Fara í innihald

Kristjanía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hlið Kristjaníu á Kristjánshöfn

Fríríkið Kristjanía (danska: Fristaden Christiania eða Det Fri Christiania, „Staden“, færeyska: Frístaðurin Christiania), stundum kölluð „Stína“ á íslensku, er lítið þorp á Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn með u.þ.b. 800 skráða íbúa. Einstaklingur sem býr í Kristjaníu er kallaður Christianit (en nitte).

Markmið Kristjaníu er að koma upp sjálfstýrðu samfélagi, þar sem hver einstaklingur getur þróað sína hæfileika frjálst á samfélagslega ábyrgan hátt. Þetta samfélag skal vera efnahagslega sjálfbært og hið sameiginlega átak á stöðugt að sýna fram á að mengun sálar og líkama er ekki óhjákvæmileg.
Þannig sett fram af Sven, Kim, Ole, Kim og Jacob með rétti til lagfæringa. 13/11-71“

Þannig hljómar hinn skorinorði texti sem kalla má stefnuyfirlýsingu staðarins. Íbúar Kristjaníu hafa barist fyrir að fá að lifa samkvæmt þessum markmiðum frá stofnun fríríkisins. Fimm umtalsverðar breytingar hafa þó átt sér stað á reglunum síðan: 1) Engin hörð vímuefni (í „junkblokaden“ árið 1979 voru heróínneytendum staðarins settir tveir valkostir; meðferð eða brottvísun af svæðinu). 2) Engin merki á bökum jakka (vegna vandræða og ofbeldis af völdum rokkaragengisins Bullshit); 3) Engin vopn; 4) Ekkert ofbeldi; 5) Engin verslun með íbúðir og aðrar byggingar. Við þetta má bæta óformlegum reglum eins og banni við akstri bíla og banni við ljósmyndun á Pusherstreet.

Þar sem Kristjanía er sjálfsstýrt svæði þá er það íbúanna sjálfra að framfylgja reglunum og sjá til þess að gestir virði þær. Gert er út um mál á borgarafundum þar sem t.d. er kveðið upp úr um hvort nýir íbúar fái að setjast þar að.

Kristjanía hefur lengi verið fræg fyrir ýmsar tilraunir með rekstrarform sem byggja á samvinnuforminu og notkun beins lýðræðis við stjórnun. Leikskóli Kristjaníu þykir t.d. mjög merkilegur. Kristjanía átti frumkvæði að sölu lífrænt ræktaðra matvæla og þar voru hönnuð og smíðuð Kristjaníuhjól með vagni að framan. Ýmis ferðaþjónusta hefur fylgt miklum straumi gesta í Kristjaníu og þar eru rekin veitingahús og kaffihús.

Saga Kristjaníu

[breyta | breyta frumkóða]
Fáni Kristjaníu; Hringirnir eru einfaldlega punktarnir yfir i-in í orðinu „Christiania“ sem upphaflega stóð í merkinu.

Kristjaníu var hleypt af stokkunum árið 1971 þegar íbúar frá Kristjánshöfn brutust inn á afgirt svæði þar sem stóðu yfirgefnar herbúðir (Baadsmandsstræde Kaserne). Ástæðan var sú að óánægðir foreldrar óskuðu eftir leikvelli fyrir börn sín og tóku málið í eigin hendur. Fljótlega fluttu þó hippar og ýmsir heimilislausir einstaklingar inn og settust að í tómum byggingunum. Árum saman reyndu yfirvöld með hálfum huga að fjarlægja íbúana, en það hefur enn ekki tekist, að hluta til vegna almenns stuðnings dönsku þjóðarinnar við fríríkið. Þó má bæta við að framtíð fríríkisins hefur verið mjög óviss síðustu ár þar sem hægrisinnuð ríkisstjórn tók við völdum í Danmörku árið 2001 sem hefur beitt íbúana miklum þrýstingi með lögregluvaldi og breytingum á reglugerðum.

Í upphafi var svæðið einungis aðgengilegt á tveimur stöðum en í dag eru margir inngangar, þ.á m. tveir svokallaðir höfuðinngangar. Kristjanía er bíllaus bær og einkaakstur er bannaður. Íbúarnir og fyrirtæki staðarins eiga nú u.þ.b. 130 bíla sem ekki má leggja inni á svæðinu. Íbúarnir byggðu þó 91 bílastæði í útjaðri svæðisins án nokkurar sýnilegrar aðstoðar vegamálayfirvalda og nágranna sinna í Kristjánshöfn sem þó höfðu lagt hart að fríríkinu og kvartað yfir stöðugu aðstreymi hasskaupenda.

Kristjanía er heimsfræg fyrir hið svokallaða „Pusher Street“, rétt fyrir innan aðalinnganginn á Kristjánshöfn, þar sem opinber hassverslun var lengi vel við lýði. Hass er ekki talið ólöglegt á svæðinu en hins vegar er brugðist hart við neyslu eða sölu harðari efna. Salan á Pusher Street hefur verið meginástæða reglulegra átaka íbúa við lögregluna. Þá er venjulega lagt hald á stærri peningaupphæðir og einstaka sinnum vopn og þýfi. Í janúar 2004 tóku hasssalar á Pusher Street þá ákvörðun að hætta allri opinberri sölu og rifu sölubása sína niður. Síðan þá hefur lögreglan reglulega framkvæmt rassíur til að stöðva hasssölu í Kristjaníu. Árið 2023 var unnið að því að loka götunni. [1] og í apríl 2024 hófu íbúar að rífa upp götuna í táknrænum tilgangi. [2]

  1. Pusherstræti heyrir brátt sögunni til Rúv, sótt 2/12 2023
  2. [ https://www.bbc.com/news/world-europe-68740282 Christiania: A Copenhagen hippy community fights back against drug gangs] BBC
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy