Fara í innihald

Seiður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Seiður eða Seiðr er hugtak sem á við forn-norrænt form af galdraiðkun. Seiður þótti kröftugasti galdur með norrænum mönnum og byggist á algleymi iðkenda og sálnaflakki. Til þess að ástunda seiðinn þurftu menn að búa yfir sérstakri þekkingu og kunnáttu. Seiðurinn var framinn á seiðhjalli (sérstakur upphækkaður timburpallur); og fólst í leiðsluástandi seiðkonu og söng raddliðs og var einkum magnaður gegn tilteknum mönnum eða til að sjá fyrir óorðna hluti. Seiðiðkendur voru taldir geta skipt hömum, þeir voru hamhleypur þ.e. gátu flutt sál sína inn í líkama dýra og vætta. Seiður var ýmist litinn hornauga á tímum hinnar fornu trúar eða óttablandin virðing borin fyrir honum. Óðinn sjálfur var meistari seiðsins hjá norrænum mönnum og á að hafa numið þá list af vanagyðjunni Freyju. Samkvæmt Heimskringlu er því þó öfugt farið:

„Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt.“

Það voru einkum konur, sem stunduðu seið með norrænum mönnum, enda voru seiðkarlar kenndir við ergi, hugtak sem þýðir „mannleysa“ eða lýsir einhverskonar „ókarlmannlegu eðli“, oft notað yfir kvenlega og samkynhneigða karlmenn. Seiðiðkun þótti engu að síður máttug og ógnvekjandi aðferð til að skyggnast inn í framtíðina eða framvindu örlagana, hljóta yfirnáttúrulega vernd eða valda öðrum ómældum skaða.

Seiðiðkendur voru einnig kallaðir Seiðberendur, en í seinni tíð, eftir upptöku kristni var orðið seiðskratti notað yfir iðkendur þessara fornu vísinda.

Þriðji (Óðinsheiti) segir Gylfa frá því að Seiðberendur séu komnir frá veru sem kallast Svarthöfði í Gylfaginningu:

Svo segir í Völuspá hinni skömmu:
Eru völur allar
frá Viðólfi
vitkar allir
frá Vilmeiði
en seiðberendur
frá Svarthöfða,
allir jötnar
frá Ými komnir.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy