Fara í innihald

Soong Mei-ling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Soong, eiginnafnið er Mei-ling.
Soong Mei-ling
宋美齡
Soong á fimmta áratugnum.
Fædd5. mars 1898
Dáin23. október 2003 (105 ára)
ÞjóðerniKínversk
MenntunWellesley-háskóli
FlokkurKuomintang
TrúMeþódismi[1]
MakiChiang Kai-shek

Soong Mei-ling (kínverska: 宋美齡; pinyin: Sòng Měilíng; 5. mars 1898 – 23. október 2003), einnig þekkt sem Frú Chiang Kai-shek eða Frú Chiang, var kínversk stjórnmálakona sem var lengi forsetafrú Lýðveldisins Kína. Hún var eiginkona hershöfðingjans og forsetans Chiang Kai-shek og jafnframt mágkona Sun Yat-sen, stofnanda og fyrsta leiðtoga Lýðveldisins Kína. Hún var áberandi í kínversku stjórnmála- og þjóðfélagslífi og gegndi ýmsum ábyrgðar- og heiðursembættum, meðal annars embætti forstöðumanns kaþólska Fu Jen-háskólans. Á tíma seinna stríðs Kína og Japans tók hún þátt í að fylkja kínversku þjóðinni gegn japönsku innrásinni og árið 1943 fór hún í átta mánaða ræðuferð til Bandaríkjanna til að vinna Kínverjum stuðning.

Soong Mei-ling fæddist árið 1898 og var dóttir Charlie Soong, Kínverja sem hafði gerst kristinn trúboði eftir dvöl í Bandaríkjunum. Charlie Soong hagnaðist á því að flytja inn tækninýjungar til Kína og lét bæði prenta Biblíuna og ýmis róttæk áróðursrit fyrir kínverska byltingarleiðtogann Sun Yat-sen. Soong Mei-ling var yngst þriggja dætra Charlie Soong sem allar giftust áhrifamönnum í kínverskum stjórnmálum: Elsta systirin, Soong Ai-ling, giftist auðjöfrinum H. H. Kung, miðsystirin Soong Ching-ling giftist Sun Yat-sen, og Mei-ling giftist árið 1926 hershöfðingjanum Chiang Kai-shek, sem tók við af Sun Yat-sen sem leiðtogi kínverska þjóðernisflokksins Kuomintang.[2]

Soong Mei-ling var send til náms í Bandaríkjunum þegar hún var níu ára og bjó þar þangað til hún varð nítján ára. Hún útskrifaðist úr háskóla með ágætiseinkunn og sneri síðan aftur til heimabæjar síns í Kína, þar sem hún kynntist Chiang Kai-shek, hægri hönd Sun Yat-sen, á heimili móður sinnar. Chiang hreifst fljótt af Soong Mei-ling en fyrsta bónorði hans til hennar var hafnað þar sem hann var mun eldri en hún, fráskilinn og búddisti. Soong Mei-ling taldi Chiang á að taka kristna trú til þess að þau gætu gifst. Þetta gerði hann eftir fimm ár, sem leiddi til þess að þau gáfust saman þann 1. desember 1927 í Sjanghæ.[3][4]

Mei-ling vann margvísleg líknarstörf á ferli sínum, meðal annars fyrir kvenréttindum og gegn barnaþrælkun.[2] Mei-ling sat jafnframt á löggjafarþingi Lýðveldisins Kína frá 1930 til 1932 og var formaður kínversku flugmálanefndarinnar frá 1936 til 1938. Hún stofnaði munaðarleysingjahæli og skóla fyrir börn sem höfðu misst foreldra sína í kínversku borgarastyrjöldinni.[5] Eftir upphaf stríðsins gegn Japan urðu málefni munaðarleysingja mun meira aðkallandi og því stofnaði Soong Mei-ling líknarsjóð kínverskra kvenna fyrir stríðsreksturinn.[6]

Í desember 1936 var gerð uppreisn gegn Chiang og hann fangelsaður. Soong Mei-ling fór sjálf á fund uppreisnarmennina til að semja um lausn eiginmanns síns.[3] Afleiðing atviksins varð sú að Chiang var leystur úr haldi en hann var þvingaður til að semja um vopnahlé við kínverska kommúnista í borgarastyrjöldinni sem stóð yfir svo Kínverjar gætu barist saman gegn innrás Japana.

Soong Mei-ling fór til Bandaríkjanna árið 1943 til að vekja athygli á málstað Kínverja í stríðinu gegn Japan. Hún flutti ræðu við Bandaríkjaþing og vakti mikla lukku.[7] Eftir að þjóðernissinnar töpuðu borgarastyrjöldinni gegn kommúnistum fylgdi Mei-ling eiginmanni sínum í útlegð til eyjarinnar Taívan. Hún var þar forsetafrú Lýðveldisins Kína á stjórnartíð Chiangs frá 1950 til 1975. Eftir að Chiang lést árið 1975 tók sonur hans úr fyrra hjónabandi, Chiang Ching-kuo, við völdum á Taívan en Mei-ling kom ekki vel saman við stjúpson sinn. Mei-ling flutti sama ár frá Taívan til óðals sem hún átti í Lattingtown í New York í Bandaríkjunum. Hún bjó í Bandaríkjunum þar til hún lést árið 2003, þá 105 ára gömul.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hubert R. Knickerbocker (5. mars 1938). „Heimsstyrjöld er yfirvofandi“. Fálkinn. bls. 4.
  2. 2,0 2,1 „May Ling, frægasta konan í Kína“. Fálkinn. 21. janúar 1949. bls. 4.
  3. 3,0 3,1 „Frú Chiang Kai-shek“. Tíminn. 5. mars 1938. bls. 485.
  4. „„Drottning Kínaveldis" Frú Chiang Kai Shek“. Morgunblaðið. 6. maí 1943. bls. 5-6.
  5. Tyson Li, Laura (2006). Madame Chiang Kai-shek: China's Eternal First Lady. New York: Grove Press. ISBN 978-0-8021-4322-8. Preview at Google Books
  6. Scott Wong, Kevin (2005). Americans first: Chinese Americans and the Second World War. Harvard University Press. bls. 93. ISBN 9780674016712.
  7. „Frú Chiang Kai-shek er vongóð um lokasigur“. Morgunblaðið. 5. ágúst 1951. bls. 3.
  8. Faison, Seth (24. október 2003). „Madame Chiang Kai-shek, a Power in Husband's China and Abroad, Dies at 106“. New York Times. Sótt 27. júní 2008.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy