Fara í innihald

Flokkunarkerfi Blooms

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flokkunarkerfi Blooms.

Flokkunarkerfi Blooms er flokkunarkerfi fyrir námsmarkmið sem er kennt við bandaríska uppeldisfræðinginn Benjamin S. Bloom. Bloom setti fyrst fram flokkunarkerfið í bókinni Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook I: Cognitive Domain árið 1956. Með kerfinu reynir hann að sýna fram á hvernig markmið í kennslu þurfi að ná til allra þeirra sviða sem kennarar vilja leggja áherslu á, svo sem rökhugsunar, sköpunarhæfileika, þekkingar, skilnings og viðhorfa. Megintilgangurinn með flokkuninni er að efla skilning á gerð og eðli markmiða og auðvelda kennurum að setja markmið í kennslu.

Hugmynd Blooms gekk út frá því að mannlegir hæfileikar skiptust í þrjú meginsvið: þekkingarsvið (e. cognitive domain), viðhorfa- og tilfinningasvið (e. affective domain) og leiknisvið (e. psychomotor domain). Á hverju sviði eru þrepamarkmið, raðað frá einfaldari til flóknari markmiða. Síðustu markmiðin í hverju þrepi gera mestar kröfur til gildismats hugsunar, færni eða annars andlegs og líkamlegs þroska.

Þekkingarsvið

[breyta | breyta frumkóða]

Markmið á þekkingarsviði miða að því að þjálfa andlega hæfileika nemenda, hugsun þeirra og rökleikni. Samkvæmt hugmyndum Blooms um þekkingarsvið skiptist það í sex þrep:

  1. Minni: Markmiðið er að muna orð, tákn, staðreyndir, skilgreiningar, hugtök, reglur, hugmyndir, aðferðir, kenningar, atburðarás og önnur minnisatriði.
  2. Skilningur: Markmiðið er að nemendur leggi merkingu í þá þekkingu sem þeir hafa tileinkað sér, að þeir skilji það sem þeir sjá, lesa eða heyra.
  3. Beiting: Lögð áhersla á að nemendur geti beitt hugtökum, þekkingu, dæmum, reglum, aðferðum eða kenningu við bæði þekktar og óþekktar aðstæður.
  4. Greining: Á þessu þrepi eiga nemendur að beita bæði jákvæðri og neikvæðri gagnrýninni hugsun á fyrirbæri, heimildir, hugmyndir og gögn. Í því felst að nemendur geti brotið atriðin til mergjar og gert sér grein fyrir því hvernig þau tengjast sín á milli. Þá þarf að færa rök fyrir máli sínu, draga ályktanir, styðja mál sitt með heimildum og setja fram tilgátur.
  5. Nýmyndun / nýsköpun: Með nýsköpun nýta nemendur þá þekkingu sem þeir hafa við að setja fram hugmyndir, tillögur og lausnir. Hér á nemandi að geta bent á nýjar leiðir, tengt saman misjafnar hugmyndir og byggja á þeim nýjar. Með nýsköpun eiga nemendur einnig að hanna, þróa og semja.
  6. Mat: Þegar kemur að mati eiga nemendur að leggja rökstutt mat á upplýsingar, viðhorf, skoðanir eða gildismat. Hér á nemandi að geta útskýrt mismunandi viðhorf og borið þau saman, metið þau og tekið afstöðu.

Viðhorfa- og tilfinningasvið

[breyta | breyta frumkóða]

Markmið á viðhorfa- og tilfinningasviði er að þroska nemendur tilfinningalega og stuðla að áhuga og jákvæðum viðhorfum. Markmiðunum er skipt í fimm þrep:

  1. Athygli/eftirtekt: Nemendur fygjast með og taka eftir. Lykilorð í þessum flokki eru orð eins og hlusta, skoða, lýsa, greina, veita athygli.
  2. Svörun/þátttaka: Nemendur beita virkri hlustun, bregðast við og sýna áhuga.
  3. Alúð/rækt: Nemendur sýna stöðugan áhuga, leggja sig fram í verkum sínum, deila með öðrum og sýna frumkvæði.
  4. Heildarsýn/ábyrgð: Nemendur tilbúnir að taka ábyrgð og sýna ábyrga afstöðu.
  5. Heildstætt gildismat: Nemendur eru samkvæmir sjálfum sér í skoðunum sínum og verkum. Auk þess hafa þeir myndað með sér tiltekin grundvallarviðhorf. Þeir sýna frumkvæði og láta sig varða.

Bloom taldi að í skólastarfi væri of lítil áhersla á markmið viðhorfa- og tilfinningasviðs. Skýring á því gæti verið sú að þau markmið er erfitt að meta. Þau verða í það minnsta ekki metin á sama hátt og markmið á þekkingarsviðinu.

Leiknisvið

[breyta | breyta frumkóða]

Leiknisviðið lýtur að hvers konar færni til dæmis færni sem tengist skrift, vélritun, munnlegri tjáningu, leikrænni tjáningu, líkamsrækt, dansi, notkun áhalda og tækja og fleira. Simpsons skiptir sviðinu í sjö þrep:

  1. Skynjun: Nemendur veita athygli þeim boðum sem gefa til kynna hvaða viðbrögð eru æskileg.
  2. Viðleitni: Nemendur gera sig klára og sýna áhuga á að framkvæma það sem sett er fyrir.
  3. Svörun/eftirlíking: Nemendur geta hermt eftir hegðun eða leikni sem sýnd var.
  4. Vélræn leikni: Nemendur hafa náð tökum á viðfangsefninu en ekkert meira en það.
  5. Flókin færni: Nemendur hafa náð góðri færni í viðfangsefninu og sýna örugg tök á notkun þess.
  6. Aðlögun: Eftir að hafa náð góðri færni í aðferðum og vinnubrögðum þróa nemendur þau og laga að nýjum viðfangsefnum.
  7. Skapandi tjáning: Nemendur hafa þróað sín eigin vinnubrögð og aðferðir. Þetta er hið skapandi stig.

Hugmyndir Blooms og samstarfsmanna hans hafa haft mikil áhrif á námskrár- og námsefnisgerð, sérstaklega greiningu þeirra á þekkingarsviðinu, en hin sviðin hafa haft minni áhrif. Líklegt er að það sé vegna þeirrar áherslu sem er lögð á bóknám í skólastarfi og hversu mikið kynning á öðrum sviðum hefur reynst torskilin á meðan kennara og kennslufræðinga.

  • Bloom, Benjamin, Max D. Engelhart, Edward J. Furst, Walker H. Hill og David, R. Krathwohl, Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook 1. Cognitive Domain. (New York: David McKay Company, Inc, 1956).
  • Eisner, Elliot W. og Benjamin Bloom. Í Victor Ordonez og Ruper Maclean (ritstjórar), Prospects: the quarterly review of comparative education vol. XXX (Paris: UNESCO: International Bureau of Education, 2000).
  • Ingvar Sigurgeirsson, Að mörgu er að hyggja (Reykjavík: Æskan, 1999).
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy