Fara í innihald

Lýðveldið Feneyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hestarnir við Markúsarkirkjuna í Feneyjum eru ránsfengur frá Konstantínópel 1204

Lýðveldið Feneyjar var ríki á Norðaustur-Ítalíu með Feneyjar sem höfuðborg. Lýðveldið var um tíma stórveldi við Adríahaf sem hagnaðist mjög á verslun við Mið-Austurlönd. Verndardýrlingur borgarinnar er Markús guðspjallamaður og merki borgarinnar því vængjað ljón, tákn Markúsar. Borginni stýrði hertogi (dux, sem síðar varð doge). Borgarráð, sem í sátu fulltrúar valdamestu fjölskylda borgarinnar, kaus hertogann hverju sinni. Stjórn borgarinnar var í raun blanda af einræði, fámennisræði og (mjög takmörkuðu) „lýðræði“ þótt hún væri skilgreind sem lýðveldi.

Samkvæmt arfsögn kusu íbúar borgarinnar Anafestus Paulicius sem hertoga (dux) árið 697 og er stofnár lýðveldisins miðað við það. Fyrsti hertoginn sem sögulegar heimildir eru til um var Orso Ipato sem var kjörinn 726 og fékk titlana hypatos og dux frá keisaranum í Konstantínópel sem lýðveldið heyrði undir að nafninu til. Í friðarsamningum milli Karlamagnúsar og Nikófórosar 1. keisara 803 var sjálfstæði borgarinnar formlega viðurkennt. Nokkrum árum síðar stálu feneyskir kaupmenn líkamsleifum Markúsar guðspjallamanns frá Alexandríu í Egyptalandi og færðu borginni sem gerði hann að verndardýrlingi sínum.

Á hámiðöldum auðgaðist borgin gríðarlega á verslun milli Evrópu og Mið-Austurlanda. Borgin tók þátt í krossferðunum og fékk þá hlut í ríkulegum ránsfeng. Á þessum tíma eignaðist lýðveldið nýlendur í Eyjahafi og á 15. öld lagði það undir sig strandhéruð á Ítalíu og strönd Dalmatíu. Það lenti þó brátt upp á kant við Tyrkjaveldi og missti héruð sín í austanverðu Miðjarðarhafi og í Grikklandi. Vegna árása Tyrkja og átaka við páfa tók lýðveldinu að hnigna. Þegar Napoléon Bónaparte réðst með her sinn yfir Alpafjöll misstu Feneyingar flest héruð sín á Ítalíu, ásamt því sem eftir var af löndum þeirra handan hafsins, til Frakka en borgin féll í hendur Austurríkismanna árið 1797.

pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy