Content-Length: 135503 | pFad | http://is.wikipedia.org/wiki/Stj%C3%B3rnarskr%C3%A1_l%C3%BD%C3%B0veldisins_%C3%8Dslands

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stjórnarskrá Íslands.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðstu lög Íslands, sem öll önnur lög landsins verða að hlíta. Núverandi stjórnarskrá var samþykkt sem lög nr. 33/1944 af Alþingi við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, 17. júní 1944. Stjórnarskráin er í 81 grein í 7 köflum og í henni er stjórnskipan landsins ákveðin og ýmis grundvallarréttindi borgaranna vernduð.

Á 19. öld hljóp mikill kraftur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga samfara því sem þjóðernishyggja og kröfur um aukin borgaraleg réttindi urðu háværari á meginlandi Evrópu. Í júní 1849 sá þáverandi konungur Danmerkur sig tilneyddan til að ganga til móts við kröfur frjálslyndra og þjóðernissinna og samþykkti stjórnarskrá fyrir Danmörk og þar með einnig Ísland. Sú stjórnarskrá afnam einveldið og kom á stjórnarskrárbundinni konungsstjórn þar sem völd yfir nokkrum mikilvægum málaflokkum voru færð til þjóðkjörins þings.

Þessi breyting féll ekki í góðan jarðveg hjá Íslendingum þar sem hún þýddi í raun skerta sjálfsstjórn Íslendinga. Fyrir 1849 höfðu íslenskir embættismenn í raun ráðið því sem þeir vildu ráða í málefnum landsins en nú var það komið undir stjórn þings sem Íslendingar höfðu engin áhrif á. Danir voru ófúsir að ganga að kröfum Íslendinga um sjálfsstjórn sem settar voru fram á þjóðfundinum 1851 vegna þess að ef látið væri eftir þeim kröfum gæti það skaðað hagsmuni Dana í Slésvík og Holtsetalandi. En þegar þau héruð voru innlimuð í Prússland árið 1867 sköpuðust nýjar aðstæður og stöðulögin voru sett 1871 og mæltu fyrir um samband Íslands og Danmerkur. Árið 1874 á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar kom Kristján IX þáverandi konungur Danmerkur til landsins og var viðstaddur hátíðahöld í tilefni tímamótanna. Það tækifæri var notað til að gefa Íslendingum sérstaka stjórnarskrá eins og þeir höfðu krafist. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“ og er að stofni til sú sama og núgildandi stjórnarskrá.

Með sambandslögunum 1918 varð Ísland fullvalda ríki og árið 1920 fékk landið nýja stjórnarskrá til að endurspegla þær miklu breytingar sem höfðu orðið á stjórnskipun þess. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“. Snemma árs 1944 samþykkti Alþingi að fella niður sambandslögin og samþykkti nýja stjórnarskrá auk þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tveggja. Í maí sama ár var gengið til kosninga og var kjörsókn 98%. 97% greiddu atkvæði með sambandsslitum og 95% samþykktu lýðveldisstjórnarskrána. Þann 17. júní 1944 kom Alþingi svo saman á Þingvöllum þar sem lýst var yfir gildistöku stjórnarskrárinnar og stofnun lýðveldis.

Frá gildistöku stjórnarskrárinnar hefur henni verið breytt alls 8 sinnum, oftast vegna breytinga á kjördæmaskipan og skilyrðum kosningaréttar. Árið 1991 var skipulagi Alþingis breytt þannig að það starfar nú í einni deild en ekki tveimur eins og áður var. Umfangsmestu breytingarnar voru gerðar árið 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður.

Kaflar stjórnarskrárinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands skiptist í 7 kafla sem hver tekur á ólíkum þáttum stjórnskipunarinnar.

1. kafli stjórnarskrárinnar er eingöngu 2 greinar og tilgreinir fyrri greinin það að Ísland eigi að vera lýðveldi og að ríkisstjórnin skuli vera þingbundin, en það merkir að ríkisstjórnin er bundin af ákvörðunum Alþingis. Í 2. grein er svo kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins og hvernig henni skuli háttað. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis og forseta Íslands, framkvæmdavaldið er hjá forsetanum, en hann felur það ráðherrum og öðrum stjórnvöldum sem skilgreind eru í lögum. Dómsvaldið er hjá dómendum.

2. kafli fjallar um embætti forseta Íslands, hvernig til þess skal kosið og hvert valdsvið forseta skuli vera. Forsetinn hefur völd til að gera samninga við önnur ríki, náða menn, rjúfa þing, gefa út bráðabirgðalög og skipa embættismenn. Hins vegar er forsetinn ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Þessi völd eru því í reynd hjá ráðherrum. Hins vegar er ekki sátt um það meðal fræðimanna hvernig beri að túlka sumar greinar um völd forseta. 26. greinin mælir til dæmis fyrir um að lagafrumvarp þurfi staðfestingu forseta áður en það verður að lögum en neiti forseti að staðfesta lögin þá skal efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau. Frá upphafi lýðveldisins hafa fræðimenn deilt um það hvort að þetta synjunarvald sé raunverulega til staðar og einnig hefur verið deilt um það hvort að það sé æskilegt að það sé til staðar. Þessar deilur komust í hámæli eftir að Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp árið 2004. Ekki kom til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málsins þar sem ríkisstjórnin dró hið umdeilda frumvarp til baka. Einnig neitaði Ólafur Ragnar Grímsson að staðfesta hin umdeildu IceSave lög og fór það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í 2. kafla er einnig kveðið á um ráðherraábyrgð og það að birta þurfi lög.

3. kafli fjallar um kjördæmaskipan, kosningarétt og kjörgengi fyrir Alþingiskosningar. Eftir kjördæmabreytinguna 1999 eru kjördæmi landsins ekki lengur skilgreind landfræðilega í stjórnarskrá, heldur er látið duga að skilgreina hversu mörg þau megi vera (6-7) og hver lágmarksfjöldi kjördæmiskjörinna þingmanna skal vera í hverju (6). Heimild er gefin til þess að ákveða kjördæmamörk með almennum lögum með því skilyrði að 2/3 Alþingis samþykki allar breytingar á kjördæmamörkum og þingmannafjölda. (Sjá nánar: Kjördæmi Íslands). Nefnt er að eingöngu íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri megi kjósa en stjórnarskráin heimilar að nánari reglur skuli skilgreindar í kosningalögum. Allir þeir sem hafa kosningarétt til Alþingis og óflekkað mannorð eru kjörgengir til þess að undanskildum hæstaréttardómurum.

4. kafli skilgreinir helstu atriði er varða störf Alþingis og ákvarðar réttindi og völd þingmanna. 1. málsgrein 35. greinarinnar heimilar að breyta megi samkomudegi reglulegs Alþingis með almennum lögum en núna byrjar Alþingi á fyrsta virka degi októbermánaðar. Í kaflanum er mælt fyrir um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en eftir þrjár umræður á Alþingi, fundir Alþingis skuli fara fram í heyranda hljóði nema annað sé samþykkt af þinginu. Meirihluti þingmanna verður að vera viðstaddur til þess að afgreiða mál. Flestar aðrar starfsreglur þingsins eru kallaðar þingsköp og ákveðin í lögum samkvæmt 58. grein.

Í 4. kafla eru einnig tilgreind nokkur atriði sem ávallt þarfnast lagasetningar frá Alþingi. Ekki má leggja á nýja skatta eða breyta eða afnema eldri skatta án lagasetningar, það er því ólöglegt fyrir ráðherra að gera slíkt að eigin frumkvæði án samþykkis frá Alþingi. Einnig þarf lagasetningu til að heimila lántökur í nafni ríkisins og til þess að selja fasteignir ríkisins eða afnotarétt af þeim. Einnig er óheimilt að greiða nokkuð úr ríkissjóði án þess að heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Um réttindi og skyldur þingmanna segir, að þeir skuli aðeins vera bundnir af eigin sannfæringu og ekki neinum reglum frá kjósendum sínum. Þingmenn má ekki hneppa í gæsluvarðhald né heldur má höfða mál gegn þeim án þess að þingið samþykki það. Þetta gildir þó ekki, ef þingmaðurinn er staðinn að glæp. Alþingismenn þurfa heldur ekki að gera grein fyrir orðum sínum, sem þeir láta falla úr ræðustól án þess að Alþingi samþykki, þetta þýðir m.a. að ekki er unnt að kæra þingmann fyrir meiðyrði vegna einhvers, sem hann hefur sagt í ræðustól Alþingis.

5. kafli stjórnarskrárinnar samanstendur af 3 greinum en þar er fjallað um dómsvaldið. Þar er mælt svo fyrir að eingöngu má skipa í dómsvaldið með lögum. Dómendur skera úr öllum ágreiningi, sem verður vegna starfa yfirvalda. Þeir sem ekki eru sáttir við úrskurð dómsvaldsins geta ekki komist hjá því að hlýða honum með því að skjóta málinu til dóms. Seinasta greinin í kaflanum nefnir að dómendur mega eingöngu notast við lögin í störfum sínum og að eingöngu má víkja þeim úr embætti án vilja þeirra með lögum, nema vegna breytingar á skipulagi. Dómara sem orðinn er 65 ára má leysa úr embætti (með viðeigandi eftirlaunum) en hæstaréttardómarar fá full laun þrátt fyrir lausn frá embætti.

6. kafli fjallar um trúmál á Íslandi og er eingöngu 3 greinar. Í kaflanum er sagt að evangelíska lúterska kirkjan skuli vera þjóðkirkja Íslands og að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda. Trúfrelsi er skilgreint og er öllum frjálst að stofna trúfélög og vera aðilar að þeim, en þó má ekki gera neitt í nafni trúarinnar, sem brýtur gegn góðu siðferði eða allsherjarreglu. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga en þá skal greiða nefskatt til Háskóla Íslands þá upphæð, sem annars hefði borist til trúfélagsins. 62. greininni og 2. meðgrein 64. greinar má breyta með almennum lögum.

7. kafli er svonefndur mannréttindakafli og fjallar um rétt hvers manns sem er staddur á landinu. 1. greinin í kaflanum segir að „allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Í sama kafla er sagt í grófum dráttum um rétt hverrar manneskju gagnvart íslenskum lögum eins og t.d. að nauðungarvinna og dauðarefsingar skulu aldrei verða framkvæmdar og að dæmt skuli eftir þeim lögum, sem voru í gildi þegar glæpurinn var framinn. Einn mikilvægasti rétturinn sem skilgreindur er í kaflanum er tjáningarfrelsið, en þar er hverjum manni tryggður réttur til að tjá hugsanir sínar, en þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi og síðan er áskilið að ritskoðun og sambærilegar tálmanir á prentfrelsi skuli aldrei í lög leiða. Hins vegar má takmarka tjáningarfrelsi ef það er í þágu "allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum". Að lokum ræðir þessi kafli um skattamál landsmanna. Engum hluta þessa kafla má breyta nema með beinni breytingu á stjórnarskránni.

79. grein stjórnarskrárinnar fjallar um skilyrði þess að breyta stjórnarskránni sjálfri. Ef breyting er samþykkt, þá skal rjúfa þing og stofna til almennra kosninga. Ef að breytingin er síðan samþykkt óbreytt af nýkjörnu Alþingi og staðfest af forseta Íslands, þá fær hún gildi. 81. greinin segir að stjórnarskráin hljóti gildi hafi meiri hluti atkvæðabærra manna samþykkt hana, en sú grein var miðuð við samþykki upprunalegu stjórnarskrárinnar 17. júní 1944.

Breytingar á stjórnarskrá

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskráin er sem fyrr segir, æðsta réttarheimild Íslands og yfir önnur lög hafin. Því nýtur hún meiri verndar en almenn lög og erfiðara er að breyta henni en öðrum lögum. 79. grein stjórnarskrárinnar segir til um það hvernig eigi að haga breytingum á henni. Breytingin verður að vera samþykkt af tveimur þingum með þingrofi og almennum kosningum á milli, auk þess sem Forseti Íslands þarf að staðfesta breytinguna eins og einnig er skilyrði við almenna lagasetningu.

Nokkrar greinar í stjórnarskránni eru þó undanþegnar þessu ferli og þeim má breyta með venjulegri lagasetningu. Sem dæmi má nefna 35. grein sem fjallar um samkomutíma Alþingis, þeirri grein má breyta með almennum lögum.

62. grein sem skilgreinir hina „evangelísku lútersku kirkju“ sem þjóðkirkju Íslands má einnig breyta með lögum, en 1. málsgrein 79. greinar segir að auki, að slík breyting þurfi samþykki í leynilegri þjóðaratkvæðagreiðslu.









ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: http://is.wikipedia.org/wiki/Stj%C3%B3rnarskr%C3%A1_l%C3%BD%C3%B0veldisins_%C3%8Dslands

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy