Fara í innihald

Colin Powell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Colin Powell
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2001 – 26. janúar 2005
ForsetiGeorge W. Bush
ForveriMadeleine Albright
EftirmaðurCondoleezza Rice
Forseti herforingjaráðs Bandaríkjahers
Í embætti
1. október 1989 – 30. september 1993
ForsetiGeorge H. W. Bush
Bill Clinton
ForveriWilliam J. Crowe
EftirmaðurJohn Shalikashvili
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna
Í embætti
23. nóvember 1987 – 20. janúar 1989
ForsetiRonald Reagan
ForveriFrank Carlucci
EftirmaðurBrent Scowcroft
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. apríl 1937(1937-04-05)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
Látinn18. október 2021 (84 ára) Bethesda, Maryland, Bandaríkjunum
DánarorsökCOVID-19
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn (1995–2021)
MakiAlma Johnson (g. 1962)
HáskóliBorgarháskóli New York
George Washington-háskóli
StarfHerforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

Colin Luther Powell (f. 5. apríl 1937, d. 18. október 2021) var bandarískur stjórnmálamaður og fyrrum fjögurrastjörnuhershöfðingi í Bandaríkjaher. Á hernaðarferli sínum var Powell meðal annars þjóðaröryggisráðgjafi[1] (1987–1989) og forseti herforingjaráðs Bandaríkjahers[2] frá 1989 til 1993, í stjórnartíð George H. W. Bush. Powell gegndi þessu embætti á meðan Bandaríkjamenn háðu fyrra Persaflóastríðið. Powell er fyrsti og hingað til eini maðurinn af jamaískum ættum sem hefur tekið sæti í herforingjaráðinu. Powell varð síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð George W. Bush frá 2001 til 2005, fyrstur blökkumanna.

Powell hefur hlotið fjölda hernaðarverðlauna og -viðurkenninga bæði í Bandaríkjunum og erlendis. Meðal borgaralegra verðlauna sem Powell hefur hlotið má einnig nefna tvær frelsisorður Bandaríkjaforseta, borgaraorðu forsetans, gullorðu Bandaríkjaþings og orður fyrir afrek í embætti utanríkisráðherra.

Powell fæddist í New York-borg árið 1937 og var alinn upp í suðurhluta Bronx, sem var þá eitt mesta fátækrahverfi borgarinnar. Foreldrar hans, Luther og Maud Powell, voru innflytjendur frá Jamaíku. Powell vann í húsgagnaverslun með námi og lærði jiddísku á sama tíma, en margir nágrannar fjölskyldunnar voru af Gyðingaættum.[3] Powell gekk í almenningsskóla í New York og útskrifaðist úr borgarháskóla New York með bakkalársgráðu í jarðfræði. Á háskólaárum sínum tók Powell þjálfunarnámskeið fyrir varaliða í Bandaríkjaher og hafði hlotið lautinantstign þegar hann útskrifaðist í júní árið 1958. Hann hlaut síðar mastersgráðu í viðskiptafræði frá George Washington-háskóla.

Powell var atvinnuhermaður í 35 ár og gegndi á þeim tíma ýmsum ábyrgðarembættum og stjórnarstöðum. Hann var orðinn fjögurrastjörnuhershöfðingi undir lok hernaðarferils síns. Powell var einungis þriðji maðurinn sem náði þeirri tign án þess að hafa stýrt eigin herdeild, á eftir Dwight D. Eisenhower og Alexander Haig.[3] Síðasta hernaðarembætti hans var sem forseti herforingjaráðsins, sem er æðsta embættið í öryggisráðuneyti Bandaríkjastjórnar. Á þessum tíma kom það í hlut Powells að leysa úr 28 deilumálum, meðal annars innrásinni í Panama árið 1990 til þess að handtaka einræðisherrann Manuel Noriega og framkvæmd Desert Storm-aðgerðarinnar í fyrra Persaflóastríðinu árið 1991.[3]

Powell naut mikillar alþýðuhylli eftir sigur Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu og var jafnvel orðaður við forsetaframboð fyrir Repúblikanaflokkinn.[4] Powell ákvað hins vegar að gefa ekki kost á sér og fór þess í stað á eftirlaun árið 1993.[3]

Eftir að Powell settist í helgan stein skrifaði hann metsölubók um ævi sína undir titlinum My American Journey. Þann 16. desember árið 2000 útnefndi George W. Bush Bandaríkjaforseti Powell sem utanríkisráðherra í stjórn sinni.[5] Útnefning Powells var samþykkt einhljóða af öldungadeild Bandaríkjaþings þann 20. janúar árið 2001.

Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 ráðlagði Powell Bush að einbeita sér að Afganistan til þess að handsama Osama bin Laden, sem dvaldi þar í skjóli stjórnar Talíbana. Aðrir stjórnarmeðlimir, meðal annars Dick Cheney varaforseti og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra, eygðu hins vegar tækifæri til að tengja Írak við árásina.[6] Árið 2003 flutti Powell umdeilda ræðu á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem hann hélt því ranglega fram að Írak byggi yfir efnavopnum. Fullyrðingar um að Írakar byggju yfir gereyðingarvopnum urðu helsta réttlætingin fyrir Íraksstríðinu sem hófst sama ár. Powell sagði ræðuna síðar vera blett á ferli sínum.[7]

George Bush náði endurkjöri árið 2004 en ákvað að skipa Powell ekki utanríkisráðherra á ný og Powell fór því aftur á eftirlaun.[3]

Powell var í seinni tíð gagnrýninn á stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta.[8] Árið 2020 gagnrýndi hann viðbrögð Trumps við George Floyd-mótmælunum og sagði Trump vera að „fjarlægjast stjórnarskrána“. Hann lýsti því yfir að hann myndi styðja Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, í forsetakosningum sama ár.[9]

Powell lést 18. október 2021 vegna sýkingar af COVID-19.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Öryggisráðgjafinn kýs herinn þrátt fyrir gylliboð annarra“. Morgunblaðið. 10. janúar 1989. Sótt 12. desember 2018.
  2. „Colin Powell forseti herforingjaráðsins“. Morgunblaðið. 11. ágúst 1989. Sótt 12. desember 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Stefán Gunnar Sveinsson (18. október 2021). „Brautryðjandi fallinn frá“. mbl.is. Sótt 18. október 2021.
  4. Ásgeir Sverrisson (10. september 1995). „Leiftursókn hershöfðingjans“. Morgunblaðið. bls. 10-11.
  5. „Spá deilum vegna stefnubreytinga“. Morgunblaðið. 19. desember 2000. Sótt 12. desember 2018.
  6. Magnús H. Jónasson (11. september 2021). „Dauðinn mun finna þig, jafnvel þótt þú sért í himinháum turni“. Fréttablaðið. Sótt 20. september 2021.
  7. 7,0 7,1 „Colin Powell látinn“. mbl.is. 18. október 2021. Sótt 18. október 2021.
  8. „Colin Powell kallar Trump „þjóðarskömm" og „úrhrak". Kjarninn. 14. september 2016. Sótt 12. desember 2018.
  9. Anna Sigríður Einarsdóttir (7. júní 2020). „Colin Powell styður Biden í forsetaslagnum“. RÚV. Sótt 7. júní 2020.


Fyrirrennari:
Madeleine Albright
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
(20. janúar 200126. janúar 2005)
Eftirmaður:
Condoleezza Rice


pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy