Fara í innihald

Kris Kristofferson

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kris Kristofferson árið 2006

Kris Kristofferson (f. 22. júní 1936, d. 28. september 2024) var bandarískur kántrýsöngvari, laga- og textahöfundur og kvikmyndaleikari. Hann er þekktastur fyrir lög á borð við „Me and Bobby McGee“, „Sunday Mornin' Comin' Down“ og „Help me make it through the Night“.

Ungdómsárin

[breyta | breyta frumkóða]

Kris fæddist í Brownsville í Texas. Foreldrar hans voru á faraldsfæti en settust loks að í San Mateo í Kaliforníu þar sem Kris lauk framhaldsskólanámi. Faðir hans var yfirmaður í bandaríska flughernum og reyndi að beina syni sínum út á braut hermennskunnar án árangurs. Kris var vaxandi rıthöfundur á þessum tíma og fékk skólastyrk við Merton College í Oxford á Englandi, en hafði áður gengið í Pomona College í Bandaríkjunum. Á skólaárunum í Bretlandi hóf hann að yrkja texta og söng á plötur fyrir Top Rank Records undir nafninu Kris Carson. Þessar plötur nutu ekki mikilla vinsælda.

Árið 1960 lauk hann meistaragráðu í enskum bókmenntum. Hann giftist æskuástinni, Fran Beer sama ár. Loks gekk hann í herinn, varð liðsforingi og lærði þyrluflug og nýttist það honum vel. Snemma á 7. áratugnum var hann staðsettur í Þýskalandi og þar sneri hann sér aftur að tónlist og stofnaði hljómsveit. Árið 1965 hætti hann í hernum og tók upp þráðinn við textagerð. Þá var hann orðinn kennari í West Point-herskólanum.

Tónlistarferill

[breyta | breyta frumkóða]

Kris flutti til Nashville í Tennessee og var ákveðinn í að slá í gegn. Hann vann allt sem til féll á meðan hann reyndi að koma sér á framfæri. Hann átti í fjárhagserfiðleikum vegna meðfædds sjúkdóms sonar síns og þau hjónin skildu. Hann vann við að sópa gólf hjá Columbia Studios í Nashville og hitti þar Johnny Cash, sem fékk hjá honum nokkur lög, sem hann gerði svo ekkert með. Svo varð hann húsvörður hjá sama fyrirtæki og var í þeirri stöðu þegar Bob Dylan var að hljóðrita þar breiðskífuna Blonde on Blonde árið 1966. Hann gat stundum fylgst með upptökum en þorði ekki að ónáða goðið af ótta við að verða rekinn úr vinnunni. Þá vann hann einnig sem þyrluflugmaður á eigin vegum.

Árið 1966 kom út lag eftir hann, sem Dave Dudley söng, „Viet Nam Blues“, og náði það nokkrum vinsældum. Á næsta ári gekk hann til liðs við Epic Records og gaf út tveggja laga plötu með lögunum „Golden Idol“ og „Killing Time“, en þau náðu ekki miklum vinsældum. Á næstu árum fór árangur að koma í ljós með lögum eins og „Jody and the Kid“, „From the Bottle to the Bottom“, „Sunday Mornin' Comin' Down“, „Once more with Feeling“, „Your Time's Comin'“, „Me and Bobby McGee“, „Best of all Possible Worlds“ og „Darbys Castle“. Sumir flytjendurnir voru mjög þekktir í bransanum og má hér sem dæmi nefna Ray Stevens, Jerry Lee Lewis, Faron Young og Roger Miller, en hann söng þrjú síðast nefndu lögin. Loks tókst Kristofferson að ná athygli Johnny Cash með því að lenda þyrlu sinni fyrir utan villu hans og gefa honum nokkrar spólur með lögum eftir sig. Það varð til þess að Johnny Cash kynnti hann sérstaklega á þjóðlagahátíðinni Newport Folk Festival.

Árið 1970 hóf Kristofferson feril sinn sem söngvari. Fyrsta LP-platan var Kristofferson og innihélt nokkur ný lög og nokkur eldri. Hún var gefin út af Monument Records og náði ekki árangri. Þessi plata var hins vegar gefin út aftur ári síðar undir nafninu Me and Bobby McGee og þá fóru hjólin að snúast. Eftirspurn eftir lögum hans og textum jókst og stóru nöfnin fóru að falast eftir verkum hans, svo sem Waylon Jennings, Bobby Bare, Sammi Smith og Johnny Cash. Árið 1970 varð honum eftirminnilegt, því tvær stofnanir kusu sitt hvort lag hans lag ársins, en það voru lögin „For the Good Times“ flutt af Ray Price, kosið af Academy of Country Music og „Sunday Morning Coming Down“ flutt af Johnny Cash, kosið af Country Music Association. Þetta er í eina skiptið sem þessar tvær stofnanir hafa kosið tvö lög sama höfundar á sama árinu.

Árið 1971 kom platan Pearl með Janis Joplin út, nokkru eftir dauða hennar. Sú plata skartaði laginu „Me and Bobby McGee“, sem hefur orðið heimsfrægt í flutningi hennar. Fleiri lög fylgdu í kjölfarið flutt af mörgum frægum söngvurum. Nefna má „Help Me Make It Through the Night“ sem flutt var af Joe Simon og einnig af O.C. Smith, „Me and Bobby McGee“ flutt af Jerry Lee Lewis, Patti Page söng „I'd Rather Be Sorry“ og Peggy Little söng „I've Got to Have You“. Á sama ári gaf hann út aðra breiðskífu sína, The Silver Tongued Devil and I; sló hún í gegn og kom honum alveg endanlega inn á kortið. Skömmu síðar lék hann í sinni fyrstu kvikmynd, The Last Movie, og kom einnig fram á Isle of Wight Festival. Árið eftir lék hann í Cisco Pike og gaf út þriðju breiðskífu sína, Border Lord. Á henni voru eingöngu ný lög og salan var dræm. Hann fékk Grammy-verðlaun það ár, mörg lög hans voru tilnefnd og sum unnu til ýmissa verðlauna. Fjórða breiðskífan, Jesus Was a Capricorn fór af stað hægt og hljótt, en lagið „Why Me“, sem hann gaf út á smáskífu, varð vinsælt og örvaði mjög sölu á stóru plötunum.

Kvikmyndaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Næstu árin einbeitti hann sér að kvikmyndaleik. Hann lék í Blume in Love og Pat Garrett and Billy the Kid. Einnig giftist hann aftur og var nýja konan hans Rita Coolidge. Með henni gerði hann albúmið Full Moon, sem hann svo fylgdi eftir með nokkrum smáplötum og fékk tilnefningar til Grammy-verðlauna. En fimmta breiðskífan, Spooky Lady's Sideshow, reyndist algert flopp og eftir það lá leiðin niður á við. Nokkrir söngvarar héldu áfram að nota lög hans og texta, en hin hrjúfa rödd hans og anti-popp-hljómurinn héldu aðdáendum hans sjálfs í lágmarki. Hann lék í kvikmyndunum Bring Me the Head of Alfredo Garcia, Convoy, Alice Doesn't Live Here Anymore, Vigilante Force, The Sailor Who Fell from Grace with the Sea og A Star Is Born, þar sem hann lék á móti Barböru Streisand. En ferill hans á tónlistarsviðinu var allur niður á við og albúmið Shake Hands with the Devil náði engum vinsældum. Næsta kvikmynd hans, Freedom Road, var ekki gefin út í Bandaríkjunum og eftir það skildu þau Rita. Á sama tíma voru aðrir söngvarar að ná frábærum árangri með lögum hans, til dæmis Lena Martell með lagið „One Day at a Time“ og svo Willy Nelson með LP-plötuna Willy Nelson Sings Kris Kristofferson, sem reyndist metsöluplata. Næsta kvikmynd Kristoffersons var Heaven's Gate. Hún var mislukkuð og ferill hans var á enda um skeið.

Framhaldið

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1982 kom út platan The Winning Hand, með áður óútgefnum lögum fluttum af honum sjálfum, Dolly Parton, Willy Nelson og Brendu Lee. Þau höfðu öll verið á samningi hjá sama plötufyrirtækinu upp úr 1960. Þessi plata var vinsæl sem kántrýplata en náði litlum vinsældum utan þess. Nú giftist hann í þriðja sinn og varð Lisa Meyers þriðja eiginkona hans. Hann lék í kvikmyndunum The Lost Honor of Kathryn Beck, Flashpoint og Songwriter. Í þeirri síðastnefndu lék einnig Willy Nelson, og saman gáfu þeir út plötu með lögum úr myndinni og náði hún miklum vinsældum. Þeir héldu áfram samstarfi og ásamt Waylon Jennings og Johnny Cash stofnuðu þeir stjörnubandið The Highwaymen. Fyrsta albúmið frá þeim hét Highwayman og varð vinsælt. Þeir héldu áfram samstarfi um skeið. Árið 1985 lék Kris aðalhlutverk í Trouble in Mind og gaf út albúmið Repossessed, sem var mjög pólitískt meðvitað, sérstaklega lagið „They Killed Him“ (sem einnig hafði verið flutt af Bob Dylan, sem tileinkaði það hetjum sínum: Martin Luther King, Jesú og Mohandas Gandhi). Á svipuðum tíma kom hann fram í Amerika, sem var umdeild sjónvarpsþáttaröð.

Highwayman 2 kom út 1990 og þrátt fyrir vinsældir þeirrar plötu og viðvarandi samstarf og gott gengi The Highwaymen fóru vinsældir Kris sjálfs minnkandi eftir 1990. Hann gekk hins vegar í endurnýjun lífdaga í kvikmyndunum eftir 1996, en þá kom út myndin Lone Star og svo fljótlega Blade, Blade II, Blade Trinity, A Soldier's Daughter Never Cries, Fire Down Below, endurgerð á Planet of the Apes, Payback og The Jacket.

Kris Kristofferson var kosinn í Nashville Songwriters' Hall of Fame árið 1977, Songwriters' Hall of Fame 1985 og í Country Music Hall of Fame árið 2004. Árið 2006 hlaut hann verðlaunin Johnny Mercer Award frá Songwriters' Hall of Fame.

Félagsmál

[breyta | breyta frumkóða]

Kris var félagi í Veterans for Peace, sem eru friðarsamtök fyrrverandi hermanna og sem slíkur fór hann í nokkrar ferðir til Níkaragva með friðarsinnanum S. Brian Willson á níunda áratugnum.

Sólóplötur

[breyta | breyta frumkóða]

KK og Rita Coolidge

[breyta | breyta frumkóða]
  • Full Moon (1973)
  • Breakaway (1974)
  • Natural Act (1978)
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy