Torfason varð fyrstur til að tína saman í einn stað efni úr Færeyinga sögu, sem hann þýddi á latínu og gaf út í Kaupmannahöfn 1695. Það kver var þýtt á dönsku 1770. Af öðrum útgáfum má einkum nefna:

  • Carl Christian Rafn (útg.): Færeyínga saga, eller Færøboernes Historie, den islandske grundtext med færøisk og dansk oversættelse, København 1832 – Frumútgáfa sem sjálfstætt rit, og önnur bók sem prentuð var á færeysku. Ljósprentun, Emil Thomsen, Tórshavn 1972, 284 s.
  • Finnur Jónsson (útg.): Færeyingasaga. Den islandske saga om færingerne / på ny udgiven af Det kongelige nordiske oldskriftselskab. København 1927, xix + 84 s.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga, Rvík 1967, xxiv + 127 s. – Mjög aðgengileg almenningsútgáfa.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga, Iðunn, Rvík 1978, 180 s. Íslensk úrvalsrit 13. – Skólaútgáfa.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Rvík 1987, cclxviii + 142 s. – Textafræðileg útgáfa.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk, Hið íslenska fornritafélag, Rvík 2006, ccv + 402 s. Íslensk fornrit XXV. – Fræðileg útgáfa fyrir almenning.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga / Føroyingasøga, Hið íslenska fornritafélag, Rvík 2006, lxxxvi+(4)+132 s. – Sérprentun úr ofangreindri útgáfu, með stuttum formála á færeysku.

Nokkrar þýðingar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Færeyska: Føroyingasøga / útløgd úr íslandskum av V. U. Hammershaimb. Tórshavn 1884. 137 s. – Endurprentuð 1919 og 1951.
  • Føringasøga / útløgd og umarbeid av nýggjum av C. Holm Isaksen. Tórshavn 1904. 116 s.
  • Føroyingasøga / umsett hava Heðin Brú og Rikard Long. Skúlabókagrunnurin, Tórshavn 1962, 105 s.
  • Føroyinga søga / Sven Havsteen-Mikkelsen teknaði; Bjarni Niclasen týddi; Jørgen Haugan skrivaði eftirmæli. Føroya skúlabókagrunnur, Tórshavn 1995, 148 s. – Útgáfa handa skólum í Færeyjum.
  • Norska: Sagaen om Trond i Gata og Sigmund Brestessøn eller Færøingernes saga, þýðandi Alexander Bugge, Kristiania 1901.
  • Danska: Færinge saga / med tegninger af Sven Havsteen-Mikkelsen; i oversættelse ved Ole Jacobsen og med en efterskrift af Jørgen Haugan. København 1981, 143 s.
  • Franska: La saga des Féroïens / traduit de l'Islandais par Jean Renaud; préface de Régis Boyer. Paris: Aubier Montaigne, 1983 - 133 s.
  • Þýska: Die Färinger Saga / aus dem Isländischen von Klaus Kiesewetter übersetzt. Ålborg: 1987 - 103 s.
  • Sænska: Färinga sagan / inledd och översatt av Bo Almqvist; förord av Olov Isaksson; fotografier av Sören Hallgren. Hedemora: Gidlunds Bokförlag, 1992 - 205 s.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Færeyinga saga. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk, Rvík 2006.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Færingesaga“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. september 2008.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy