Fara í innihald

Annie Ernaux

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Annie Ernaux
Annie Ernaux
Annie Ernaux 2022.
Fædd: 1. september 1940 (1940-09-01) (84 ára)
Lillebonne, Frakklandi
Starf/staða:Rithöfundur
Þjóðerni:Frönsk
Virk:1974–
Þekktasta verk:Les Armoires vides (1974)
La Place (1983)
Passion simple (1992)
La Honte (1997)
L'Occupation (2002)
Les Années (2008)
Heimasíða:annie-ernaux.org

Annie Ernaux (fædd Duchesne; 1. september 1940) er franskur rithöfundur og prófessor í bókmenntafræði.[1] Verk hennar eru flest með sjálfsævisögulegu ívafi og áhrifum af félagsfræði.[2] Ernaux hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2022 fyrir „hugrekki og skarpskyggni í skrifum sínum,“ sem „afhjúpa rætur, fráhvörf og fjötra persónulegra minninga.“[3]

Æska, menntun og fjölskyldulíf

[breyta | breyta frumkóða]

Annie Duchesne[4] fæddist þann 1. september 1940[5] í Lillebonne í Seine-Maritime. Hún varði æskuárum sínum í Yvetot og Normandí. Foreldrar hennar höfðu verið verkafólk og síðar kaffihúsarekendur. Annie Ernaux nam við Háskólann í Rúðuborg og síðan Háskólann í Bordeaux. Hún varð fyrst löggiltur kennari og útskrifaðist síðan úr nútímabókmenntum árið 1971. Hún vann í nokkurn tíma að lokaritgerð sem hún lauk ekki við en fjallaði um franska leikskáldið Marivaux.[6]

Í byrjun áttunda áratugarins kenndi hún við gagnfræðaskóla í Bonneville,[7] við Évire-skólann í Annecy-le-Vieux og loks í Pontoise en hóf síðan störf fyrir fjarkennslumiðstöð Frakklands (CNED).[8]

Annie Ernaux var gift Philippe Ernaux og á með honum tvo syni, Éric og David.[9] Þau skildu í byrjun níunda áratugarins eftir sautján ára sambúð.[10]

Frumraun Annie Ernaux í bókmenntum var bókin Les Armoires vides árið 1974, sem var sjálfsævisöguleg skáldsaga. Árið 1984 hlaut hún Renaudot-verðlaunin fyrir annað verk með sjálfsævisögulegu ívafi, La Place.

Árið 2008 gaf Ernaux út bókina Les Années, þar sem hún skrifaði um tímabilið frá eftirstríðsárunum fram til samtímans. Hún hlaut fjölda verðlauna fyrir bókina og næsta ár hlaut hún Verðlaun franskrar tungu fyrir ævistörf sín.[11]

Árið 2011 birti Annie Ernaux bókina L'Autre Fille, sem var bréf sem stílað var á systur hennar sem hafði látist áður en Annie fæddist,[12] og L'Atelier noir, þar sem hún safnaði saman fjölda textabúta og hugleiðinga sem tengdust útgáfu á verkum hennar. Sama ár birtist safnverkið Écrire la vie í safnritinu Quarto. Ernaux safnaði þar saman flestum sjálfsævisögulegum skrifum sínum og birti minnisbók með ljósmyndum og óritskoðuðum færslum úr dagbók sinni.

Árið 2016 birti hún annað sjálfsævisögulegt verk, Mémoire de fille, þar sem hún hugsaði aftur til sumarsins 1958, þegar hún var átján ára gömul.[13] Hún fjallaði þar um fyrstu reynslur sínar af kynlífi meðan hún var í fríi í Orne. Í bókinni kallaði hún minninguna „helstu minninguna af skömm, nákvæmari og óviðráðanlegri en allar aðrar. Í stuttu máli sagt er þessi minning hin sérstaka gjöf skammarinnar.“[14]

Árið 2017 hlaut Ernaux Marguerite-Yourcenar-verðlaunin fyrir ævistörf sín frá sambandi franskra margmiðlunarhöfunda.[15]

Verk Ernaux hafa verið þýdd á ensku í æ meiri mæli, þar á meðal verkin Les Années og L’événement[16] L'événement var gerð að kvikmynd í leikstjórn Audrey Diwan árið 2021.[17]

Skoðanir og þátttaka í stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]
Annie Ernaux undirritar bækur árið 2011.

Í forsetakosningum Frakklands árið 2012 studdi Ernaux frambjóðanda Vinstrifylkingarinnar, Jean-Luc Mélenchon, vegna þess að hann hafði „tekið upp orðræðu, kommúníska en þó ekki eingöngu, sem maður heyrir ekki lengur.“[18]

Þann 30. nóvember 2015 var Ernaux meðal 58 Frakka sem skrifuðu undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að takmarka ekki rétt til mótmæla eftir að ríkisstjórnin lýsti yfir neyðarástandi vegna hryðjuverkaárása í París.[19]

Þann 26. maí 2016 skrifaði Ernaux undir sameiginlega fordæmingu á tilraunum stjórnarinnar til að gera lítið úr mótmælahreyfingu gegn óvinsælum breytingum á franskri vinnulöggjöf.[20]

Ernaux var meðal undirritaðra á sameiginlegri stuðningsyfirlýsingu við Houria Bouteldja, talskonu stjórnmálahreyfingarinnar Frumbyggja lýðveldisins (Indigènes de la République), sem birt var í Le Monde þann 19. júní 2017. Yfirlýsingin var andsvar við gagnrýnni grein sem Jean Birnbaum hafði ritað um Bouteldja og í henni sögðu höfundarnir að ásakanir á hendur Bouteldja um kynþáttahyggju, Gyðingahatur og hommafælni ættu ekki við rök að styðjast.[21] Yfirlýsingin vakti hörð viðbrögð úr tilteknum áttum.[22] Jack Dion hjá tímaritinu Marianne kallaði greinina „stuðningsyfirlýsingu við konu sem hefur opinberað kynþáttahyggju sína fyrir augsýn allra.“[23]

Ernaux undirritaði í maí 2018 ákall um sniðgöngu á menningarhátíð vináttusamtaka Frakklands og Ísraels, sem gagnrýnendur hennar töldu vera „á kostnað palestínsku þjóðarinnar.“[24]

Í desember 2018 undirritaði Ernaux stuðningsyfirlýsingu í dagblaðinu Libération við mótmælahreyfingu gulvestunga.[25] Hún var jafnframt meðal 1.400 undirritaðra í annarri yfirlýsingu með yfirskriftinni „Við erum ekki bjánar!“ í sama blaði þann 19. maí 2019 þar sem samstaða með gulvestungum var ítrekuð.[26]

Árið 2019 skrifaði Ernaux undir bréf í Mediapart þar sem hvatt var til sniðgöngu á Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2019 sem haldin var í Tel Avív í Ísrael.[27]

Þann 30. mars 2020 skrifaði Ernaux opið bréf til Emmanuels Macron Frakklandsforseta þar sem stjórnmálastefna hans var fordæmd. Bréfið var lesið af Augustin Trapenard í sjónvarpsþættinum Boomerang á France Inter: „Frá því að þér tókuð við stjórn Frakklands hafið þér skellt skollaeyrum við hjálparköllum úr heilbrigðisþjónustunni og slagorðin sem við gátum lesið á mótmælaborðum síðasta nóvember – „Ríkið telur peningana sína, við teljum dauðsföll“ eru sorglega viðeigandi í dag.“[28]

Evraux studdi Jean-Luc Mélenchon aftur í forsetaframboði hans árið 2022.[29]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Annie Ernaux“. EVENE (franska). Afrit af uppruna á 1. nóvember 2010. Sótt 31. október 2010.
  2. Ulin, David L. (21. janúar 2018). „Unorthodox snapshots of life“. Los Angeles Times. bls. F10. Sótt 5. október 2022 – gegnum Newspapers.com.
  3. Pétur Magnússon (6. október 2022). „Annie Ernaux hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels“. RÚV. Sótt 6. október 2022.
  4. « Mon nom de jeune fille, Duchesne » (L'Autre Fille, Paris, NiL, 2011, bls. 12).
  5. „Biographie : Annie Ernaux“. auteurs.contemporain.info (franska). Sótt 6. október 2022.
  6. Grégoire Leménager (09-12-2011). „Annie Ernaux : Je voulais venger ma race. BibliObs (franska). L'Obs. Sótt 6. október 2022.
  7. Héloïse Kolebka (2008-06). „Annie Ernaux : Je ne suis qu'histoire. L'Histoire (franska) (332): 18. ISSN 0182-2411. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. maí 2015. Sótt 6. október 2022.
  8. „Interviews : Annie Ernaux“. cercle-enseignement.com (franska). Sótt 6. október 2022.
  9. „Les Années Super-8 d'Annie Ernaux et David Ernaux-Briot“. actualitte.com. 29. júlí 2022. Sótt 6. október 2022.
  10. Marc Cassivi (6. október 2022). „Les années filmées d'Annie Ernaux“. lapresse.ca. Sótt 6. október 2022.
  11. „Annie Ernaux, Prix de la langue française“. etat-critique.com (franska).
  12. Bernard Desportes, « Annie Ernaux et l'autre fille », Le Nouvel Observateur, 3. mars 2011.
  13. Fiche de l'ouvrage Mémoire de fille, sur le site de son éditeur, Gallimard.
  14. Annie Ernaux, Mémoire de fille, Gallimard, 2016, bls. 18-19.
  15. Annie Ernaux, lauréate du prix Marguerite Yourcenar 2017, article du site livreshebdo.fr du 25 octobre 2017.
  16. Elise Hugueny-Léger. „L'œuvre d'Annie Ernaux enfin reconnue dans les pays anglophones“. The Conversation. Sótt 6. október 2022.
  17. „Audrey Diwan, la réalisatrice du film "L'Événement" sacrée à la Mostra de Venise pour son film sur l'avortement“ (franska). Franceinfo. 13. september 2021. Sótt 6. október 2022.
  18. Annie Ernaux : « Passion amoureuse et révolte politique, cela va de pair » Geymt 6 febrúar 2014 í Archive.today, rue89.nouvelobs.com, 10. desember 2011.
  19. „L'appel des 58 : "Nous manifesterons pendant l'état d'urgence" (franska). Club de Mediapart. 30 novembre 2015.
  20. "Casseurs" : renverser l'accusation“. Libération. 26. maí 2016.
  21. „Vers l'émancipation, contre la calomnie“. lemonde.fr. 19. júní 2017. Sótt 6. október 2022.
  22. Didier Leschi (24. júní 2017). „La portée réactionnaire du discours de la race écrase le combat social“. lemonde.fr.
  23. Jack Dion (20. júní 2017). „Touche pas à ma raciste ! (ces intellectuels qui soutiennent Houria Bouteldja)“. marianne.net.
  24. „Contre la saison France-Israël“. Médiapart (franska). 4. maí 2018. Sótt 6. október 2022.
  25. „Gilets jaunes, verts, rouges, roses, convergeons !“. libération.fr. 5. desember 2018. Sótt 6. október 2022.
  26. „Gilets jaunes: nous ne sommes pas dupes !“. Libération. 4. mars 2019. Sótt 6. október 2022.
  27. Voir sur blogs.mediapart.fr.
  28. Pauline Weiss. „Annie Ernaux, autrice féministe et sociale“. marieclaire.fr. Sótt 6. október 2022.
  29. „2022 : Jean-Marc Schiappa, Annie Ernaux... Qui compose le "parlement de campagne" de Mélenchon ?“. rtl.fr (franska). Sótt 6. október 2022.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy