Fara í innihald

Harem

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimsókn, innanverð kvenálma (olíumálverk frá 1860, eftir Henriette Browne).

Harem þýðir „staður kvenfólksins“ og er náskylt orðinu haram, sem er arabíska fyrir bannað. Á íslensku hefur orðið oft verið þýtt sem „kvennabúr“, en „kvenálma“ er nákvæmara heiti. Harem er í raun staður heimilisins þar sem óviðkomandi er meinaður aðgangur.[1]

Kvenálmur eru almennt tengdar við Íslam, en vitað er af tilvist þeirra í Mið-Austurlöndum fyrir komu Íslam. Kvenálmur voru algengar meðal efri og lægri stétta fram að 20. öld, en eftir því sem leið á 20. öldina takmörkuðust þær frekar við heimili efri stétta.[2]

Harem (olíumálverk frá ca. 1851–52, eftir Théodore Chassériau).

Hugmyndir um kvenálmuna

[breyta | breyta frumkóða]

Kvenálman var vinsælt efni í vestrænum listum, þá sérstaklega hjá karlmönnum sem höfðu aldrei stigið fæti inn í þær. Þar var sérstaklega vinsælt að mála kvenálmuna upp sem dularfullan og forboðinn stað.[1] Reina Lewis hefur lýst kvenálmunni sem „frjósamasta rými hins oríentalíska ímyndunarafls.“ Skrif vestrænna kvenna sem heimsóttu kvenálmurnar varpa öðruvísi ljósi á þær. Lafði Mary Montague skrifaði á árunum 1717–18 bréf, þar sem hún lýsir reynslu sinni. Montague leit á kvenálmuna sem öruggt rými fyrir konur til að skiptast á upplýsingum og þekkingu.[3]

Innanverð kvenálman

[breyta | breyta frumkóða]

Kvenálman var misstór eftir heimilum, og t.d. var rómað að kvenálma Abbasída-kalífa hafi innihaldið yfir 15,000 einstaklinga, með þjónum og þrælum. Í tilviki kalífa voru eiginkonur, hjákonur og konur skyldar embættismönnum einnig innan kvenálmunnar.[4]

Leila Ahmed skilgreinir harem bæði sem kerfi sem veitir karlmönnum kynferðislegan aðgang að fleiri en einni konu, en einnig sem kerfi þar sem kvenættingjar karlmanns deila tíma og rými og veitir konum auðveldan aðgang að öðrum konum innan samfélags síns.[5]

Tilvist kvenálmunnar hafði áhrif á byggingalist Mið-Austurlandanna, en það má m.a. sjá á mashrabiya gluggum svokölluðum. Mashrabiya gluggarnir voru skornir úr viði, til að gera konum kleift að horfa út á við án þess að hægt væri að gægjast inn.

Fyrr á tíðum tíðkaðist að ráða geldinga til að þjónusta í kvenálmunni, þar sem þeir voru ekki taldir ógna. Þessir geldingaþjónar voru almennt bara á færi vel stæðra fjölskyldna, og fjöldi þeirra gat sagt til um stöðu fjölskyldunnar. Geldingarnir voru almennt vanaðir þrælar frá Súdan.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Magnús Þorkell Bernharðsson, Mið-Austurlönd, bls. 153–154.
  2. „Harem“, Encyclopaedia Britannica 02.03.2016, https://www.britannica.com/topic/harem (skoðað 28. Febrúar 2019).
  3. El Cheikh, Nadia Maria. „Revisiting the Abbasid Harems“, Journal of Middle East Women's Studies3:1 (haust 2005), bls. 4.
  4. El Cheikh, Nadia Maria. „Revisiting the Abbasid Harems“, Journal of Middle East Women's Studies 3:1 (haust 2005), bls. 8.
  5. El Cheikh, Nadia Maria. „Revisiting the Abbasid Harems“, Journal of Middle East Women's Studies3:1 (haust 2005), bls. 5.
  6. Magnús Þorkell Bernharðsson, Mið-Austurlönd,bls. 155–156.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy