Fara í innihald

David Hume

Notendur Wikipediu hafa valið þessa grein sem úrvalsgrein sem þýðir að hún þykir framúrskarandi.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
David Hume
David Hume (1711-1776)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. apríl 1711
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 18. aldar
Skóli/hefðRaunhyggja
Helstu ritverkRitgerð um mannlegt eðli; Rannsókn á skilningsgáfunni; Ritgerðir um siðferði og stjórnmál; Rannsókn á siðgæðislögmálum; Saga Englands; Samræður um trúarbrögðin
Helstu kenningarRitgerð um mannlegt eðli; Rannsókn á skilningsgáfunni; Ritgerðir um siðferði og stjórnmál; Rannsókn á siðgæðislögmálum; Saga Englands; Samræður um trúarbrögðin
Helstu viðfangsefniþekkingarfræði, frumspeki, hugspeki, siðfræði, fagurfræði, trúarbrögð, hagfræði, stjórnmál

David Hume (26. apríl 171125. ágúst 1776)[1] var skoskur heimspekingur, hagfræðingur og sagnfræðingur og einn mikilvægasti hugsuður skosku upplýsingarinnar á 18. öld.

Venjulega er Hume talinn einn þriggja helstu málsvara bresku raunhyggjunnar en þó eru ekki allir á einu máli um hvernig eigi að túlka heimspeki hans. Sumir telja að Hume hafi fyrst og fremst verið efahyggjumaður en aðrir telja að kjarninn í heimspeki hans sé öðru fremur náttúruhyggja.[2]

Hume var undir miklum áhrifum frá raunhyggjumönnunum John Locke og George Berkeley en einnig frá ýmsum frönskumælandi höfundum eins og Pierre Bayle og mörgum enskumælandi hugsuðum og vísindamönnum, svo sem Isaac Newton, Samuel Clarke, Francis Hutcheson, Adam Smith og Joseph Butler.

Hume naut ekki mikilla vinsælda meðal samtímamanna sinna og var misskilinn af flestum þeirra. Hann fékk þó betri viðtökur á meginlandi Evrópu en í heimalandi sínu. Kirkjunnar menn höfðu ætíð horn í síðu Humes og komu að minnsta kosti tvisvar sinnum í veg fyrir að hann fengi ráðningu sem háskólakennari.

Eigi að síður hafði Hume þó nokkur áhrif bæði á samtímamenn sína og síðari tíma heimspekinga. Mestu munar ef til vill um áhrif Humes á prússneska heimspekinginn Immanuel Kant. Meðal annarra heimspekinga sem hafa verið undir áhirfum Humes má nefna Jeremy Bentham, John Stuart Mill, A.J. Ayer, Bertrand Russell og J.L. Mackie.

David Home (síðar Hume) fæddist 26. apríl árið 1711 í Edinborg á Skotlandi.[3] Hann var sonur lögfræðingsins Joseph Home frá Ninewells og konu hans, Katherine. Hann breytti nafni sínu í Hume árið 1734 af því að Englendingar áttu í erfiðleikum með að bera fram Home að skoskum hætti.

Tólf ára gamall var hann sendur til náms við Edinborgarháskóla, tveimur árum á undan jafnöldrum sínum. Í fyrstu hugðist hann nema lögfræði en fékk að eigin sögn andstyggð á öllu nema heimspeki og almennum lærdómi. Fjölskylda hans hélt að hann læsi Voet og Vinnius, en í raun varði Hume tíma sínum í lestur rita Ciceros og Virgils. Hann bar litla virðingu fyrir prófessorum og trúði vini sínum fyrir því árið 1735 að ekkert væri hægt að læra af prófessor sem ekki mætti lesa í bók.[4]

Átján ára gamall gerði Hume heimspekilega uppgötvun sem leiddi hugsun hans á nýjar brautir og fékk hann til að „virða að vettugi alla aðra ánægju og öll önnur verkefni og einbeita [sér] að þessu einu“.[5] Hann getur þess hvergi hver uppgötvunin var en leiða má líkum að því að hún hafi verið kenning hans um orsakavensl — að skoðanir okkar um orsakir og afleiðingar velti á venju og hefð en ekki á skynseminni né heldur á neinu náttúrulögmáli.

Að námi loknu réð Hume sig í vinnu á skrifstofu kaupmanns í Bristol. Nokkrum mánuðum seinna, árið 1734, hélt hann til La Flèche í Anjou í Frakklandi, þar sem hann ræddi við jesúíta við fræga skóla þar sem Descartes hlaut menntun sína. Hume dvaldi þar í fjögur ár. Hann skipulagði líf sitt og ákvað að helga sig fræði- og ritstörfum.[6] Í La Flèche lauk Hume við rit sitt Ritgerð um mannlegt eðli, þá 26 ára gamall. Enda þótt margir fræðimenn telji nú að Ritgerðin sé mikilvægasta rit Humes og eitt mikilvægasta rit í vestrænni heimspeki var henni illa tekið í fyrstu. Hume sagði sjálfur að hún hefði fallið dauð úr prentvélinni og engan áhuga vakið hjá neinum. Áreynslan við ritun Ritgerðarinnar ógnaði hins vegar geðheilsu Humes.

Árið 1744, í kjölfarið á góðum viðtökum almennings á Ritgerðum um siðferði og stjórnmál, sótti Hume um kennslustöðu í heimspeki við Háskólann í Edinborg en var hafnað. Árið 1747 hóf hann að rita bók um sögu Bretlands, sem tók hann 15 ár að ljúka. Ritið kom út í sex bindum á árunum 1754 til 1762. Árið 1748 tók hann við starfi ritara St. Clairs herforingja og gegndi því í þrjú ár. Á þessum tíma samdi hann Heimspekilegar ritgerðir um mannlegan skilning sem komu síðar út undir titlinum Rannsókn á skilningsgáfunni. Rannsóknin fékk betri viðtökur en Ritgerðin en naut eigi að síður ekki mikilla vinsælda.

Hume var sakaður um villutrú en naut aðstoðar vina sinna innan kirkjunnar sem sögðu að úr því að Hume væri trúlaus væri hann utan umdæmis kirkjunnar. Þrátt fyrir að vera sýknaður — og ef til vill vegna andstöðu Thomasar Reid frá Aberdeen, sem gagnrýndi frumspeki Humes á kristnum forsendum — varð Hume aftur af kennslustöðu í heimspeki, í þetta sinn við Háskólann í Glasgow. Hann tók við starfi bókavarðar í Edinborg. Aðstaða hans þar gerði honum kleift að halda rannsóknum sínum áfram. Hume hlaut mikla frægð og mikið lof fyrir sagnfræðirit sitt.

Frá 1763 til 1765 gegndi Hume starfi ritara Hertfords lávarðar í París. Þar kynntist hann franska rithöfundinum Voltaire og naut vinsælda meðal yfirstéttarkvenna. Hann vingaðist sömuleiðis við heimspekinginn Rousseau en vinátta þeirra varði skammt. Árið 1768 flutti hann á ný til Edinborgar. Rit hans um heimspeki hlutu meiri eftirtekt eftir að prússneski heimspekingurinn Immanuel Kant kvað Hume hafa vakið sig af værum kreddublundi (um árið 1770). Hume hlaut æ meiri eftirtekt og lof sem heimspekingur upp frá því.

Ritgerð Humes „Um hjátrú og trúarbrögð“ var lengi grundvöllur nær allrar veraldlegrar orðræðu um sögu trúarbragða. Gagnrýnendur trúarbragða urðu að vera varkárir á þessum tíma. Rúmum áratug fyrir fæðingu Humes var Thomas Aikenhead, 18 ára gamall háskólanemi, ákærður fyrir að segja í áheyrn annarra að hann teldi kristna trú vera eintóma vitleysu. Hann var dæmdur sekur um guðlast og hengdur. Hume fylgdi venjum síns tíma og talaði gjarnan undir rós. Hann samdi meðal annars samræður og lagði persónum samræðunnar orð í munn. Ritgerð um mannlegt eðli kom á sínum tíma út sem verk ónafngreinds höfundar en Hume gekkst ekki formlega við ritinu fyrr en árið sem hann lést, 1776. Ritgerðir hans um „Um sjálfsmorð“ og „Um ódauðleika sálarinnar“ og rit hans Samræður um trúarbrögðin voru ekki gefin út fyrr en að honum látnum (1778 og 1779), en báru þá hvorki nafn Humes né útgefandans. Enn er deilt um hver raunveruleg viðhorf Humes voru, hvort hann var frumgyðistrúar eða guðleysingi en ásakanir um guðleysi hindruðu frama Humes á sínum tíma.[7]

Hume virðist ætla heimspekinni það hlutverk að vera undirstaða allra vísinda og lista og hins upplýsta þjóðfélags. Hann gerir greinarmun á léttvægari heimspeki og þyngri heimspeki. Hin þyngri heimspeki þjónar hinni léttvægari, er nákvæmari og leggur grundvöllinn fyrir hina síðarnefndu. Markmið hans með heimspeki sinni er að finna eðli mannlegs skilnings og mannlegrar þekkingar og takmörk þeirra.

Í 1. bók Ritgerðar um mannlegt eðli og í 2. og 3. kafla Rannsóknar á skilningsgáfunni fjallar Hume um upptök og tengsl hugmynda.[8] Í grófum dráttum skiptir Hume skynjunum (e. perceptions) í svonefndar frumskynjanir (e. impressions) annars vegar og hugmyndir (e. ideas) hins vegar. Og hann greinir frumskynjanir enn fremur í innri skynjanir (e. impressions of reflection) annars vegar og ytri skynjanir (e. impressions of sensation) hins vegar.

Hume taldi að upptök hugmynda væru í frumskynjunum en hugmyndir eru einungis daufar eftirmyndir frumskynjana. Styrkleiki og fjör greina á milli frumskynjana og hugmynda.[9] Til að geta búið til hugmyndir úr frumskynjunum þarf bæði ímyndunarafl og minni. Einföld hugmynd er eftirmynd af einhverri einni frumskynjun, en samsett hugmynd er eftirmynd af fleiri en einni frumskynjun, sem minnið kallar fram en ímyndunaraflið setur saman í eina hugmynd. Dæmi um þetta eru hugmyndir um einhyrninga og gullfjall.

Samkvæmt kenningu Humes geta hugmyndir tengst með þrennum hætti: í fyrsta lagi geta þær líkst hver annarri; í öðru lagi geta þær legið saman í tíma og rúmi; og í þriðja lagi geta þær tengst sem orsök og afleiðing. Hume taldi að þetta væri tæmandi upptalning af tengslum hugmynda. Hann segir að önnur tengsl, svo sem að hugmyndir séu gagnkvæmar eða andstæðar, megi smætta í þessi tengsl, þ.e. þau séu samblanda af samlíkingu og orsök og afleiðingu og þar fram eftir götunum. Tengslin milli hugmyndanna geta verið nauðsynleg, þ.e. röktengsl.

Aðleiðsluvandinn

[breyta | breyta frumkóða]

Í Rannsókn á skilningsgáfunni (§4.1.20-27, §4.2.28-33) segir Hume að ályktanir séu allar af tvennu tagi, afleiðslur og aðleiðslur, og þær varði allar annaðhvort hugmyndatengsl eða staðreyndir. Í fyrri hópnum eru meðal annars sértæk hugtök á borð við hugtök rökfræðinnar og stærðfræðinnar og þar er mögulegt að öðlast vissu með því að beita afleiðslu. Í síðari hópnum eru staðreyndir um heiminn en þar drögum við ályktanir með aðleiðslu.[10] Af því að hugmyndir geta haft nauðsynleg tengsl, röktengsl, sín á milli getum við dregið ályktanir af þeim með afleiðslu. En það eru engin slík röktengsl milli staðreynda. Fólk hefur samt tilhneigingu til að gera ráð fyrir að staðreyndir tengist einnig. Ólíkt rökfærslum um hugmyndatengsl, sem byggjst á mótsagnarlögmálinu, byggja rökfærslur um tengsl milli staðreynda á orsakarlögmálinu. Hume taldi að orsakarlögmálið væri huglægt en ekki hlutlægt — það yrði til fyrir tilstuðlan vanans, af reynslunni. Þess vegna drögum við ályktanir um staðreyndir með aðleiðslu.

Aðleiðsla byggir á því að fortíðin sé áreiðanleg vísbending um framtíðina. Til dæmis, ef sólin hefur hingað til risið í austri og sest í vestri þá má álykta með aðleiðslu að hún muni áfram rísa í austri og setjast í vestri í framtíðinni. En hvernig er hægt að réttlæta slíka ályktun? Hume hélt því fram að maður geti ekki fært rök fyrir því að þessi ályktunargáfa sé afurð skynseminnar. Því rökhugsun er öll af tvennu tagi og hvorug tegundin getur réttlætt ályktanir okkar: við getum ekki réttlætt aðleiðslu með aðleiðslu; og við getum ekki réttlætt aðleiðslu með afleiðslu. Þetta er nefnt aðleiðsluvandinn.

  1. Afleiðsla. Þessi tegund ályktunar er í grundvallaratriðum a priori, þ.e. ekki byggð á reynslu. En við getum ekki haldið því fram a priori að framtíðin verði eins og fortíðin hefur verið — því bæði er það mótsagnarlaust og sennilegt að framtíðin beri eitthvað nýtt í skauti sér.
  2. Aðleiðsla. Það er ekki heldur hægt að beita aðleiðslu til að réttlæta aðleiðslu, það er að segja höfða til árangursríkrar notkunar manns á aðleiðslum í fortíðinni, því réttmæti slíkrar ályktunar er einmitt dregin í efa. Þar af leiðandi væri slíkt skref hringferð í sönnun.

Hume kemst því að þeirri niðurstöðu að aðleiðsla eigi ekki rætur í skynseminni. Hume á ekki við að aðleiðsla sé ekki rökrétt af því að hún er ekki afleiðsla. Í Ritgerð um mannlegt eðli segir Hume að rökhugsunin ein og óstudd ákvarðaði skoðanir manns — ef skoðanamyndun væri rökrétt út í gegn — þá myndi maður aldrei trúa neinu, ekki heldur ályktunum byggðum á afleiðslu.[11] Enn fremur á Hume ekki við að aðleiðsla virki ekki né heldur að hún sé óáreiðanleg og þar fram eftir götunum. Hann heldur því einfaldlega fram að rætur hennar sé ekki að finna í skynseminni. Hume taldi að fólk hefði náttúrulega tilhneigingu til að búast við meira af því sama, af því að það er fólki gríðarlega gagnlegt.

Nauðsynleg orsakartengsl

[breyta | breyta frumkóða]

Sjöundi kafli Rannsóknar á skilningsgáfunni hefst á leitinni að frumskynjuninni sem hugmyndin um orsakir byggir á.[12] Hvað á maður við þegar hann talar um orsakavensl? Samkvæmt hefðbundinni túlkun á svari Humes er hugmyndin ekkert annað en afleiðing reglubundinnar endurtekningar ákveðinna frumskynjana, það er að segja síendurtekinnar fylgni milli atburða. Strangt til tekið hefur maður enga frumskynjun af orsakavenslunum sjálfum, heldur einungis af atburðunum og því er strangt til tekið rangt að segja að maður hafi hugmynd um orsakavensl (því hugmyndir eru annaðhvort daufar eftirmyndir frumskynjana eða settar saman úr slíkum eftirmyndum frumskynjana). Öllu heldur hefur fólk náttúrulega tilhneigingu til að gera ráð fyrir að það sem hefur ávallt gerst áður komi til með að gerast áfram og það gerir ráð fyrir að um náttúrulögmál sé að ræða. Máttur vanans getur einfaldlega orðið svo mikill að hann nær að móta mannshugann þannig að fólk á beinlínis erfitt með að aðskilja í huga sínum tvo atburði sem það hefur ávallt séð fylgjast að; það telur að orsakavensl séu milli atburðanna af því að það telur ómögulegt að annar þeirra eigi sér stað en ekki hinn.

Samsemd og sjálf

[breyta | breyta frumkóða]

Hume benti á að fólk telur gjarnan að það sé sama manneskjan og það var fimm árum áður. Þótt það hafi breyst á marga vegu virðist sama manneskjan enn þá vera til. Þá vaknar spurningin hvað geti breyst án þess að manneskjan sjálf hætti að vera til og ný manneskja verði til í staðinn.[13] Hume hafnar því aftur á móti að það sé greinarmunur á hinum ýmsu einkennum manneskju og hinu dularfulla sjálfi sem virðist undirliggja þessum einkennum.[14] Þegar maður beitir sjálfskoðun verður maður aldrei meðvitaður um neitt annað en einstakar skynjanir; maður er búnt eða safn ólíkra skynjana sem taka við hver af annarri með gríðarlegum hraða og eru í sífelldri breytingu.[15]

Hume líkir sálinni við samveldi sem heldur ekki samsemd sinni í krafti neins kjarna eða neins eðlis, heldur af því að það samanstendur af mörgum ólíkum en skyldum og síbreytilegum þáttum. Spurningin um samsemd sjálfsins er þá spurning um að lýsa lauslegu samhengi persónulegrar reynslu manns.

Frelsi viljans

[breyta | breyta frumkóða]

Fjölmargir heimspekingar hafa komið auga á að hugmyndin um frelsi viljans virðist ósamrýmanleg nauðhyggju — ef ákvarðanir manns og athafnir væru ráðnar fyrir mörgum árum síðan, hvernig geta þær þá verið á manns eigin valdi? Hvernig getur maður þá sjálfur ráðið gjörðum sínum? En Hume kom auga á annan vanda, sem umbreytti spurningunni um frelsi viljans í hreina ráðgátu: frelsi viljans er ósamrýmanlegt brigðhyggju, það er að segja þeirri kenningu að undanfarandi orsakir ráði ekki ákvörðunum manns og vilja.[16] Gerum ráð fyrir að að athafnir manns og ákvarðanir ráðist ekki af undanfarandi orsökum. Í því tilfelli eru ákvarðanir manns og athafnir algerlega handahófskenndar að því er virðist. Enn fremur ráðast þær ekki af skapgerð manns — löngunum manns, gildum manns og þar fram eftir götunum. Hvernig getur einhver verið ábyrgur gjörða sinna ef hann réð engu um hvað gerðist? Hvernig getur einhver verið ábyrgur fyrir algerlega handahófkenndri athöfn? Frjáls vilji virðist gera ráð fyrir nauðhyggju vegna þess að annars væru ekki tengsl af réttu tagi milli gerandans og athafnarinnar, tengsl sem tengja frjálsan geranda við athöfn sem hann velur. Ráðgátan, sem er stundum nefnd gaffall Humes, er því eftirfarandi: athafnir manns virðast vera annaðhvort ákvarðaðar fyrir fram af undanfarandi orsökum og þá er maður ekki ábyrgur gjörða sinna eða þær eru afleiðingar handahófskenndra atburða og þá er maður ekki ábyrgur gjörða sinna. Kenning Humes er á þá leið að mannleg hegðun, rétt eins og allt annað, eigi sér orsakir og þar af leiðandi ætti að telja fólk ábyrgt gerða sinna og verðlauna það eða refsa því eftir því sem á við með þeim hætti sem hvetur það til þess að breyta rétt og siðlega og fælir það frá því að brjóta af sér.

Samhygð og undirstöður siðferðisins

[breyta | breyta frumkóða]

Hume fjallar fyrst um siðfræði í Ritgerð um mannlegt eðli en útfærir upphaflega hugmynd sína ítarlegar í styttra riti sem nefnist Rannsókn á siðgæðislögmálum. Nálgun Humes í Rannsókninni er í meginatriðum byggð á athugunum. Í stað þess að segja lesandanum hvernig siðferðið ætti að virka reynir hann að greina frá því hvernig fólk fellir í raun siðferðisdóma. Hann gefur ýmis dæmi en kemst að lokum að þeirri niðurstöðu að flest, en þó ekki öll, hegðun sem fólk samþykkir sé almenningi gagnleg. Þýðir þetta að siðferðisdómar fólks byggi á eiginhagsmunum eingöngu? Ólíkt Thomasi Hobbes telur Hume ekki að því sé svo farið. Hume hélt ekki fram sálfræðilegri sérhyggju, líkt og Hobbes hafði áður haldið fram. Hume taldi að auk eiginhagsmuna gæti samúð eða samhygð manns með öðrum verið ástæða til athafna enda þótt hún varðaði á engan hátt eiginhagsmuni hans.

Hume ver siðfræðilega samhygðarhyggju með þeim rökum að maður geti aldrei fellt siðferðisdóm byggðan á rökhugsun eingöngu. Rökhugsun fjallar um hugmyndatengsl og staðreyndir og ályktar út frá þeim en hún er ófær um að leiða til þess að maður velji að gera eitt fremur öðru. Einungis tilfinningar og langanir geta gert það. Og tilfinningar og langanir manns sem byggja á samhygð geta hvatt okkur til að framkvæma óeigingjarnar athafnir. Þannig er kenning Humes náttúruhyggjukenning um siðferðið, því hún byggir á sálfræðilegum grunni en ekki til dæmis guðfræðilegum eða trúarheimspekilegum grunni líkt og kenning Francis Hutcheson, samtímamanns Humes, eða frumspekilegum grunni líkt og kenning Immanuels Kant síðar.

Forskriftarvandinn

[breyta | breyta frumkóða]

Hume veitti því athygli að margir höfundar tala um það sem ætti að vera á grundvelli fullyrðinga um það sem er (forskriftarvandinn).[17] En það viðist vera mikilvægur munur á lýsandi fullyrðingum (um það sem er, þ.e. staðreyndir) og forskriftum (fullyrðingum um það sem ber). Hume varar við því að breyta umræðuefninu á þennan hátt án þess að útskýra hvernig forskriftirnar eigi að leiða af staðhæfingum um staðreyndir. En hvernig á maður að fara að því að leiða „ber“ (forskriftir og gildi) af „er“ (staðreyndum)? Þessi spurning er nú miðlæg í siðfræðilegri orðræðu. Hume er venjulega eignuð sú skoðun það sé ekki hægt að leiða forskriftir eða gildi af staðreyndum. (Aðrir túlka Hume á þann veg að hann sé ekki að segja að það sé ekki hægt að leiða siðferðilegar staðhæfingar af staðhæfingum um staðreyndir, heldur að það sé ekki hægt að gera það nema á grundvelli mannlegs eðlis, þ.e. með hliðsjón af mannlegum tilfinningum.) Hume er sennilega einn fyrsti hugsuðurinn sem gerir skýran greinarmun á staðhæfingum um staðreyndir annars vegar og gildi hins vegar. Greinarmunurinn liggur nú til grundvallar félagsvísindunum. Enski heimspekingurinn G.E. Moore varði áþekka kenningu í upphafi 20. aldar með gagnrýni sinni á hluthyggju um gildi.

Nytjastefna

[breyta | breyta frumkóða]

Hume ásamt öðrum hugsuðum skosku upplýsingarinnar setti fyrstur fram hugmyndina um að lögmál siðferðisins byggi á afleiðingum athafna. Það ætti ekki að ýkja þátt Humes. Írski heimspekingurin Francis Hutcheson samdi slagorð nytjastefnunnar „hámarkshamingja handa sem flestum“. En helsti upphafsmaður nytjastefnunnar, Jeremy Bentham, sannfærðist samt sem áður um nytjastefnu eftir að hafa lesið Ritgerð um mannlegan skilning eftir Hume. Eigi að síður er frumútgáfa Humes af nytjastefnunni nokkuð frábrugðin klassískri útgáfu hennar, til dæmis hjá höfundum eins og John Stuart Mill. Hume taldi að siðferðislögmál væri ekki hægt að réttlæta á skynsemisforsendum. Sum siðferðislögmál höfða einfaldlega til okkar og önnur ekki. Og ástæðan fyrir því að siðferðislögmál nytjastefnunnar höfða til okkar er sú að þau gagnast okkur og öðru fólki, í hvers spor við getum sett okkur. Fólk hefur einfaldlega tilhneigingu til að líka við það sem gagnast mannlegu samfélagi. Hume beitti þessu innsæi til þess að útskýra mat okkar á ýmsum fyrirbærum, allt frá stofnunum samfélagsins stefnu stjórnvalda til persónueinkenna og hæfileika.

Hume var undir áhrifum frá grískri efahyggju[18] og sumir fræðimenn telja að hann hafi öðru fremur verið efahyggjumaður og þannig lýsir Hume sjálfum sér.[19] Eigi að síður var Hume alls ekki róttækur efahyggjumaður. Hann gerir greinarmun á efahyggju eftir því á hvaða forsendum hún hvílir og skiptir henni í það sem hann kallaði fyrir fram efahyggju annars vegar og eftirá efahyggju hins vegar.

Fyrir fram efahyggja er efahyggja sem dregur í efa getu sálargáfna fólks með þeim afleiðingum að maður kemst aldrei af stað í leit sinni að þekkingu. Þetta telur Hume vera pyrrhonisma eða róttæka efahyggju. Hann sakar Descartes ranglega um að vera málsvara þess konar skoðana.[20] Eftirá efahyggja sprettur upp úr rannsóknum sem menn gera. Þegar ítrekaðar rannsóknir skila engum eða misvísandi niðurstöðum draga menn ef til vill í efa að þeir komist nokkurn tímann að réttri niðurstöðu. Hér telur Hume að við komumst að minnsta kosti af stað.

Efahyggja getur einnig verið misvíðtæk og djúptæk. Hume kallar róttæka efahyggju pyrrhonisma en hófstillta efahyggju kallar hann akademisma eða akademíska efahyggja.[21] Þessi akademíska heimspeki getur verið, að dómi Humes, afar gagnleg. Hún eflir í raun dygðir eins og hófsemi og umburðarlyndi. Aftur á móti telur Hume að róttæk efahyggja sé ekki eins gagnleg og hófstillta efahyggjan en auk þess telur hann að hversdagslífið „afsanni“ í raun róttæka efahyggju.

Kraftaverkavandinn

[breyta | breyta frumkóða]

Hume taldi að eina leiðin til þess að réttlæta guðstrú, svo að hún væri ekki einasta blind trú, væri með því að höfða til kraftaverka.[22] Í ritgerðinni „Um kraftaverk“ komst hann svo að orði: „...við getum ályktað að kristin trú hafi ekki einungis í öndverðu byggst á kraftaverkum, heldur að enn í dag sé skynsömu fólki ókleift að fallast á hana án kraftaverks. Skynsemin ein dugir ekki til að sannfæra okkur um réttmæti hennar. Og hver sá sem finnur sig knúinn til að fallast á hana hlýtur að vera meðvitaður um kraftaverk í eigin persónu, sem umturnar öllum lögmálum skilningsgáfu hans og gerir hann staðráðinn í að trúa því sem er öndverðast venju og reynslu.“

Hume hélt því fram að kraftaverk gætu aldrei veitt trúnni mikinn stuðning. Hume taldi að vitnisburður fólks um kraftaverk væri alltaf óáreiðanlegri en vitnisburður fólks um lögmál náttúrunnar. Rök Humes byggja öll á skilningi hans á kraftaverki, þ.e. einhverju sem brýtur gegn náttúrulögmálunum. Þannig skilgreinir Hume einnig kraftaverk í Rannsókn á skilningsgáfunni.

Gagnrýnendur hafa bent á að skilgreining Humes byggi ekki á raunverulegu tali um meint kraftaverk en óvíst er hvort meint kraftaverk séu ætíð tilvik sem brjóta gegn lögmálum náttúrunnar. Einnig hefur verið bent á að rök Humes byggi meðal annars á aðleiðslu enda hafi enginn maður rannsakað alla náttúruna né heldur öll meint kraftaverk. En í heimspeki Humes felur aðleiðsla í sér vanda.

Hönnunarrökin

[breyta | breyta frumkóða]

Hönnunarrökin svonefndu eru meðal elstu og vinsælustu rökunum fyrir tilvist guðs — að heimurinn beri þess merki að vera hannaður af vitsmunaveru. Hume gagnrýndi þessi rök í Samræðum um trúarbrögðin og Rannsókn á skilningsgáfunni.[23] Meðal þess sem Hume bendir á er:

  1. Til þess að rökin hafi einhvern trúverðugleika verður það að vera satt að regla fyrirfinnist einungis meðal þess sem hefur verið hannað. En regla er sýnileg hvarvetna að því er virðist í náttúrulegum ferlum sem hafa, til dæmis við kristöllun steinda. Hönnun skýrir einungis hluta af reynslu okkar af reglu.
  2. Hönnunarrökin byggja á gallaðri samlíkingu: Reynsla okkar kennir okkur að þekkja hluti sem fólk hefur hannað, til dæmis þegar við berum saman grjóthrúgu og hlaðinn vegg. En til að halda því fram að heimurinn sé afurð hönnunar þyrftum við að geta bent á aðra heima sem eru ekki afurð hönnunar. Við þekkjum hins vegar einungis einn heim og getum því ekki farið eins að og þegar við greinum á milli hluta sem fólk hefur smíðað eða hannað og annarra fyrirbæra. Hvers vegna ættum við þá að líkja heiminum við vél, frekar en til dæmis dýr?
  3. Jafnvel þótt hönnunarrökin gengju algerlega upp dygðu þau samt ekki út af fyrir sig til að sýna fram á að eingyðistrú sé rétt né önnur tiltekin guðstrú. Maður gæti til dæmis ímyndað sér að heimurinn væri smíði siðferðislega vafasamrar veru eða nokkurra slíkra, sem væru okkur vart skiljanlegar. Við gætum spurt hvort þessar verur væru guðir og enn fremur hver skapaði þær.
  4. Ef reglubundinn heimur gerir ráð fyrir hönnuði og skapara, þá gerir hugur guðs einnig ráð fyrir hönnuði og skapara. Og sá hönnuður og skapari myndi gera það einnig og þannig koll af kolli út í hið óendanlega. Ef til vill gætum við sagt að hugur guðs væri á óútskýranlegan hátt sjálfskipulagður en þá gætum við einnig sagt það sama um heiminn sem slíkan, að hann væri einfaldlega sjálfskipulagður og reglubundinn á óútskýranlegan hátt.
  5. Stundum er betra að útskýra það sem virðist hafa tilgang, til dæmis þar sem það lítur út fyrir að hlutur X hafi eiginleikann E til þess að geta fengið útkomuna Ú, með útsláttarferli: það er að segja, hlutur X myndi ekki vera til ef hann hefði ekki eiginleikann E og útkoman Ú er einungis áhugaverð manneskjum sem geta manngert náttúruna og eignað henni markmið. Þessi kenning er undanfari kenningar Darwins um náttúruval.
  6. Hönnunarrökin útskýra ekki bölsvandann, það er að segja, þá ráðgátu af hverju illsku, böl og þjáningu, náttúruhamfarir og svo framvegis er að finna í heimi sem vitsmunavera hannaði.[24]

Stjórnspeki

[breyta | breyta frumkóða]

David Hume er oft talinn hafa verið íhaldsmaður í stjórnmálum og er stundum sagður hafa verið fyrsti íhaldsspekingurinn.[25] Þetta er strangt tekið ekki rétt ef orðið „íhaldsmaður“ er skilið nútímaskilningi. Í stjórnspeki Humes er að finna bæði íhaldssamar og frjálslyndar hugmyndir og einnig sáttmálahugmyndir og hugmyndir í anda nytjastefnu. Hann studdi þó hvorugan stjórnmálaflokkinn á Bretlandi á sínum tíma.

Hume var einkum umhugað að sýna fram á mikilvægi laga og reglu. Hann leggur víða áherslu á mikilvægi þess að forðast öfgar í stjórnmálum. Hume telur að samfélaginu verði að vera stjórnað af almennum og óhlutdrægum lögum og samningafrelsi. Hann hafði minni áhuga á hvers konar stjórn færi með framkvæmdarvaldið svo lengi sem ekki væri stjórnað í óþökk þegnanna. Vegna þessa taldi hann að lýðveldisfyrirkomulag væri heppilegra en konungsstjórn.

Hume var tortrygginn í garð tilrauna til að umbreyta samfélaginu á róttækan hátt sem virti ekki rótgrónar hefðir og venjur. Hann réði fólki eindregið frá því að rísa upp gegn yfirvaldinu nema ef um harðstjórn væri að ræða. Hume taldi að það yrði að ná jafnvægi milli borgaralegs frelsis og sterks yfirvalds án þess að fórna öðru hvoru. Hann studdi hugmyndina um prentfrelsi, var hallur undir lýðræði og hélt fram nauðsyn þess að þrískipta ríkisvaldinu. Hume var jafnframt bjartsýnn um félagslegar framfarir, hann taldi að sú efnahagslega þróun sem ætti að fylgja aukinni verslun myndi fleyta samfélögum fram frá „barbarisma“ til siðmenningar. Samkvæmt honum eru siðmenntuð samfélög opin og friðsöm og þar af leiðandi hamingjusöm.

Árið 1752 skrifaði David Hume ritgerðina „Political Discourses“ sem var seinna sameinað með „Ritgerðir um siðfræði og stjórnmál“ árið 1758 og sú ritgerð er hans helsta framlag til hagfræðinnar. Hume hafði upphaflega séð ritgerðina fyrir sér sem fimm binda verk, en verkið endaði í tveimur ritgerðasöfnum um ýmis efni: Ritgerðir um siðferði og stjórnmál  sem hann bætti síðar þremur ritgerðum við verkið. [26]

Í umfjöllun sinni um stjórnmál og stjórnmálaheimspeki setti Hume fram ýmsar hugmyndir sem urðu síðar mikilvægar í hagfræði, þar á meðal hugmyndir um einkaeignir, verðbólgu og milliríkjaviðskipti.[27]

Hugmyndir og kenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Í hans framlagi til hagfræðinnar var David Hume lýstur sem frjálslyndum og var Hume gegn Kaupauðgisstefnunni (Merkantílismi). Hann var ákveðinn að auðlegð væri mæld í vörubirgðum þjóðarinnar en ekki mæld á stærð seðlabúnka hennar. Hann var einnig talsmaður fyrir „Quantity Theory of Money“ og hlutleysi peninga. Ólíkt við kaupauðgisstefnuna, Hume tengdi lága vexti ekki við gnægð peninga heldur blómleg viðskipti. Hann var einn af þeim fyrstu til að setja fram kenninguna um lánasjóði með vöxtum, þar sem hann taldi að magn vaxta ræðst af eftirspurn eftir lánum og framboð sparnaðar. Lágu vextirnir einkenna blómleg viðskipti í samfélaginu, þar sem er gripið til sparnaðar og löngun á því að græða.[26] Hins vegar viðurkenndi David Hume að til skamms tíma getur þetta aukið framboð peninga og haft jákvæð áhrif á markaðinn.[28]

David Hume hafði mikið að segja um Alþjóðaviðskipti. Hann hugsaði öfugt við Merkantílisma, utanríkisviðskipti er ekki núllsummuaðferð heldur taldi hann að hægt væri að hafa gagnkvæman ávinning á viðskiptum. Hume hélt því fram að heildarmagn alþjóðaviðskipta tengist fjölbreytileika og auðlegð allra þjóða.[28]

Price-specie flow

[breyta | breyta frumkóða]

David Hume kynnti okkur einnig fyrir sjálfvirku flæðiskerfi milli verðs á mynt tegundum (Price-specie flow mechanism) og "reflux principle". Klassísku rökin hans voru til að neita öllum gömlum kenningum Kaupauðgisstefnunnar. Hume taldi að samkvæmt magnkenningunni, getur innstreymi af tegundum mynta leiða til hækkunar á innlendu mynti. Sem leiðir til breytinga á viðskiptakjörum gagnvart viðtökuþjóðinni. Eftirspurn viðtökuþjóðarinnar eftir útflutningi myndi þar af leiðandi minnka en þeirra eigin eftirspurn eftir erlendum innflutning hækka og þar með snúa utanríkisviðsiptajöfnuðinum þannig að sú mynt sem kom inn í samfélagið fyrst, streymir núna út.[28]

Þetta notaði Hume einnig til að afneita því að verðhækkun megi kenna við hækkandi laun. Sérstaklega ef að launahækkun á verðlagi ætti sér stað í Englandi myndu viðskiptakjör milli Englands og annarra þjóða breytast á þann hátt sem væri skaðlegur útflutningi Englendinga en á sama tíma hagstæð breyting á innflutningi frá öðrum þjóðum. Þetta leiðir síðan til útstreymis á peningum frá Englandi, peningamagn Englands minnkar og þar með lækkar verðlag í Englandi aftur.[26]

Sjálfvirkt flæðiskerfi Hume í alþjóðaviðskiptum veitti trú á hugmyndinni um að það væri ‘‘náttúrulegt jafnvægi“ í viðskiptum milli þjóða en viðskipti á þeim tíma voru ekki komin svo langt og gætu ekki hafa samið á þeim tíma. [26]

Aðrar hugmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

David Hume fór á móti kenningu John Locke á því að eignarrétturinn væri náttúruréttur. Þessu trúði Hume ekki og hann vildi réttlæta einkavæðingu á eignarrétti á þeirri forsendu að auðlindir eru takmörkuð gæði. Hann sagði að ef auðlindir og vörur væru ótakmarkaðar fyrir öllum væri eignaréttur aðgerðarlaus og óþarfa hlutur. Hume taldi einnig að misskipting auðs væri réttlætanleg vegna þess að fullkominn jöfnuður myndi eyða allri hvatningu til dugnaðar og leiða til fátæktar og vansældar.[28]

Helstu ritverk Humes

[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 26. apríl er fæðingardagur Humes skv. júlíska tímatalinu en er 7. maí skv. gregoríska tímatalinu.
  2. Noonan (2007): 15.
  3. Um ævi og störf Humes, sjá Noonan (2007): 1-25; William Edward Morris, „David Hume: 1. Life and Works“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (31.072007); og James Fieser, „David Hume (1711-1776): Life and Writings“ Geymt 15 júní 2007 í Wayback Machine, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2004) (Skoðað 30.07.2007).
  4. David Hume, My Own Life. Ævisögur Humes, My own Life og A Kind of History of My Life, eru m.a. prentaðar í viðauka hjá Norton (1993): 345-356.
  5. David Hume, A Kind of History of My Life
  6. David Hume, My Own Life.
  7. Sjá Egil Arnarson, „Hver er skoðun Humes á Guði?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 8.2.2006. (Skoðað 30.7.2007); og Paul Russell, „Hume on Religion. 10. Was Hume an Atheist?“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (30.07.2007).
  8. Sjá Noonan (2007): 33-35; William Edward Morris, „David Hume: 5. Empiricism“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 01.08.2007); og James Fieser, „David Hume (1711-1776): Metaphysics and Epistemology“ Geymt 9 maí 2008 í Wayback Machine, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2004) (31.07.2007).
  9. „Styrkleiki og fjör“ er hér þýðing á ensku orðunum „force“ og „vivacity“. Sjá Rannsókn á skilningsgáfunni, 2. kafla. Greinarmunurinn á styrkleika hugmyndar og fjöri hennar er ekki útskýrður í Rannsókninni en í Ritgerð um mannlegt eðli virðist Hume kannast við að greinarmunurinn sé ekki alveg skýr.
  10. Um Hume og aðleiðslu sjá Noonan (2007): 62-75.
  11. Um kenningu Humes um eðli og upptök skoðana, sjá Noonan (2007): 75-81.
  12. Um Hume og orsakavensl sjá Noonan (2007): 55-91.
  13. Í bakgrunninum var meðal annars kenning Johns Locke um samsemd sjálfsins í krafti minninga um fyrri reynslu. Samkvæmt kenningu Lockes er maður sama manneskjan og fimm árum áður meðal annars af því að maður man eftir upplifunum sínum fyrir fimm árum síðan. Vandinn við kenningu Lockes er sá að maður man ef til vill eftir upplifunum sínum fyrir fimm árum síðan og er þar af leiðandi sama manneskjan og fimm árum áður; en fimm árum áður mundi sami maður ef til vill eftir upplifunum sínum fimm árum fyrir þann tíma og var þar af leiðandi sama manneskjan og fimm árum fyrir þann tíma; en núna getur verið að sami maður sé búinn að gleyma upplifunum sínum fyrir tíu árum síðan. Þar af leiðandi getur hann, samkvæmt kenningu Lockes, verið sama manneskjan og fimm árum áður og sú manneskja var sama manneskja og fimm árum fyrir þann tíma en samt er maðurinn ekki sama manneskjan nú og tíu árum áður.
  14. Sjá John Brio, „Hume's nem science of the mind“ í Norton (1993): 47-56.
  15. David Hume, Ritgerð um mannlegt eðli, I, IV, vi.
  16. Sjá Terence Penelhum, „Hume's Moral Psychology“ hjá Norton (1993): 129-132.
  17. Um forskriftarvandann hjá Hume, sjá Rachael Cohon, „Hume's Moral Philosophy: 5. Is and ought“ (2004) (30.07.2007).
  18. Noonan (2007): 15-16.
  19. Um efahyggju í heimspeki Humes sjá Robert J. Fogelin, „Hume's scepticism“, hjá Norton (1993): 90-116.
  20. Um þekkingarfræði Descartes, sjá Lex Newman, „Descartes' Epistemology“ á Stanford Encyclopedia of Philosophy 2010 (Skoðað 27. júlí 2011). Um tengsl Descartes við efahyggju, sjá Lennon (2008); Broughton (2002); Curley (1978).
  21. Þessi greinarmunur stenst ekki sögulega því pyrrhonsk efahyggja var ekki nauðsynlega róttækari en akademísk efahyggja.
  22. Um viðhorf Humes til kraftaverka, sjá Noonan (2007): 181-192; og Paul Russell „Hume on Religion: 6. Miracles“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (30.07.2007).
  23. Um gagnrýni Humes á hönnunarrökin, sjá Paul Russell, „Hume on Religion. 4. The Argument from Design“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (30.07.2007).
  24. Um gagnrýni Humes á hönnunarrökin, sjá Paul Russell, „Hume on Religion. 5. The Problem of Evil“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (30.07.2007).
  25. Um stjórnspeki Humes sjá Knud Haakonssen, „The structure of Humes political theory“, hjá Norton (1993): 182-221; og Andrew S. Skinner, „David Hume: Principles of political economy“, hjá Norton (1993): 222-254. Sjá einnig William Edward Morris, „David Hume: 14. Politics, Criticism, History, and Religion“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007) (Skoðað 31.07.2007); og James Fieser, „David Hume (1711-1776): Essays, Moral, Political and Literary“ Geymt 11 desember 2007 í Wayback Machine, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 31.07.2007).
  26. 26,0 26,1 26,2 26,3 „HET: David Hume“. www.hetwebsite.net. Sótt 18. september 2022.
  27. Um hagfræði Humes sjá Andrew S. Skinner, „David Hume: Principles of political economy“, hjá Norton (1993): 222-254.
  28. 28,0 28,1 28,2 28,3 Richards, H. (2004). Understanding the Global Economy. Peace Education Books,. bls. 322-323.

Heimildir og frekara lesefni

[breyta | breyta frumkóða]
Fyrirmynd greinarinnar var „David Hume“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. mars 2006.
  • Anderson, R. F., Hume’s First Principles (Lincoln: University of Nebraska Press, 1966).
  • Ayer, A. J., Hume (Oxford: Oxford University Press, 1980).
  • Broughton, Janet, Descartes's Method of Doubt (Princeton: Princeton University Press, 2002).
  • Curley, E. M., Descartes Against the Sceptics (Cambridge, MA: Harvard University Press, 1978).
  • Flew, A., David Hume: Philosopher of Moral Science (Oxford: Basil Blackwell, 1986).
  • Gaskin, J.C.A., Hume's Philosophy of Religion (Humanities Press International, 1978).
  • Johnson, David, Hume, Holism and Miracles (Ithaca: Cornell University Press, 1999).
  • Lennon, Thomas M., The Plain Truth: Descartes, Huet, and Skepticism (Leiden: Brill, 2008).
  • Mossner, Ernest Campbell, The Life of David Hume (Oxford: Oxford University Press, 1980).
  • Noonan, Harold, Hume (Oxford: Oneworld, 2007).
  • Norton, David Fate, David Hume: Commonsense Moralist, Skeptical Metaphysician (Princeton: Princeton University Press, 1978).
  • Norton, David Fate (ritstj.), The Cambridge Companion to Hume (Cambridge: Cambridge University Press, 1993).
  • Páll S. Árdal, Siðferði og mannlegt eðli (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1982, 2. útg. 1997).
  • Russell, Paul, Freedom and Moral Sentiment: Hume's Way of Naturalizing Responsibility (New York & Oxford: Oxford University Press, 1995).
  • Siebert, Donald T., The Moral Animus of David Hume (Newark: University of Delaware Press, 1990).
  • Stroud, B., Hume (London: Routledge, 1977).


pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy