Fara í innihald

Sameinaða Arabalýðveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sameinaða arabalýðveldið
الجمهورية العربية المتحدة
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
„Walla Zaman Ya Selahy“[1]
والله زمان يا سلاحي
(
Það er langt um liðið, vopnið mitt)
Höfuðborg Kaíró
Opinbert tungumál Arabíska
Stjórnarfar Flokksræði

Forseti Gamal Abdel Nasser
'
 • Stofnun 1. febrúar 1958 
 • Upplausn 5. október 1961 
Flatarmál
 • Samtals

1.166.049 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1961)
 • Þéttleiki byggðar

32.203.000
28/km²
Gjaldmiðill Egypskt pund (Egyptaland og Gaza)
Sýrlenskt pund (Sýrland)

Sameinaða arabalýðveldið (لجمهورية العربية المتحدة eða al jumhūrīya al-ʕarabīya al-muttaĥida á arabísku) var stjórnarsamband milli Egyptalands og Sýrlands sem var við lýði frá 1. febrúar 1958 til 5. október 1961.

Sambandið varð til að frumkvæði Sýrlendinga, sem óttuðust að kommúnistar kynnu að fremja valdarán í landi sínu. Sameining ríkjanna tveggja átti að vera liður í stofnun stærra ríkis allra arabískra þjóða. Arabísk þjóðernishyggja naut mikils fylgis á þessum tíma og Gamal Abdel Nasser Egyptalandsforseti naut mikilla vinsælda um allan arabaheiminn eftir að hann bauð Bretum og Frökkum birginn í Súesdeilunni árið 1956. Því var naut hugmyndin um að sameinast Egyptalandi talsverðs stuðnings í Sýrlandi.

Eftir að stofnun arabalýðveldisins var tilkynnt í febrúar 1958 voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur til að staðfesta sameiningu ríkjanna; opinber niðurstaða atkvæðagreiðslanna var að 99,99 prósent Egypta og 99,9 prósent Sýrlendinga samþykktu hana. Ríkið notaði svartan, hvítan og rauðan fána með tveimur stjörnum, hinn sama og Sýrland notar í dag.

Stjórnarskrá var sett til bráðabirgða í lýðveldinu þann 5. mars 1958. Líkt og í Egyptalandi voru allir stjórnmálaflokkar bannaðir í Sýrlandi. Landinu var stýrt af landsþingi 200 fulltrúa frá Egyptalandi og 200 frá Sýrlandi sem Nasser forseti útnefndi. Helmingur þingfulltrúanna átti að vera af egypsku og sýrlensku þingunum en hinn helmingurinn af sameinuðu þingi lýðveldisins. Egyptaland og Sýrland áttu áfram að sjá um eigin innanríkismál en þó varð nokkur miðstjórnarvæðing.

Samfélagsumskipti Nassers voru komin miklu lengra á leið í Egyptalandi en Sýrlandi. Í Egyptalandi hafði hann þjóðnýtt ýmis einkarekin fyrirtæki án verulegrar mótspyrnu þar sem þau höfðu tilheyrt útlendingum. Í Sýrlandi átti breiðari hópur þessi fyrirtæki og til var þróaðari millistétt með pólitísk áhrif. Nasser stjórnaði hernum og stjórnsýslunni. Sýrlenski Ba'ath-flokkurinn var hugmyndafræðilega svipaður Nasser en Nasser reyndi ekki að vinna í bandalagi við þá heldur reiddi hann sig á tryggð hersins og ofurstans Abdúl Hamid Sarraj.

Í Sýrlandi jókst andstaða við sambandið við Egyptaland smám saman. Sýrlenskum hermönnum líkaði ekki að vera settir undir egypska herforingja og Sádi Arabía gaf sýrlenskum bedúínum fjárstyrk til að koma í veg fyrir að Nasser gæti öðlast tryggð þeirra. Mörgum Sýrlendingum mislíkaði einnig landeignarumbætur í egypskum stíl og sökuðu þær um að skaða sýrlenskan landbúnað. Stuðningur við kommúnista jókst og menntamenn Ba'ath-flokksins sem höfðu stutt sameiningu ríkjanna fóru að hafna flokksræði Nassers.[2] Nasser tókst ekki að leysa úr ágreiningsmálum í Sýrlandi þar sem hann var þeim ekki kunnugur og í stað þess að útnefna Sýrlendinga til að stjórna Sýrlandi setti hann egypska trúnaðarmenn sína í stjórnarembætti þar í landi.[3]

Þann 28. september árið 1961 framdi hópur sýrlenskra herforingja valdarán í Sýrlandi og leystu upp sambandið við Egyptaland.

Sameinaða arabalýðveldið var einnig formlega í stjórnarsambandi við Norður-Jemen frá 1958 til 1961 en þetta stjórnarsamband var eingöngu á pappírnum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Egypt (1961–1979)“. nationalanthems.info.
  2. Tsourapas, Gerasimos (2016). „Nasser's Educators and Agitators across al-Watan al-'Arabi: Tracing the Foreign Policy Importance of Egyptian Regional Migration, 1952–1967“ (PDF). British Journal of Middle Eastern Studies. 43 (3): 324–341. doi:10.1080/13530194.2015.1102708. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 20. nóvember 2016.
  3. Aburish, Said K. (2004), Nasser, the Last Arab, New York: St. Martin's Press, p. 185.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy