Vár
- Þessi grein fjallar um gyðjuna Vár. Vár gæti einnig átt við um kvenmannsnafnið Vár.
Vár er gyðja í norrænni goðafræði sem tengist eiðum, samningum og sáttmálum, sér í lagi á milli karla og kvenna. Nafn hennar birtist í ýmsum skáldskaparkenningum fyrir konur og í gömlum eiðum, meðal annars í hjónabandsvígslum.
Ritaðar heimildir um Vár
[breyta | breyta frumkóða]Nafn Várar kemur fyrir í giftingareið sem birtist í Þrymskviðu í Sæmundareddu. Þegar jötunninn Þrymur hyggst ganga að eiga Freyju (sem er í raun Þór í dulargervi) fyrir konu vígir hann hjónabandið með hamrinum Mjölni og þylur upp eftirfarandi eið:
|
Vígslan í Þrymskviðu er talin lýsandi fyrir forna hjónabandseiða. Þegar íslenska Ásatrúarfélagið vígir hjónabönd í dag er notast við svipaðan eið og eru hjónin þá vígð saman undir Várar hendi í heiðnum brúðkaupum.[2]
Í 35. kafla Gylfaginningar í Eddu Snorra Sturlusonar er upptalning á ásynjum þar sem Vár er sú níunda í röðinni. Þar er sagt um hana:
Níunda Vár. Hún hlýðir á eiða manna og einkamál er veita sín á milli konur og karlar. Því heita þau mál várar. Hún hefnir og þeim er brigða.[3] |
Nafn Várar birtist í rúnaáletrun sem fannst á trjábút nærri Bergen í Noregi og er talinn vera frá byrjun 14. aldar. Í áletruninni stendur:
|
„Vitur Vár víra“ þýðir í þessu samhengi vitur, skartklædd kona. Kvæðið hefur verið skýrt sem svo að höfundurinn sé að kvarta yfir því að konur eða hjónaband sé honum til ama; þ.e. lætur hann „sitja óglaðan“.[4]
Túlkanir
[breyta | breyta frumkóða]Sumir fræðimenn, meðal þeirra Andy Orchard, hafa dregið í efa að hjónabandsvígslan í Þrymskviðu þar sem vísað er til Várar sé í raun forn og hafi verið notuð í heiðnum brúðkaupum.[5] Britt-Mari Näsström telur að Vár hafi upphaflega verið annað nafn á Freyju en hafi síðar orðið til sem sjálfstæð gyðja.[6]
Textafræðingurinn Rudolf Simek telur að vænlegast sé að líta á gyðjurnar Vár, Ságu, Hlín, Sjöfn, Snotru, og Vör sem lauslega skilgreindar verndargyðjur kvenna sem beri hver um sig ábyrgð á tilteknu sviði einkalífsins. Greinileg skil séu milli verksviða þeirra, sem minni nokkuð á matrónur sem tilbeðnar voru í germanskri og keltneskri heiðni.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Þrymskviða“. Heimskringla. Sótt 25. apríl 2019.
- ↑ 2,0 2,1 „Ásynjur“. Ásatrúarfélagið. Sótt 25. apríl 2019.
- ↑ Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 25. apríl 2019.
- ↑ Macleod, Mindy. Mees, Bernard (2006). Runic Amulets and Magic Objects. Boydell Press. ISBN 1-84383-205-4, bls. 59.
- ↑ Orchard, Andy (1997). Dictionary of Norse Myth and Legend. Cassell. ISBN 0-304-34520-2
- ↑ Näsström, Britt-Mari (2003). Freyja - the great Goddess of the North. Harwich Port: Clock & Rose, 2003. First published: University of Lund, 1995. ISBN 1-59386-019-6, bls. 83.
- ↑ Rudolf Simek: Lexikon der germanischen Mythologie (Kröners Taschenausgabe. Band 368). 3., völlig überarbeitete Auflage. Kröner, Stuttgart 2006, ISBN 3-520-36803-X, bls. 368.