Fara í innihald

Loðvík 17.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Loðvík 17.
Málverk af Loðvík erfðaprinsi eftir Alexander Kútsjarskij (1792)
Skjaldarmerki franska konungsríkisins
Fæddur27. mars 1785
Dáinn8. júní 1795 (10 ára)
DánarorsökBerklar
TrúKaþólskur
ForeldrarLoðvík 16. & María Antonetta

Loðvík Karl af Frakklandi (27. mars 1785 – 8. júní 1795), þekktur í seinni tíð meðal franskra konungssinna sem Loðvík 17., var yngri sonur Loðvíks 16. Frakklandskonungs og Maríu Antonettu drottningar. Loðvík hlaut heiðurstitilinn hertogi af Normandí við fæðingu. Hann varð ríkisarfi að frönsku krúnunni þegar eldri bróðir hans, Loðvík Jósef, lést árið 1789 en seinna sama ár braust franska byltingin út. Byltingin leiddi til þess að öll konungsfjölskyldan var hneppt í varðhald og báðir foreldrar Loðvíks voru hálshöggnir árið 1793.

Samkvæmt hefðum einveldissinna varð Loðvík Karl sjálfkrafa konungur Frakklands um leið og faðir hans dó. Loðvík Karl, sem þá var aðeins átta ára, ríkti þó aldrei yfir Frakklandi og var aldrei viðurkenndur sem konungur því byltingarmennirnir höfðu þá lýst yfir stofnun lýðveldis í Frakklandi. Byltingarmennirnir höfðu tekið Loðvík Karl frá móður sinni sumarið 1793. Hann var settur í umsjá skósmiðs að nafni Antoine Simon, sem var falið að ala Loðvík upp og gera úr honum tryggan lýðveldissinna.[1] Einveldissinnaðir rithöfundar drógu upp mynd af Simon sem áfengissjúkum ofbeldismanni sem hefði farið illa með Loðvík Karl[2][3] en engar sannanir eru til fyrir þessu.

Þann 8. júní árið 1795 var tilkynnt að Loðvík Karl hefði látist úr berklum.[4] Margir drógu þó í efa að ríkisarfinn væri í raun látinn og því komust fljótt orðrómar á kreik um að hann hefði sloppið úr haldi. Margir stigu fram á næstu áratugum sem þóttust vera Loðvík og reyndu að gera tilkall til frönsku krúnunnar. Rannsókn á erfðaefni úr hjarta Loðvíks Karls sem gerð var árið 2000 staðfesti löngu síðar að hann dó vissulega árið 1795.[4]

Þegar Loðvík dó lýsti föðurbróðir hans sig réttmætan konung Frakklands og tók sér konungsnafnið Loðvík 18. til þess að viðurkenna stutta „valdatíð“ bróðursonar síns. Hann hélt því nafni eftir að konungsríki var endurreist í Frakklandi árið 1814.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Maurice Garçon (1968). Hachette (ritstjóri). Louis XVII ou la fausse énigme. bls. 8.
  2. Jacques Bainville, Petite Histoire de France.
  3. Louis XVII. Analyses ADN cœur de Louis XVII et mystère.
  4. 4,0 4,1 Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir (9. nóvember 2011). „Hvað varð um börn Loðvíks XVI. og Maríu Antoníettu eftir að þau voru hálshöggvin?“. Vísindavefurinn. Sótt 13. maí 2024.


Fyrirrennari:
Loðvík 16.
Konungur Frakklands
(að nafninu til)
(1793 – 1795)
Eftirmaður:
Loðvík 18.


pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy