Fara í innihald

Belgíska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Belgíska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnRauðu Djöflarnir
Íþróttasamband(KBVB/URBSFA/KBFV)
ÞjálfariDomenico Tedesco
FyrirliðiEden Hazard
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
4 (6. apríl 2023)
1 (Nóvember 2015 – mars 2016, september 2018)
71 (Júní 2007)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
3-3 gegn Frakkland í Uccle, Belgíu 1. maí 1904
Stærsti sigur
10–1 gegn San Marínó Brussel Belgíu 28. febrúar 2001
Mesta tap
11-2 gegn Englandi, London, Englandi17. apríl 1909
Heimsmeistaramót
Keppnir13 (fyrst árið 1930)
Besti árangur3. sæti HM 2018

Belgíska karlalandsliðið í knattspyrnu keppir fyrir hönd Belgíu í knattspyrnu. Besti árangur þess var þegar þeim tókst að hreppa gull á Ólympíuleikunum 1920, silfurverðlaun á EM 1980 og bronsverðlaun á HM 2018.

Belgar voru fyrstir þjóða á meginlandi Evrópu til að leggja stund á knattspyrnu. Upphafsmaður þess er talinn írskur námsmaður, Cyril B. Morrogh, sem mætti með leðurknött í skóla sinn í borginni Melle þann 26. október 1863. Breskir kennarar áttu stóran þátt í útbreiðslu íþróttarinnar í skólum. Iðkunin var í fyrstu bundin við yfirstéttardrengi en með tímanum varð fótbolti að vinsælustu íþrótta alls þorra almennings. Íþróttasamband var stofnað í Belgíu árið 1895 og árið eftir var efnt til fyrsta belgíska meistaramótsins í knattspyrnu.

Óopinbert belgískt landslið mætti hollensku úrvalsliði vorið 1901 í fjórum leikjum. Belgar unnu þá alla, en leikir þessir eru í dag ekki viðurkenndir af FIFA sem formlegir landsleikir. Fyrsta slíka viðureignin fór hins vegar fram þann 1. maí 1904, þar sem 1.500 áhorfendur sáu Belga og Frakka gera 3:3 jafntefli í Uccle. Þremur vikum síðar voru Belgar í hópi sjö þjóða sem komu að stofnun Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Um þessar mundir var landslið Belga valið af nefnd sem í sátu fulltrúar 6-7 sterkustu félagsliða landsins.

Frá og með 1905 mættust Belgar og Holland tvisvar á ári, yfirleitt í Antwerpen og Rotterdam. Sigurvegari þessa einvígis taldist Niðurlandameistari. Ein þessara fyrstu viðureigna gat af sér viðurnefni belgíska landsliðsins, en hollenskur blaðamaður skrifaði að lið Belga hefði „barist eins og djöflar“ og var í kjölfarið farið að kalla liðið „rauðu djöflana“ eða „rauðu smádjöflana“ með vísun í rauðar liðstreyjurnar.

Árið 1910 varð Skotinn William Maxwell fyrsti eiginlegi landsliðsþjálfari Belgíu. Undir hans stjórn steig Alphonse Six sín fyrstu spor í landsliðstreyjunni, en hann var talinn besti leikmaður Belga á þessu upphafsskeiði landsliðsins og talinn slyngasti framherji utan Bretlandseyja. Fyrri heimsstyrjöldin setti stórt strik í alþjóðlegar knattspyrnukeppnir. Engir formlegir landsleikir fóru fram frá 1915-18, þótt Belgar og Frakkar mættust í fáeinum óformlegum vináttuleikjum. Þá féllu þrír belgískir landsliðsmenn í stríðinu mikla.

Fyrstu stórmótin

[breyta | breyta frumkóða]
Belgar og Frakkar leika vináttuleik árið 1918. Leikir á stríðsárunum voru haldnir í fjáröflunarskyni, m.a. fyrir fórnarlömb heimsstyrjaldarinnar

Belgar voru gestgjafar á Ólympíuleikunum 1920. Knattspyrnukeppni leikanna varð söguleg. Landslið hins nýstofnaða ríkis Tékkóslóvakíu fór í úrslitaleikinn eftir að hafa unnið allar viðureignir sínar sannfærandi. Í úrslitunum mættu þeir liði heimamanna í leik þar sem allt fór í loft upp og lið Tékkóslóvakíu gekk af velli til að mótmæla frammistöðu dómarans. Belgar, sem sátu hjá í fyrstu umferð, hlutu því gullverðlaunin eftir einungis tvo eiginlega sigurleiki. Knattspyrnukeppni þessara leika var mun lakari en síðar varð, þannig voru engir þátttakendur frá Suður-Ameríku og Bretar tefldu fram áhugamannaliði.

Á leikunum fjórum árum síðar biðu Belgar gríðarlega óvænt afhroð gegn Svíum, 8:1. Litlu betur gekk í Amsterdam 1928 þar sem Belgar steinlágu í fjórðungsúrslitum fyrir silfurliði Argentínu.

Ekki varð uppskeran betri í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu á árunum milli stríða. Belgar mættu til leiks á HM 1930, 1934 og 1938, en töpuðu öllum sínum leikjum. Frægasti landsliðsmaður Belgíu á þessu tímabili var Raymond Braine. Hann varð fyrsti atvinnumaður Belga í íþróttinni þegar hann gekk til liðs við tékkneska liðið Sparta Prag, en á þessum árum voru belgískir knattspyrnumenn að nafninu til áhugamenn, þótt greiðslur til leikmanna undir borðið væru alsiða.

Mögru árin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa verið fastagestir á stórmótum áranna fyrir seinna stríð voru Belgar sjaldséðir hvítir hrafnar á slíkum mótum frá 1950-70. Þjóðin komst aðeins einu sinni í úrslitakeppni, á HM í Sviss 1954. Sú þátttaka varð þó söguleg. Belgar gerðu 4:4 jafntefli við Englendinga í opnunarleik sínum og slógu því næst Ítali úr leik eftir tvær viðureignir. Eftir Englandsleikinn fóru einhverjir blaðamenn að nefna Belga sem möguleg heimsmeistaraefni. Í fjórðungsúrslitunum mættust Belgar og Austurríkismenn í mögnuðum knattspyrnuleik sem lauk með sigri þeirra síðarnefndu, 7:5.

Þótt Belgar heiðruðu ekki fleiri stórmót með nærveru sinni á þessum árum, náði liðið oft furðugóðum úrslitum í vináttuleikum. Þannig unnu Belgar nýjrýnda heimsmeistara Vestur-Þjóðverja árið 2:0, skelltu Brasilíumönnum 5:1 árið 1963 og unnu magnaðan 5:4 sigur á hinu frábæra ungverska landsliði árið 1956. Fyrir vikið gáfu gárungar belgíska liðinu viðurnefnið „heimsmeistarar í vináttulandsleikjum“.

Endurreisnin og hollenska vandamálið

[breyta | breyta frumkóða]

Belgíska landsliðið tók stórfelldum framförum í byrjun áttunda áratugarins, þrátt fyrir að standa rækilega í skugganum á nágrönnum sínum Hollendingum. Belgar skildu bæði Júgóslava og Spánverja eftir í undankeppninni og komust á HM í Mexíkó 1970. Þar lenti liðið í strembnum riðli og komst ekki áfram.

Betur gekk í Evrópukeppninni tveimur árum síðar. Belgar ruddu m.a. Ítölum úr vegi til að komast í fjögurra liða úrslitakeppni EM 1972. Hún fór fram í Belgíu, þar sem heimamenn töpuðu naumlega fyrir Vestur-Þjóðverjum en lögðu Ungverja í leiknum um bronsverðlaunin.

Ekki tókst að byggja á þessari velgengni því Belgar lentu í riðli með erkifjendum sínum Hollendingum (og Íslandi) í forkeppni HM 1974, þar sem Belgar máttu bíta í það súra epli að falla úr leik á markatölu þrátt fyrir að fá ekki á sig eitt einasta mark. Hollendingar komu einnig í veg fyrir að grannar sínir kæmust á EM 1976 með því að gjörsigra þá í fjórðungsúrslitum. Og enn lentu Belgar í riðli með Hollendingum (og Íslendingum) í undankeppni HM 1978.

Fyrri gullöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Guy Thys tók við stjórn landsliðsins árið 1976 og stýrði þvið til 1989. Undir hans stjórn náði liðið áður óþekktum hæðum. Fyrsta stórmótið var EM 1980 þar sem Belgar fóru ósigraðir upp úr sterkum riðli í forkeppninni. Í úrslitakeppninni á Ítalíu skutu Belgar bæði Englendingum og Spánverjum aftur fyrir sig og tóku toppsætið af heimamönnum á fleiri skoruðum mörkum eftir markalaust jafntefli í lokaleik liðanna. Við tók hreinn úrslitaleikur um gullið gegn liði Vestur-Þjóðverja. Þýskt sigurmark í blálokin, 2:1, gerði það að verkum að Belgar máttu sætta sig við silfrið, sem er enn besti árangur landsins á Evrópumóti.[1]

Eftir þennan óvænta árangur á Ítalíu tók athygli fótboltaheimsins að beinast að Belgum í vaxandi mæli. Belgar unnu forriðil sinn fyrir HM 1982 og lentu þar fyrir ofan fjandvini sína Frakka og Hollendinga. Í úrslitakeppninni unnu Belgar heimsmeistara Argentínu í opnunarleiknum en töpuðu báðum leikjum sínum í milliriðli.

Í úrslitakeppni EM 1984 unnu Belgar Júgóslava en töpuðu illa fyrir Frökkum og naumlega fyrir Dönum og misstu af undanúrslitasæti. Þetta var síðasta skiptið til ársins 2016 sem Belgar komust fyrir eigin rammleik í úrslitakeppni Evrópumótsins, en árið 2000 fengu Belgar sæti sem gestgjafar í samvinnu við Hollendinga.

Betur gekk á heimsmeistaramótum, þar sem Belgar komust í úrslitakeppnina í hvert einasta sinn frá 1982 til 2002 og fóru oftast upp úr forriðlinum. Sérstaka athygli vakti frammistaðan á HM 1986 í Mexíkó. Byrjunin var raunar ekki burðug þar sem Belgar skriðu í 16-liða úrslit eftir að hafa aðeins náð þriðja sæti í riðli sem talinn var einn sá veikasti. Í 16-liða úrslitum unnu Belgar 4:3 sigur á Sovétmönnum eftir framlengingu í einhverjum æsilegasta leik HM-sögunnar. Í fjórðungsúrslitum þurfti vítaspyrnukeppni til að ryðja Spánverjum úr vegi. Lengra komust Belgar þó ekki og höfnuðu í fjórða sæti eftir töp gegn Argentínu og Frökkum.

Belgar tefldu mörgum sömu leikmönnum fram á HM 1990 og fjórum árum fyrr. Þeirra kunnasti og mikilvægasti leikmaður var af flestum talinn miðjumaðurinn Enzo Scifo. Belgar komust vandkvæðalítið upp úr riðlakeppninni og vítaspyrnukeppni virtist blasa við í 16-liða úrslitunum þegar Engledingurinn David Platt skoraði sigurmark í blálok framlengingar.

Belgar byrjuðu HM 1994 með látum og unnu sigra á Morokkó og erkifjendunum Hollendingum í tveimur fyrstu leikjunum. Toppsætið, sem gefið hefði 16-liða úrslitaleik gegn Írum, virtist innan seilingar. Öllum að óvörum töpuðu Belgar hins vegar lokaleiknum gegn Sádi-aröbum og féllu niður í þriðja sæti riðilsins. Það kostaði strembna viðureign gegn ríkjandi heimsmeisturum Þjóðverja sem unnu 3:2.

Hallar undan fæti

[breyta | breyta frumkóða]

Belgar komust á HM 1998 eftir að hafa enn og aftur lent í forkeppni með Hollendingum. Að þessu sinni var styrkleikamunur liðanna þó æpandi. Hollendingar unnu heimaleikinn 3:1 og útileikinn með þremur mörkum gegn engu. Enzo Scifo hélt á sitt fjórða og síðasta heimsmeistaramót, 32 ára að aldri. Hann gat lítið spilað vegna meiðsla og lagði landsliðsskóna á hilluna eftir keppnina. Útlitið var svo sem bjart í fyrstu þar sem Belgar og Hollendingar gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik. Belgar misstu svo tveggja marka forystu niður í jafntefli gegn Mexíkó, en sigur á Suður-Kóreu hefði átt að duga í næstu umferð. Þar mistókst Belgum hins vegar að hanga á forystu sem þeir náðu snemma leiks og þar með var draumurinn úti.

Sársaukafull endurnýjun landsliðsins átti sér stað fyrir EM 2000 sem Belgar og Hollendingar héldu í sameiningu. Sigur á Svíum í fyrsta leik lofaði góðu en töp gegn Ítölum og Tyrkjum þýddu að Belgar máttu bíta í það súra epli að falla úr leik í riðlakeppni á heimavelli.

Síðasta stórmótið um hríð var svo HM 2002. Þangað komust belgar eftir sigur á Tékkum í umspili. Belgar duttu í lukkupottinn og lentu í riðli með Japönum, Rússum og Túnisbúum. Þeir náðu öðru sætinu en áttu lítið erindi í heimsmeistaraefni Brasilíumanna í 16-liða úrslitum.

Belgian defender maneuvering around the Algerian goal
Belgar (í rauðu) að spila gegn Alsíringum á Heimsmeistaramótinu árið 2014.

Belgar komust ekki á stórmót í karlaflokki í rúman áratug eftir HM 2002. Þjálfaraskipti voru ör og liðið fjarri því að teljast í hópi þeirra bestu. Knattspyrnuáhugamenn hugguðu sig þó við sterk yngri landslið. U21-árs liðið stóð sig með sóma á EM 2007 og tryggði sér sæti á Ólympíuleikunum 2008 þar sem Belgar höfnuðu í fjórða sæti. Farið var að tala um nýja gullkynslóð.

Mark Wilmots tók við stjórn landsliðsins árið 2012 og skilaði því taplausu í gegnum undankeppni HM 2014. Þegar til Brasilíu var komið sigruðu Belgar alla leiki sína í riðlakeppninni og unnu því næst Bandaríkjamenn í 16-liða úrslitum. Í fjórðungsúrslitum tapaði liðið hins vegar fyrir Argentínu. Árangurinn var þó talinn lofa afar góðu og talað var um belgíska liðið sem eitt það efnilegasta í heimi.

Miklar væntingar voru bundnar við belgíska liðið á EM 2016, enda var það um þær mundir orðið tíður gestur í efstu sætum heimslista FIFA. Belgar höfnuðu í öðru sæti á eftir Ítölum á færri mörkum skoruðum, skelltu svo Ungverjum 4:0 en töpuðu óvænt fyrir spútnikliði Wales, 3:1 í fjórðungsúrslitum.

Belgar mættu til leiks á HM 2018 í Rússlandi sem þriðja efsta lið heimslistans. Þeir unnu sinn riðil eftir harða keppni við Englendinga og unnu því næst Japani í hörkuleik í 16-liða úrslitum. Í fjórðungsúrslitum lögðu Belgar Brasilíumenn að velli, 2:1 en töpuðu fyrir Frökkum í undanúrslitum með einu marki gegn engu. Fjórum dögum síðar unnu þeir Englendinga í bronsleiknum og bættu þannig sinn besta árangur frá árinu 1986.

Á EM 2021 léku meiðsli lykilmanna Belga grátt auk þess sem hluti hópsins var kominn af léttasta skeiði. Belgar unnu alla leikina í riðlakeppninni og slógu því næst Portúgali úr keppni en máttu lúta í gras gegn Ítölum í fjórðungsúrslitum.

Á HM 2022 í Katar komust Belgar ekki upp úr sínum riðli og var talað um að síðasta tækifæri gullkynslóðar þeirra hafi farið forgörðum. Lykilmaðurinn Eden Hazard hætti eftir mótið. [2]

Árangur á stórmótum

[breyta | breyta frumkóða]

EM í knattspyrnu

[breyta | breyta frumkóða]
Ár Gestgjafar Árangur
EM 1960  Frakkland Tóku ekki þátt
EM 1964  Spánn Tóku ekki þátt
EM 1968  Ítalía Tóku ekki þátt
EM 1972  Belgía Brons
EM 1976  Júgóslavía Tóku ekki þátt
EM 1980  Ítalía Silfur
EM 1984  Frakkland Riðlakeppni
EM1988  Þýskaland Tóku ekki þátt
EM 1992  Svíþjóð Tóku ekki þátt
EM1996  England Tóku ekki þátt
EM 2000  Belgía &  Holland Riðlakeppni
EM 2004  Portúgal Tóku ekki þátt
EM 2008  Austurríki &  Sviss Tóku ekki þátt
EM 2012  Pólland &  Úkraína Tóku ekki þátt
EM 2016  Frakkland 8. liða úrslit
EM 2021 Fáni ESBEvrópa 8.liða úrslit
EM 2024  Þýskaland 16. liða úrslit

HM Árangur

[breyta | breyta frumkóða]
Ár Gestgjafar Árangur
HM 1930 Úrúgvæ Riðlakeppni
HM 1934  Ítalía Riðlakeppni
HM 1938  Frakkland Riðlakeppni
HM 1950  Brasilía Tóku ekki þátt
HM 1954  Sviss Riðlakeppni
HM 1958  Svíþjóð Tóku ekki þátt
HM 1962  Síle Tóku ekki þátt
HM 1966  England Tóku ekki þátt
HM 1970  Mexíkó Riðlakeppni
HM 1974  Þýskaland Tóku ekki þátt
HM 1978  Argentína Tóku ekki þátt
HM 1982  Spánn Milliriðill
HM 1986  Mexíkó 4. sæti
HM 1990  Ítalía 16. liða úrslit
HM 1994  Bandaríkin 16 liða úrslit
HM 1998  Frakkland Riðlakeppni
HM 2002  Suður-Kórea &  Japan 16 liða úrslit
HM 2006  Þýskaland Tóku ekki þátt
HM 2010  Suður-Afríka Tóku ekki þátt
HM 2014  Brasilía 8. liða úrslit
HM 2018  Rússland Brons
HM 2022  Katar Riðlakeppni

Leikmannahópur (desember 2022)

[breyta | breyta frumkóða]

Markverðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Thomas Meunier (Borussia Dortmund)
  • Timothy Castagne (Leicester City)
  • Jan Vertonghen (Anderlecht)
  • Arthur Theate (Rennes)
  • Wout Faes (Leicester City)
  • Zeno Debast (Anderlecht)

Sóknarmenn

[breyta | breyta frumkóða]

Flestir leikir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jan Vertonghen: 145
  2. Axel Witsel: 130
  3. Toby Alderweireld: 127
  4. Eden Hazard: 126
  5. Dries Mertens: 109
  6. Romelu Lukaku: 104
  7. Thibaut Cortois: 100
  8. Kevin De Bruyne: 97
  9. Jan Ceulemans: 96
  10. Timmy Simons: 94

Flest mörk

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Romelu Lukaku: 68
  2. Eden Hazard: 33
  3. Bernard Voorhoof: 30
  4. Paul Van Himst: 30
  5. Marc Wilmots: 29
  6. Mithy Batshuayi
  7. Joseph Mermans: 27
  8. Ray Braine: 26
  9. Robert De Veen: 26
  10. Kevin De Bruyne: 25

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. David Runciman (16. júní 2014). „Why You Should (and Should Not) be Excited About Belgium's New Golden Generation“. The New Republic. Sótt 5. maí 2015.
  2. BBC News - Croatia 0-0 Belgium: Early exit for Belgium as Croatia reach last 16 in Qatar BBC sótt 7/12 2022
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy