Fara í innihald

Sigrid Undset

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigrid Undset
Sigrid Undset
Sigrid Undset árið 1928.
Fædd: 20. maí 1882
Kalundborg, Danmörku
Látin:10. júní 1949 (67 ára)
Lillehammer, Noregi
Starf/staða:Rithöfundur, þýðandi
Þjóðerni:Norsk
Virk:1907–1949
Bókmenntastefna:Raunsæi
Frumraun:Frú Marta Oulie (1907)
Þekktasta verk:Kristín Lafranzdóttir
Maki/ar:Anders Castus Svarstad (g. 1912; skilin 1927)
Börn:3

Sigrid Undset (20. maí 1882 – 10. júní 1949) var norskur rithöfundur sem vann bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1928. Hún er þekktust fyrir skáldsögur sem gerast á miðöldum, þar á meðal bókina Kristín Lafranzdóttir, sem kom út á árunum 1920 til 1922. Í bókum sínum fjallaði hún einnig um reynslur fátækra borgarkvenna og raunir kvenna sem brjóta gegn hefðbundnum kynhlutverkum.

Sigrid Undset fæddist þann 20. maí árið 1882 í Kalundborg í Danmörku. Móðir hennar, Charlotte Gyth, var þar uppalin og komin af efnuðu dönsku fólki. Faðir hennar, Ingvald Undset, var virtur fornleifafræðingur frá Þrándheimi í Noregi. Þegar Sigrid var tveggja ára flutti fjölskyldan til Óslóar, þar sem Ingvald vann í fornminjadeild Óslóarháskóla.[1]

Ingvald lést í desember árið 1893 og efnahagur mæðgnanna versnaði verulega í kjölfarið. Sigrid hætti námi þegar hún var sextán ára og hóf vinnu sem einkaritari í þýska fyrirtækinu AEG í Noregi til þess að afla heimilinu tekna. Sigrid hafði lagt stund á skáldskap og ljóðagerð frá unga aldri en hún tók þá ákvörðun að gerast rithöfundur þegar hún var átján ára.[1] Fyrsta bók hennar, Frú Marta Oulie, kom út árið 1907.[2] Fyrsta setning bókarinnar, sem var „Ég hef verið manninum mínum ótrú“, vakti mikla athygli í Noregi. Sigrid sagði upp skrifstofustarfinu árið 1909, þegar hún hafði gefið út tvær bækur, og var ákveðin í að gerast atvinnurithöfundur.[1]

Sigrid hlaut rithöfundarlaun frá norska ríkinu og flutti til Rómar til að vinna þar. Í Róm kynntist hún og varð ástfangin af norska málaranum Anders Castus Svarstad, sem var þrettán árum eldri en hún og átti konu og börn í Noregi. Sigrid og Anders giftust í Amsterdam árið 1912 og var Sigrid þá barnshafandi. Fyrsti sonur þeirra, Anders, fæddist árið 1913 í Róm en stuttu eftir fæðinguna flutti Sigrid aftur til Noregs án eiginmanns síns til að halda áfram ritstörfum. Þegar Anders fylgdi henni til Noregs reyndist hjónaband þeirra ekki farsælt til lengdar þar sem hann var lélegur fjölskyldufaðir og samband Sigridar við börn hans úr fyrra hjónabandinu var erfitt.[3] Sigrid og Anders eignuðust tvö börn til viðbótar en hjónaband þeirra var í reynd runnið út í sandinn árið 1919.[1]

Undset keypti bjálkahúsið Bjerkebæk árið 1921 og bjó þar til dauðadags. Hún vann þar allan liðlangan daginn, ýmist við ritstörf eða við að sinna börnum sínum.[1]

Á árunum 1920 til 1922 gaf Undset út frægasta verk sitt, þríleikinn Kristínu Lafranzdóttur. Í þríleiknum fjallaði Undset um norsk hjón, Kristínu Lafranzdóttur og Erlend Nikulásson, á 14. öld og lýsti lifnaðarhætti og hugsanagangi norskra stórbænda á þeim tíma.[4] Verkið hlaut góðar viðtökur og stuðlaði að því að Undset hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1928. Hún lagði rúman helming verðlaunafjárins, sem nam um 156.000 norskra króna, í nýjan styrktarsjóð fyrir foreldra barna með þroskahömlun. Dóttir Undset, Maren Charlotte, þjáðist af þroskahömlun og krampasjúkdómum og átti eftir að látast árið 1939, aðeins 23 ára.[1]

Undset gekkst undir kaþólska trú árið 1924 og trú hennar átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hennar og störf það sem eftir var. Hún varð formaður norska rithöfundasambandsins árið 1935 og gagnrýndi opinskátt Adolf Hitler og nasista í Þýskalandi. Hún tók einnig afstöðu gegn samlanda sínum, Nóbelsverðlaunahafanum Knut Hamsun, sem var eindreginn stuðningsmaður Hitlers. Undset flúði frá Noregi þegar nasistar hertóku landið í seinni heimsstyrjöldinni og fór fyrst til Svíþjóðar en síðan til Bandaríkjanna. Elsti sonur hennar, Anders, lést í átökum gegn Þjóðverjum í styrjöldinni.[1]

Undset sneri heim til Noregs eftir lok styrjaldarinnar en taldi sköpunargáfu sína þá þurrausna og hætti mestmegnis að skrifa. Hún lést fjórum árum síðar.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 Gerður Steinþórsdóttir (5. september 1998). „Nóbelsverðlaunahafinn sorgmæddi“. Morgunblaðið. bls. 13-15.
  2. „Feimnin gat breyst í þótta“. Okkar á milli. 1. janúar 1988. bls. 3.
  3. 3,0 3,1 Gidske Anderson (17. desember 1998). „Nóbelshöfundurinn Sigrid Undset“. Morgunblaðið. bls. 28-30.
  4. „Sigrid Undset, Kristin Lavransdatter“. Ársrit Hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn. 1. janúar 1923. bls. 152-153.
pFad - Phonifier reborn

Pfad - The Proxy pFad of © 2024 Garber Painting. All rights reserved.

Note: This service is not intended for secure transactions such as banking, social media, email, or purchasing. Use at your own risk. We assume no liability whatsoever for broken pages.


Alternative Proxies:

Alternative Proxy

pFad Proxy

pFad v3 Proxy

pFad v4 Proxy