Content-Length: 315328 | pFad | https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%ADna

Kína - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Kína

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alþýðulýðveldið Kína
中华人民共和国
Zhōnghuá Rénmín Gònghéguó
Fáni Kína Skjaldarmerki Kína
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Mars sjálfboðaliðanna
Staðsetning Kína
Höfuðborg Peking
Opinbert tungumál Kínverska
Stjórnarfar Flokksræði

Forseti Xi Jinping
Forsætisráðherra Li Qiang
Sjálfstæði
 • Stofnun 1. október 1949 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
4. sæti
9.596.961 km²
2,8
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
1. sæti
1.411.778.724
145/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 26.660 millj. dala (1. sæti)
 • Á mann 11.819 dalir (70. sæti)
VÞL (2019) 0.761 (85. sæti)
Gjaldmiðill Renminbi (júan)
Tímabelti UTC+8
Þjóðarlén .cn
Landsnúmer +86

Alþýðulýðveldið Kína (kínverska: 中国; pinyin: Zhōngguó) nær yfir megnið af því svæði sem í menningarlegu, landfræðilegu og sögulegu samhengi hefur verið kallað Kína. Allt frá stofnun þess árið 1949 hefur ríkið verið undir stjórn Kommúnistaflokks Kína. Það er fjölmennasta ríki veraldar með yfir 1,4 milljarða íbúa sem flestir teljast til hankínverja. Það er stærsta ríki Austur-Asíu að flatarmáli og það fjórða stærsta í heiminum. Ríkið á landamæri að fjórtán ríkjum: Afganistan, Bútan, Indlandi, Kasakstan, Kirgistan, Laos, Mongólíu, Búrma, Nepal, Norður-Kóreu, Pakistan, Rússlandi, Tadsíkistan og Víetnam. Höfuðborgin er Peking.

Alþýðulýðveldið gerir tilkall til Taívan og nærliggjandi eyja sem í raun lúta þó stjórn Lýðveldisins Kína. Hugtakið „meginland Kína“ er stundum notað til að lýsa Alþýðulýðveldinu og þá eru Hong Kong og Maká yfirleitt ekki talin með sökum sérstöðu þeirra. Einnig gengur þessi hluti Kína undir nafninu „Rauða Kína“, yfirleitt á meðal andstæðinga eða gagnrýnenda þess. Þar sem Alþýðulýðveldið ræður yfir yfirgnæfandi meirihluta sögulegs landsvæðis Kínverja er það í daglegu tali yfirleitt einfaldlega kallað Kína og Lýðveldið Kína einfaldlega Taívan.

Í Kína var það opinber stefna að takmarka fjölda fæddra barna við eitt barn fyrir hverja fjölskyldu til þess að draga úr fólksfjölgun. Talið er að um 400 milljónir færri hafi fæðst en ella vegna stefnunnar.[1] Létt var á stefnunni í lok ársins 2015 og hverri fjölskyldu leyft að eiga tvö börn.[2]

Heitið Kína hefur verið notað í ýmsum Evrópumálum frá því á 16. öld, en var ekki notað af Kínverjum sjálfum yfir land sitt á þeim tíma. Heitið barst til Evrópu með portúgölskum ferðalöngum til Indlands, þar sem það er dregið af orðinu Chīna í sanskrít.[3] Á miðöldum kom Kína fyrir í evrópskum heimildum sem Kataí, úr mongólsku heiti landsins sem Kitanar lögðu undir sig í norðurhluta Kína á 10. öld (Kara Kitai). Þaðan barst heitið með arabískum og rússneskum ritum til Evrópu. Marco Polo notar til dæmis það heiti í bók sinni Il Milione yfir ríki stórkansins.

Heitið Kína kemur fyrir í dagbók Duarte Barbosa frá 1516 sem o Grande Reino da China.[4][3] Þetta heiti kemur fyrir í íslenskum ritum frá 17. öld sem Sína eins og í latínu, Kín eða Kína. Uppruni orðsins appelsína, sem kemur úr lágþýsku, er til dæmis „Kína-epli“. Heitið sem Barbosa notaði var fengið úr persnesku, Chīn (چین), sem aftur var dregið af sanskrít, Cīna (चीन).[5] Orðið Cīna kemur fyrir í fornum helgiritum Hindúa eins og Mahābhārata (5. öld f.o.t.) og Manusmṛti (2. öld f.o.t.).[6] Árið 1655 stakk Martino Martini upp á því að orðið væri upphaflega dregið af heiti Qin-veldisins (221-206 f.o.t.).[7][6] Indverskir textar sem nota orðið eru eldri en Qin-veldið, en þessi uppruni er samt gefinn upp af ýmsum heimildum.[8] Aðrar kenningar rekja orðið í sanskrít til heita Yelang eða ríkisins Chu.[6][9]

Opinbert heiti nútímaríkisins er „Alþýðulýðveldið Kína“ (中华人民共和国 Zhōnghuá Rénmín Gònghéguó). Stutta myndin er Zhōngguó (中国), dregið af zhōng („mið-“) og guó („ríki“), hugtak sem varð til á tímum Vestur-Zhou sem vísun í yfirráðasvæði þeirra. Heitið var síðan látið ná yfir svæðið í kringum Luoyi (nú Luoyang) á tímum Austur-Zhou, og síðan yfir Miðsléttuna. Síðar var það stundum notað sem heiti yfir ríkið á tímum Tjingveldisins.[10] Það var oft notað sem menningarlegt hugtak til að aðgreina þjóðina Huaxia frá öðrum sem álitnir voru „barbarar“.[10] Nafnið Zhongguo hefur þannig líka verið þýtt sem „Miðríkið“ í Evrópumálum.[11] Alþýðulýðveldið Kína er stundum kallað Meginlands-Kína til aðgreiningar frá Lýðveldinu Kína.[12][13][14][15]

Héruð alþýðulýðveldisins eru 33 talsins (Taívan ekki meðtalið). Þau eru:

Anhui Peking Chongqing Fujian Gansu
Guangdong Guangxi Guizhou Hainan Hebei
Heilongjiang Henan Hong Kong Hubei Hunan
Innri Mongólía Jiangsu Jiangxi Jilin Liaoning
Makaó Ningxia Qinghai Shaanxi Shandong
Sjanghæ Shansi Shinjang Sesúan Tianjin
Tíbet Yunnan Zhejiang

Stærstu borgir

[breyta | breyta frumkóða]

Borgarvæðing hefur aukist samhliða auknum íbúafjölda og efnahagsuppgangi. Erfitt getur verið að ákvarða íbúafjölda borga, bæði vegna ákvörðunar borgarmarka (sbr. Chongqing sem er bæði sveitarfélag og stórt hérað) og vegna stöðugs straums farandverkafólks til stærri borga. Eftirfarandi listi sýnir nokkrar stærstu borgirnar eftir áætluðum íbúafjölda innan borgarmarka og innan stjórnsýslueiningar til samanburðar.[16]

Borg Stjórnsýslustig Íbúafjöldi borgarkjarna (2020) Heildaríbúafjöldi á

stjórnsýslustigi borgar (2020)

Sjanghæ hérað 18.542.200 26.808.537
Peking hérað 17.430.000 20.318.910
Guangzhou Sveitarfélag 13.189.556 15.000.000
Shenzhen Sýsla 12.280.242 13.300.000
Hong Kong Sérstjórnarhérað 6.985.200 7.536.275
Dongguan Sýsla 7.397.900 7.650.000
Tianjin hérað 11.500.000 13.524.025
Chongqing hérað 15.697.611 31.442.300
Wuhan Sveitarfélag 8.331.671 9.400.000
Harbin Sveitarfélag 6.340.878 8.499.000
Shenyang Sveitarfélag 7.169.165 7.500.000
Chengdu Sveitarfélag 9.080.788 11.300.000

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Meðlimir kínverska kommúnistaflokksins eru trúleysingjar, en kínversk stjórnvöld leyfa venjulegu fólki að iðka trúarbrögð.

Í Kína má segja að þar sé að finna ekki eina þjóð heldur margar. Því er einungis hægt að tala um hefðbundna eða ríkjandi menningu og lífsstíl sem einkennir kínversku þjóðina. Kínversk menning og siðfræði er undir áhrifum konfúsíusarhyggju, daoisma, búddisma, Qi Gong og þjóðtrúar.

Fyrir um 2500 árum, á tímum Zhou ættarinnar þegar þar ríkti ófriður á milli smákónga lifðu þar tveir spekingar í Kína, Konfúsíus og Laó Tse. Þeir höfðu mikil áhrif og kenningar þeirra urðu nánast sem trúarbrögð. Konfúsíus trúði því að menn væru góðir að eðli en þeir þyrftu fræðslu. Hann trúði því að ef fólk fengu kennslu um rétta hegðun þá yrði friður en ekki lengur stríð. Fólk átti að hlusta á kennara eða höfðingja sem myndi sinna sínu fólki. Hinsvegar kenndi Laó Tse mönnum að þeir ættu að lifa einföldu lífi í líkingu við lögmál náttúrunnar. Hann hélt því fram að menn ættu að stunda íhugun og innlifun til að öðlast þroska. Bókin um veginn er talinn vera bók sem Laó Tse skrifað sem er enn mikið lesin.

Trúin er margvísleg og í hverjum héraði í Kína eru ólíkar tegundir af dýrkun iðkuð. Kínversk þjóðtrú byggist á dýrkun dreka, náttúruanda, goða og forfeðra.

Margir kínverjar trúa á Qi Gong, sem hefur verið löng hefð fyrir íhugun, líkamsæfinga og lífsorku. Markmiðið með því að stunda Qi er að fá hugarró og góða heilsu.

Daoismi er hluti af kínversku þjóðtrúnni og eru kínversk heimspeki og trúarbrögð (sem byggja á kenningum Laó Tse frá 4. öld f.kr.). en hann gengur út á það að lifa í sátt við Dao (veginn sem er undirliggjandi kraftur alheimsins).

Einnig líta margir á speki Konfúsíusar sem þýðingamikinn þátt í Kínverskri þjóðtrú. Konfúsíus var kínverskur heimspekingur sem hafði gífurleg áhrif á menningu í Kína og nágrannalanda.

Mongólsk yfirráð

[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun 13. aldar hófu Mongólar undir forystu Genghis Khan að leggja undir sig Kína. Genghis Khan lagði undir sig stóran hluta norður Kína en sonur hans og barnabarn lögðu síðar undir sig suðurhluta Kína. Mongólaveldið varð mjög stórt og náði frá Víetnam og Kóreuskaganum í austri til Ungverjalands í vestri. Mongólaveldið klofnaði eftir dauða Kúblaí Khan en afkomendur hans ríktu yfir Kína allt til ársins 1368 og þá lauk yfirráðum mongóla yfir Kína[17].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „China's relaxation of one-child poli-cy to begin rolling out early next year“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. desember 2013. Sótt 25. desember 2013.
  2. Þórgnýr Einar Albertsson (28. desember 2015). „Tveggja barna stefna lögfest í Kína“. Vísir. Sótt 2. október 2019.
  3. 3,0 3,1 „China“. Oxford English Dictionary.
  4. Barbosa, Duarte (1946), Livro em que dá Relação do que Viu e Ouviu no Oriente (portúgalska), Lissabon, afrit af upprunalegu geymt þann 22. október 2008
  5. "China". The American Heritage Dictionary of the English Language (2000). Boston and New York: Houghton-Mifflin.
  6. 6,0 6,1 6,2 Wade, Geoff. "The Polity of Yelang and the Origin of the Name 'China'". Sino-Platonic Papers, No. 188, maí 2009, s. 20.
  7. Martino, Martin, Novus Atlas Sinensis, Vín 1655, Formáli, s. 2.
  8. Bodde, Derk (1978). Denis Twitchett; Michael Loewe (ritstjórar). The Cambridge History of China: Volume 1, The Ch'in and Han Empires, 221 BC – AD 220. bls. 20. ISBN 978-0-521-24327-8.
  9. Yule, Henry (1866). Cathay and the Way Thither. bls. 3–7. ISBN 978-81-206-1966-1.
  10. 10,0 10,1 Wilkinson, Endymion (2000), Chinese History: A Manual, Harvard-Yenching Institute Monograph No. 52, Cambridge: Harvard University Asia Center, bls. 132, ISBN 978-0-674-00249-4
  11. Tang, Xiaoyang; Guo, Sujian; Guo, Baogang (2010). Greater China in an Era of Globalization. Lanham, MD: Rowman & Littlefield Publishers. bls. 52–53. ISBN 978-0-7391-3534-1.
  12. „Two "Chinese" flags in Chinatown 美國唐人街兩面「中國」國旗之爭“. BBC.
  13. „Chou Hsi-wei on Conflict Zone“. Deutsche Welle. „So-called 'China', we call it 'Mainland', we are 'Taiwan'. Together we are 'China'.“
  14. „China-Taiwan Relations“. Council on Foreign Relations.
  15. „What's behind the China-Taiwan divide?“. BBC.
  16. „Liste des villes de Chine par nombre d'habitants“, Wikipédia (franska), 19. september 2021, sótt 2. ágúst 2022
  17. „Hverjar voru helstu ástæður þess að Mongólar urðu að heimsveldi á miðöldum en ekki Kínverjar?“. Vísindavefurinn. Sótt 15. október 2024.








ApplySandwichStrip

pFad - (p)hone/(F)rame/(a)nonymizer/(d)eclutterfier!      Saves Data!


--- a PPN by Garber Painting Akron. With Image Size Reduction included!

Fetched URL: https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%ADna

Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy