Fara í innihald

Eignarréttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
David Hume rakti eignarrétt aðallega til skorts á gæðum

Eignarréttur er réttur einstaklings, fyrirtækis eða annars lögaðila til að nota hlut, selja og ráðstafa á annan hátt og líka að meina öðrum að nota hann. Hér verður aðallega rætt um einkaeignarrétt en margvíslegur sameignarréttur er líka til.

Nauðsyn eignarréttar

[breyta | breyta frumkóða]

Skoski heimspekingurinn David Hume gerði grein fyrir því, að einkaeignarréttur yrði til af tveimur meginástæðum, vegna nísku náttúrunnar og skorts á náungakærleika. Þar sem nóg er til af öllu, þarf engan eignarrétt. Hann myndast til að afstýra árekstrum um takmörkuð gæði. Til dæmis þarf ekki einkaeignarrétt á andrúmslofti, þar sem notkun eins manns á því minnkar ekki tækifæri annarra til að nota það. Hins vegar þarf eignarrétt á bithögum, því að ella er hætta á ofbeit. Þar sem allir eru sáttir um notkun hluta eða fastar reglur gilda um hana, þarf engan eignarrétt heldur. Venjulega gera foreldrar og börn ekki skriflega samninga um framfærsluskyldu hvors aðila gagnvart hinum.

Myndun eignarréttar

[breyta | breyta frumkóða]

Enski heimspekingurinn John Locke setti fram þá kenningu, að einkaeignarréttur gæti myndast á gæðum jarðar, án þess að skertur væri sameiginlegur réttur allra til þessara gæða (sem hann viðurkenndi líka). Ástæðan var sú, að afraksturinn var svo miklu meiri í skipulagi, þar sem var einkaeignarréttur á gæðum, að aðrir en eigendurnir nytu jafnan góðs af. Menn gætu með öðrum orðum slegið eign sinni á tiltekin gæði, án þess að aðrir sköðuðust af. Bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick hefur gert frekari grein fyrir þessum kosti.

Gagnrýni eignarréttar

[breyta | breyta frumkóða]

Þýski heimspekingurinn Karl Marx hélt því fram, að einkaeignarréttur á framleiðslutækjum leiddi til óþolandi ójafnaðar. Borgarastéttin hefði sölsað undir sig gæði, sem ættu að vera í sameign allra. Hann vildi, að öreigastéttin gerði byltingu og stofnaði sameignarskipulag. Bandaríski rithöfundurinn Henry George gagnrýndi hins vegar einkaeignarrétt á þeim gæðum, sem eru í eðli sínu takmörkuð (til dæmis land), svo að þau hækka í verði við aukna eftirspurn, án þess að eigendurnir hefðu gert neitt til að bæta þær. George vildi leggja á sérstakan jarðskatt til að gera upptækan slíkan gróða, sem hann taldi óverðskuldaðan. Marxismi og georgismi nutu mikils fylgis í upphafi 20. aldar, og tókst marxistum að leggja undir sig fjölda landa á öldinni. Í upphafi 21. aldar nýtur einkaeignarréttur þó víðtækari viðurkenningar en oft áður. Hafa ýmsar ríkisstjórnir, ekki síst í fyrrverandi sameignarríkjum, beitt sér fyrir einkavæðingu, myndun einkaeignarréttar á framleiðslufyrirtækjum.

Takmörk eignarréttar

[breyta | breyta frumkóða]

John Locke, Robert Nozick og aðrir frjálshyggjumenn halda því fram, að eignarrétturinn sé nauðsynlegur frelsinu. Eignalausir menn séu ósjálfstæðir gagnvart ríkisvaldinu. Í stjórnarskrám vestrænna lýðræðis- og réttarríkja nýtur einkaeignarrétturinn víðast friðhelgi. Ekki má skerða eignir manna, nema almannahagsmunir krefji og komi fullar bætur fyrir. En Locke setti myndun eignarréttar þann fyrirvara, að hagur annarra skertist ekki. Hugsanlegur er árekstur eignarréttar og frelsis, til dæmis ef 19 af 20 vatnsbólum í eyðimerkurvin þorna upp, svo að einn maður, eigandi eina vatnsbólsins, hefur kverkatak á öllum öðrum og misnotar það. Nozick heldur því fram, að þá taki fyrirvari Lockes gildi, svo að einkaeignarréttur þessa eiganda víki fyrir frelsinu. Einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar á 20. öld, Friedrich A. von Hayek, er sammála honum. En báðir telja þeir Hayek og Nozick, að við allar venjulegar kringumstæður nái einkaeignarréttur vel þeim tilgangi sínum að vernda frelsið.

Ófullkominn eignarréttur

[breyta | breyta frumkóða]

Eignarréttur getur verið ófullkominn í einhverjum skilningi. Rithöfundurinn Hernando de Soto frá Perú heldur því til dæmis fram, að það standi fátækum þjóðum í suðri mjög fyrir þrifum, að fólk hafi þar margvíslegan nýtingarrétt, sem það geti ekki breytt í skrásettan og verndaðan einkaeignarrétt. Þess vegna liggi fjármagn þar dautt, en sé ekki undirorpið lífrænni þróun, eins og í vestrænum iðnríkjum. Annað dæmi um ófullkominn eignarrétt er fiskveiðiréttur á Íslandsmiðum. Hann er fólginn í aflahlutdeild (til dæmis 5% af leyfilegum þorskafla ársins 2005), sem eigendum skipa er úthlutað, en síðan eru reiknaðar út aflaheimildir miðað við leyfilegan heildarafla hvers árs (til dæmis 10.000 lestir árið 2005). Margvíslegar takmarkanir eru á framsali aflaheimildanna, auk þess sem þær njóta ekki að lögum fullrar viðurkenningar sem eignaréttindi. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, hefur óspart gagnrýnt, hversu ófullkominn eignarrétturinn er á fiskistofnum.

Eignarréttarhagfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríski hagfræðingurinn Harold Demsetz er einn helsti frumkvöðull nýrrar greinar, eignarréttarhagfræðinnar. Demsetz telur eins og Hume, að einkaeignarréttur myndist vegna skorts á gæðum. Sá skortur getur orðið til (og líka horfið) vegna tæknibreytinga. Til dæmis fundust nýjar aðferðir til að senda út og taka á móti efni með hljóðbylgjum í fyrri heimsstyrjöld. Eftir það spruttu upp útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum. Þegar þær útvörpuðu á stöðum nálægt hver annarri og á rásum nálægt hver annarri, trufluðu þær hver aðra. Dómstólar í Bandaríkjunum hófu að úthluta staðbundnum útvarpsrásum. Þannig var að myndast einkaeignarréttur á útvarpsrásum. En sú þróun var stöðvuð með löggjöf.

Eignarréttur, mengun og sóun náttúruauðlinda

[breyta | breyta frumkóða]

Eignarréttarhagfræðingar segja, að mengun og sóun náttúruauðlinda stafi oftast af því, að einkaeignarréttur hefur ekki verið skilgreindur á þeim gæðum, sem menguð eru eða er sóað. Ef verksmiðja leiðir til dæmis úrgang út í stöðuvatn, sem aðrir veiða í, og spillir með því veiðinni, þá er það, vegna þess að eignarréttur veiðimannanna á stöðuvatninu hefur ekki verið viðurkenndur. Ástæðan til þess, að menn hella ekki úr öskutunnum sínum í garð náungans, er, að garður náungans er í einkaeign, svo að hans er gætt.

Eignarréttur og dýrategundir í útrýmingarhættu

[breyta | breyta frumkóða]

Sumar dýrategundir eru taldar í útrýmingarhættu, til dæmis hvalir, fílar í Afríku og nashyrningar. (Sumir líffræðingar segja að vísu, að margir hvalastofnar og flestar tegundir Afríkufíla séu ekki í neinni slíkri hættu.) Eignarréttarhagfræðingar segja, að besta ráðið til að tryggja, að þessum dýrategundum verði ekki útrýmt, sé að skilgreina eignaréttindi á þeim. Enginn tali um, að kindur séu í útrýmingarhættu. Það er, af því að þær eru í eigu einhvers, sem merkir sér þær og gætir þeirra. Erfitt getur að vísu verið að merkja sér hvali (þótt það sé ekki tæknilega ókleift), en ekki er erfiðara að skilgreina einkanýtingarréttindi á þeim en á þorski, ýsu eða öðrum nytjastofnum á Íslandsmiðum.

Sameignarréttur

[breyta | breyta frumkóða]
Davíð Oddsson og Ragnar Árnason prófessor á ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna í Reykjavík um eignarrétt í ágúst 2005. Davíð hafði forystu um einkavæðingu á Íslandi, og Ragnar er kunnur eignarréttarhagfræðingur á alþjóðavettvangi.

Stundum merkir sameignarréttur ekkert annað en eignarréttur ríkisins á einhverjum hlutum eða gæðum. En stundum eiga margir menn saman hlut. Til dæmis má segja, að bændur á Suðurlandi eigi saman ýmis framleiðslusamvinnufélög. Sá hængur er á að dómi eignarréttarhagfræðinga, að eignarrétturinn er mjög ófullkominn. Hann er til dæmis ekki seljanlegur. Munurinn á hlutafélagi og samvinnufélagi er, að í hlutafélaginu getur eigandi selt hlut sinn. Hann hefur því meiri áhuga á langtímavirði hlutarins en aðilinn að samvinnufélaginu. Eftir því sem fleiri eiga einhver nýtanleg gæði saman, eru líka minni tengsl milli framlags hvers einstaks eiganda og afraksturs hans, sem myndar hættu á því, að einhverjir svíkist um.

Eignarréttarráðstefna á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Mont Pèlerin-samtökin, alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, héldu ráðstefnu á Íslandi í ágúst 2005 um „eignarrétt og frelsi á nýrri öld“. Þar hélt Harold Demsetz erindi um eignarréttarhagfræðina. Ragnar Árnason prófessor leiddi rök að því, að eignarréttur yrði því hagkvæmari sem hann væri fullkomnari (til dæmis rétturinn betur skilgreindur og viðskipti greiðari með eignirnar). Þráinn Eggertsson prófessor tók nokkur dæmi í anda eignarréttarhagfræðinnar frá Íslandi, meðal annars um, hvernig ítala hefði myndast á þjóðveldisöld (vegna hættu á ofbeit á upprekstrarlandi komu bændur sér saman um, að hver jörð mætti aðeins reka tiltekinn fjölda sauða á fjall). Rögnvaldur Hannesson prófessor lýsti því, hvernig mynda mætti eignarrétt á gæðum hafsins. Tom Hazlett prófessor sagði frá þróun eignaréttinda á útvarps- og sjónvarpsrásum. Prófessorarnir Gary Libecap og Terry Anderson tóku ýmis dæmi um það, sem þeir kalla „free market environmentalism“ (umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis).

Spakmæli um eignarrétt

[breyta | breyta frumkóða]
  • Garður er granna sættir.
  • Sjaldan grær gras í almenningsgötu.
  • Sameign gerir sundurþykki.
  • Sinna verka njóti hver.
  • Gott er að telja peninga úr pyngju annars.
  • Það, sem allir eiga, hirðir enginn um (Aristóteles).
  • Everybody’s business is nobody’s business (Macaulay lávarður).
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy