Kjalarnes (hverfi)
Kjalarnes er hverfi í Reykjavík. Til Kjalarness teljast nesin Kjalarnes og Álfsnes. Hverfið nær auk þess inn eftir Leirvogsá við rætur Esju. Við Grundarhól er göngumiðstöð þar sem er vinsælt að ganga upp á fjallið um gönguleið á Þverfellshorn. Helsta þéttbýlið í Kjalarneshverfi er Grundarhverfi. Hverfið hefur verið hluti Reykjavíkur frá 1998, en áður hét það Kjalarneshreppur. Í hverfinu eru sundlaug (Klébergslaug), íþróttahús og einn grunnskóli sem heitir Klébergsskóli. Helstu íþróttafélög sem starfa í hverfinu eru Ungmennafélag Kjalnesinga (UMFK) og Golfklúbbur Brautarholts. Í hverfinu er líka glerverksmiðja sem heitir Gler í Bergvík og býr til alls konar glerlistir, en einnig má finna einingaverksmiðju ásamt öðrum iðnaði. Íbúar hverfisins voru 1.031 árið 2023.[1]
Tvær kirkjur eru í hverfinu: Brautarholtskirkja og Saurbæjarkirkja sem báðar eru hluti af Brautarholtssókn. Björgunarsveitin Kjölur starfar í Grundarhverfi.
Nokkur fjöldi stórbýla sem framleiða svína- og alifuglakjöt er í Kjalarneshverfi. Þar á meðal eru Brautarholt og Móar, auk þess sem sláturhús Stjörnugríss er í landi Saltvíkur. Vallá er bær á Kjalarnesi sem fyrirtækið BM Vallá rekur uppruna sinn til. Á Mógilsá er tilraunastöð Skógræktar ríkisins. Meðferðarstöð SÁÁ er í landi Saltvíkur á Kjalarnesi. Í Saltvík var áður frístundastarf á vegum Reykjavíkurborgar, meðal annars reiðnámskeið, frá 1965 til 1997. Saltvíkurhátíðin var fræg útihátíð sem var haldin þar 1971. Á Arnarholti á Kjalarnesi var rekið „þurfamannaheimili“ frá 1945 til 1971 þegar það var fært undir geðsvið Borgarspítala. Fram hefur komið að vistmenn þar hafi sætt mjög illri meðferð á þessum tíma. Arnarholt var rekið sem sjúkrastofnun til 2005.
Kjalnesinga saga er kennd við Kjalarnes þar sem hluti hennar gerist. Hún er talin skrifuð um 1300. Þar koma fyrir ýmis örnefni sem enn eru þekkt, eins og Brautarholt, Saurbær, Mógilsá, Sjávarhólar (Hólar), Esjuberg og Kollafjörður.
Til stendur að reisa nýtt íbúðahverfi í landi Jörfa nyrst í Grundarhverfi.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Mannfjöldi eftir hverfum í Reykjavík, kyni og aldri 1. janúar 2011-2023“. Hagstofa Íslands.